137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

yfirstjórn fyrirtækja.

[15:35]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður talaði um stjórn landsins undanfarin missiri þegar hann fjallaði um skort á verksviti (Gripið fram í.) Mér er tamara að tala um verklagni en verksvit en hvort tveggja er til og að sjálfsögðu snýst þetta um að menn vandi vinnubrögð og noti aðferðafræði sem er skynsamleg og hentar aðstæðum. Við stöndum frammi fyrir gerbreyttum aðstæðum að þessu leytinu til að bankar og fjármálastofnanir, bæði starfandi bankar og eins skilanefndir, leysa til sín eignarhlut í fyrirtækjum í þó nokkrum tilvikum þar sem þau ganga að veðum vegna lána til slíkra fyrirtækja og/eða eigendurnir eru einfaldlega komnir almennt í þrot og verið er að verja hagsmuni viðkomandi aðila með því að yfirtaka reksturinn. Eignaumsýslufélagið sem Alþingi hefur sett lög um mun taka til starfa innan skamms. Verið er að efna í stjórn þess og undirbúa stofnun þess formlega. Sama gildir um bankasýsluna. Þá liggur aðferðafræðin af hálfu ríkisins þar fyrir. Bankarnir sjálfir hafa allir verið að móta sína aðferðafræði og undirbúa sig fyrir það verkefni sem þeir eru að sjálfsögðu byrjaðir á, að vinna úr skuldavanda fyrirtækja, greiða úr hagsmunum þeirra og þeir móta sína aðferðafræði í þeim efnum. Enn sem komið er er ekkert fyrirtæki af völdum hrunsins formlega komið í hendur ríkisins sjálfs. Það er þá í höndum banka í eigu ríkisins eða tímabundið í eigu ríkisins eða skilanefnda sem eru í öðrum farvegi eins og kunnugt er.

Ég get tekið undir með hv. fyrirspyrjanda að það er auðvitað mikilvægt að sem mest gagnsæi ríki um aðferðafræðina í þessum efnum og að upplýsingar séu veittar. Það er einmitt ætlunin að eignaumsýslufélagið þjóni m.a. þeim tilgangi að vera eftir atvikum til ráðgjafar ef eftir því er leitað og móta aðferðafræði sem geti orðið fordæmi fyrir vönduð vinnubrögð í þessum efnum.