137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

niðurstaða fjárlaganefndar í Icesave-málinu.

[15:10]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það dettur að sjálfsögðu engum manni í hug að við kæmumst upp með það, þó að við værum svo barnaleg að reyna það, að telja gagnaðilum okkar trú um að það sé eitthvað allt annað fólgið í þessari efnislegu afgreiðslu Alþingis en þar sannanlega er. Þeir fylgjast dag frá degi með því sem hér er rætt og skrifað og þetta er náttúrlega þegar búið að þýða og verið að kynna og upplýsa um það sem hér er að verða með niðurstöðu Alþingis og það er mikilvægt að það sé.

Í mínum huga er þetta í grunninn mjög einfalt. Þetta er efnahagsleg og að hluta til lagaleg umgjörð um það hvernig við ætlum að standa að úrvinnslu þessa samkomulags um lyktir þessa máls. Það eru öryggisákvæði í þessu sem og í samningnum sjálfum þannig að ef frávik verða frá þeim áætlunum sem lögð eru til grundvallar er það fyrst og fremst vísun á það að við þurfum að taka upp viðræður við samningsaðila okkar um framhaldið og vinna úr þeim aðstæðum sem þá kæmu upp. Ég fagna því að formaður Sjálfstæðisflokksins er mér sammála um að (Forseti hringir.) það sé mikilvægt að við vöndum okkur mjög við hógværa túlkun á þessari niðurstöðu.