137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

Icesave-samkomulagið.

[15:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að beina spurningum til hæstv. fjármálaráðherra varðandi hina svokölluðu Icesave-samninga. Þetta mál er nokkuð ruglingslegt finnst mér í dag því að ég fæ ekki betur séð en að þeir sem voru sammála um að taka málið út úr nefndinni séu býsna ósammála um túlkanir og ýmislegt varðandi þá ákvörðun sína.

Ég tel nokkuð víst að það þurfi að semja aftur um þetta mál og er því farinn að hugsa um hvernig staðið verði að þeim samningum. Hingað var ráðinn erlendur sérfræðingur til að hjálpa til við rannsókn á bankahruninu sem var mjög gott og hún hefur komið með nýja og faglega sýn á þá hluti. Ég hef líka velt fyrir mér hvers vegna það var ekki gert varðandi Icesave-samkomulagið því að ekki eru síður miklir hagsmunir þar í húfi, væntanlega ekki síðri hagsmunir en varðandi rannsókn á bankahruninu. Því langar mig að biðja ráðherra að upplýsa um það hvort hann muni kalla til starfa þá samninganefnd sem gerði upphaflegu samningana fari svo að semja þurfi upp á nýtt eða hvort hann sjái fyrir sér að leitað verði nú til erlendra sérfræðinga og þeir beðnir um aðstoð við samningagerðina.

Ég tel einsýnt að það sem liggur fyrir Alþingi sé upptaka á þessum samningum og því er ósköp eðlilegt að í ljósi þess að búið er að gjörbreyta því plaggi sem fyrst var lagt fram — það er mun skárra sem nú liggur fyrir þó að það sé ekki fullkomið — svari ráðherra því hvort hann sé reiðubúinn og ætli sér að kalla til þá bestu fáanlegu sérfræðinga sem eru til að gæta hagsmuna Íslands eða hvort hann hyggist kalla til starfa samninganefndina sem gerði upphaflegu samningana.