137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

Icesave-samkomulagið.

[15:31]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég er ekki sammála því að það sé tímabært að fara út í vangaveltur um óorðna hluti sem við vonandi erum sammála um að við vonumst til að verði ekki. Ég held að það þjóni ekki okkar hagsmunum á þessu stigi málsins að senda þau skilaboð héðan að við séum að gera eitthvað annað en leita að efnislegri og farsælli lausn í málinu. Ég held að það sé augljóslega ekki í þágu íslenskra hagsmuna að reyna að senda einhver önnur skilaboð frá Alþingi Íslendinga á þessu stigi málsins. Ég kem a.m.k. ekki auga á hvernig í ósköpunum það ætti að hjálpa okkur ef við ætluðum eftir alla þessa vinnu og allan þann tíma sem í það hefur farið að leita að þessari bestu mögulegu niðurstöðu málsins af hálfu Alþingis að við ætluðum þá, meira að segja áður en hún verður komin til umfjöllunar, að senda út þær túlkanir og þau skilaboð að þetta væri alls engin lausn og alls engin niðurstaða. Ég fæ ekki botn í þá hugsun og vona að það sé eitthvað annað sem þar er á ferðinni, að menn hafi þá ekki skoðað málið nógu vel eða að við eigum einfaldlega eftir að ræða okkur í gegnum það sem við auðvitað gerum.

Varðandi samninganefndina á sínum tíma (Forseti hringir.) leitaði hún og fékk erlenda ráðgjöf og aðstoð sem kostaði sitt eftir því sem ástæða var talin til en hafði svo aðgang að íslenskum sérfræðingum eftir þörfum.