137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

niðurstaða fjárlaganefndar í Icesave-málinu.

[15:07]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er alveg sammála formanni Sjálfstæðisflokksins um þetta. Ég kýs að skilja hann þannig að það sé mikilvægt að við vöndum okkur öll við að vinna þannig úr þessu máli að niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar sé það sem henni er vonandi ætlað að vera af hálfu allra þeirra sem að henni standa, efniviður í farsæla niðurstöðu í þessu máli sem þjónar hagsmunum Íslands vel. Það er mjög mikilvægt að okkur takist vel til í þeim efnum, að tala um þessa niðurstöðu af yfirvegun, vera varkár í túlkunum og yfirlýsingum sem gætu átt eftir að þvælast fyrir okkur síðar og hitta okkur sjálf fyrir í ferlinu sem fram undan kann að vera í þessu máli.

Það er mikilvægt að okkur takist vel að útskýra að þetta séu málefnaleg, útskýranleg og sanngjörn skilyrði eða umgjörð af okkar hálfu og miðuð við það að svona treystum við okkur til að vinna úr málinu á þann hátt að það samrýmist markmiðum um uppbyggingu efnahagslífs á Íslandi. Við þurfum að afla þessa skilnings hjá gagnaðilum okkar. Að því er sjálfsögðu unnið þannig að ég vona að við finnum farsælar leiðir til að halda á þessu í framhaldinu. Það er örugglega ekki ásetningur nokkurs manns sem hér leggur sitt af mörkum að stuðla að því að málið fari aftur upp í loft, að stuðla að því að við séum engu nær með þessari niðurstöðu, málið sé jafnóleyst og haldi áfram að þvælast fyrir okkur og tefja tímann þannig að ég auðvitað bið um samstarf allra aðila við það. Ekki síst er mikilvægt að fjárlaganefnd sjálf útlisti og rökstyðji sína efnislegu niðurstöðu í málinu á þann hátt að það verði okkur til gagns og þetta sé efniviður í þá farsælu niðurstöðu í málinu sem við hljótum öll að vona að sé.