137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

yfirstjórn fyrirtækja.

[15:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er alveg sjálfsagt mál að hafa það í hyggju að undirbúa að veita Alþingi upplýsingar um þessi mál. Ég get reyndar upplýst það hér að ég áforma að gera Alþingi grein fyrir stöðu endurreisnar í fjármálakerfinu með skýrslu strax á haustmánuðum. Vonandi verður sem fyrst hægt eftir að þing kemur saman í október að reiða fram skýrslu þar sem farið er yfir þann þátt málsins alveg frá sl. hausti og til og með þessa hausts, bæði hvað varðar þá fjármuni sem ríkið hefur sett þarna inn, á hvaða grunni þeim hefur verið ráðstafað o.s.frv. Það má vel taka það til athugunar að aðkoma ríkisins að fyrirtækjarekstri, þ.e. bein og aðallega þó óbein, verði höfð þar með. Það eru nokkur stór og þekkt dæmi þar sem gamlir og nýir bankar með komu aðstoð ríkisins að lausn mála, t.d. í tilviki Icelandair Group og Sjóvár. Nokkur fyrirtæki hafa fengið úrlausn og eru komin í hendur nýrra aðila, það hafa menn séð í fjölmiðlum. (Forseti hringir.) En ég vil meina það að bankarnir sjálfir mættu taka það til skoðunar að reiða fram ítarlegri upplýsingar á vinnslustigi þessara mála. Þegar Árvakur var endurfjármagnaður með tilteknum hætti í vetur varð af því nokkur umræða (Forseti hringir.) sem ég held að hefði getað orðið málefnalegri ef upplýsingar hefðu verið reiddar fram með greiðari hætti.