137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

niðurstaða fjárlaganefndar í Icesave-málinu.

[15:09]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þetta sem ég er að vekja athygli á að er mikilvægt, að við höldum ekki þannig á málinu núna á fyrstu stigum að við komum viðmælendum okkar þannig fyrir sjónir að við séum að reyna að blekkja þá með því að við séum að gera eitthvað annað en í reynd er verið að gera. Ef ég tek lán upp á 10 milljónir og lofa að borga 1 milljón á ári í 10 ár til að endurgreiða lánið, fer svo með það heim til konu minnar til að fá hana til að skrifa upp á en hún neitar að skrifa upp á og setur þann fyrirvara að endurgreiðslur eigi sér einungis stað ef tekjur heimilisins þróast með þeim hætti að við getum staðið undir greiðslubyrðinni (Utanrrh.: Þá ferðu til …) kem ég til baka með þá uppáskrift eiginkonu minnar og þau skilaboð að samningnum hafi verið hafnað. Því miður treystum við okkur ekki til að borga 1 milljón á ári í 10 ár, heldur einungis það sem við höfum aflögu á þessu 10 ára tímabili og geri viðkomandi aðila gagntilboð með þessum hætti. En ég kem ekki til hans og held því fram að samningurinn standi (Forseti hringir.) óbreyttur og ég sé hingað kominn með staðfestingu þá sem um hafi verið samið.