137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

Icesave-samkomulagið.

[15:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ástæðan fyrir því að ég kem með þessa spurningu er að málið er hálfruglingslegt. Það virðist ekki vera samhljómur milli þeirra sem ákveða að taka þetta mál út úr nefnd hvernig beri að túlka þetta. Ég tel því ekkert athugavert við að við veltum því fyrir okkur hvernig við ætlum að standa að því að gæta hagsmuna Íslendinga, komi til þess að ræða þurfi við Breta og Hollendinga á ný. Ef ekki þarf að gera það — segjum bara að þeir fallist á það sem fram hefur komið, þær breytingartillögur sem verið er að gera sem má velta fyrir sér hvort skynsamlegt sé að setja fram með þessum hætti, hvort þær eru nógu ítarlegar, því að eins og a.m.k. formaður Sjálfstæðisflokksins hefur haldið fram er um nýtt samningstilboð að ræða — hljóta menn að vera að tala um að semja upp á nýtt og taka upp samningana. Því er ósköp eðlilegt að við veltum fyrir okkur hvernig að því verður staðið, komi sú staða upp. Það getur vel verið að hæstv. fjármálaráðherra geti ekki svarað því núna en ég vil gjarnan að hann velti því fyrir sér að kalla fyrir færustu sérfræðinga, komi (Forseti hringir.) þessi staða upp.