137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

yfirstjórn fyrirtækja.

[15:33]
Horfa

Árni Johnsen (S):

Virðulegi forseti. Það er nokkuð sem hefur verið svolítið áberandi undanfarin missiri í stjórn landsins og væri gaman að spyrja samgönguráðherra um það en beinum samt spurningunni að hæstv. fjármálaráðherra.

Það hefur verið skortur á verksviti. Það er skelfilegt þegar fjallað er um vandasöm og viðkvæm mál að sú reynsla sé ekki að baki sem þarf til að sem mestur árangur náist. Ég spurði hæstv. viðskiptaráðherra fyrir skömmu um fyrirtækin í landinu sem hafa verið í erfiðleikum og bankar eða skilanefndir hafa eftir atvikum yfirtekið. Hæstv. viðskiptaráðherra treysti sér ekki til að svara þeirri spurningu og í ljósi þess að bankar landsins njóta síður en svo trausts fólksins í landinu í dag skiptir miklu máli að upplýst sé um marga þætti varðandi framgang mála sem snerta bankana.

Fyrirtækin í landinu eru lykillinn að því að þjóðlífið gangi eðlilega, að fólk hafi atvinnu. Þess vegna er eðlilegt að spyrja um það og ætlast til að því sé svarað hvaða fyrirtæki hafa verið yfirtekin af bönkum og skilanefndum með beinum og óbeinum hætti, hverjir skipa stjórnir þeirra og í umboði hverra. Í ljósi alls þess sem á undan er gengið kann að vera að í ákveðnum tilvikum og í ákveðnu ferli sé þetta mjög viðkvæmt mál og liggi betur um stund í stað þess að taka það upp strax en í heild hlýtur að vera hægt að setja það á borðið og segja stöðuna eins og hún er. Og síðan verður hæstv. ráðherra að meta í hverju tilviki hvað hann getur gengið langt í upplýsingum um það (Forseti hringir.) en ekki að vísa því algerlega frá. Ég óska eftir því að hæstv. fjármálaráðherra taki þetta mál sjálfur upp.