137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[12:14]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessar upplýsingar sem hér koma fram eru væntanlega enn ein rökin fyrir því að við ættum að drífa okkur í að skoða þetta mál mjög hratt, en auðvitað vandlega, hér í þinginu svo að við lendum ekki í því að svona mál hugsanlega fyrnist. Nú er bráðum liðið eitt ár síðan bankarnir hrundu og það kemur annað ár eftir það ár o.s.frv. þannig að þetta finnst mér segja okkur að við eigum að drífa í að koma þessu máli í gegn sem allra fyrst. Ég ítreka það sem ég sagði áðan að við hefðum átt að vera búin að gera það fyrir löngu síðan. Best hefði auðvitað verið að við hefðum verið með lagasetninguna skýra að þessu leyti áður en bankarnir hrundu en menn verða stundum værukærir þegar vel gengur og hlusta kannski ekki nógu vel á yfirvöld sem vilja fá auknar heimildir. Eins og ég skil málið göngum við líklega ekki lengra en þangað sem Norðurlöndin eru nú þegar komin í sinni löggjöf þannig að þegar það bætist við að þessi lög geta tengst gjaldþrotalögunum, og þar eru fyrningarfrestir 24 mánuðir gagnvart uppskiptum sem við ræddum um áðan, finnst mér það líka benda til þess að við eigum að drífa okkur í að klára þessi lög sem allra fyrst.