137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:51]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hv. þm. Helga Hjörvars, formanns efnahags- og skattanefndar, eiginlega fyrir hönd hæstv. samgönguráðherra sem kom hér áðan, hvort hann sé ekki til í að vinna dálítið hratt og vel og vandlega að þessu máli þannig að öll sjónarmið komi fram fyrir þá sem hugsanlega gætu lent í þessu eða hugsanlega ekki.

Nú er það þannig að þessi lög eru ótímasett. Þau munu gilda um aldur og ævi héðan í frá ef þetta frumvarp verður samþykkt. Hins vegar er í greinargerð og annars staðar talað um að þetta sé út af hruninu. Þá er það spurning mín til hv. þingmanns: Er ekki eðlilegt að þetta sé takmarkað við hrunið og sagt berum orðum það sem stendur reyndar í athugasemdum, að þessi lög séu sett vegna hrunsins og ætluð til að hraða rannsókn þeirra gífurlega flóknu mála sem þar koma upp en að þetta sé ekki sett almennt yfir land og lýð um alla framtíð? Ég hef því miður haft sögur af því að skattkerfið sé mjög ómanneskjulegt gagnvart sumum skattgreiðendum sem eru ekki nógu röskir við að svara erindum þess eða telja fram. Þetta vildi ég gjarnan fá fram í hv. efnahags- og skattanefnd þar sem ég á líka sæti. Við gætum fundið einhverja lausn á þessu sem nær fram markmiðum frumvarpsins án þess að taka á sig þá hættu að ganga lengra en menn ætla.

Ég vil minna á að skattrannsóknarstjóri gerir líka stikkprufur á fyrirtækjum varðandi virðisaukaskatt og sumir hafa sagt mér að ef hann kæmi í heimsókn gætu þeir alveg eins lokað vegna mjög kostnaðarsams eftirlits.