137. löggjafarþing — 53. fundur,  17. ág. 2009.

breyting á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðsins.

89. mál
[15:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Steinunn Valdís Óskarsdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég geri grein fyrir tveimur minni háttar breytingum á frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna tilfærslu verkefna innan Stjórnarráðs Íslands. Málið var kallað aftur til nefndar milli 2. og 3. umr. og allsherjarnefnd fundaði í morgun vegna þessara breytingartillagna.

Við gerum tvær, eins og ég sagði, minni háttar breytingar. Önnur er tæknilegs eðlis og eins og segir í breytingartillögunni hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Við 67. gr. Greinin orðist svo:

Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:

a. 1. mgr. orðast svo: Fjármálaráðherra fer með eignarhlut íslenska ríkisins í Ríkisútvarpinu ohf.“

Hin breytingartillagan sem við gerum við stjórnarráðsbandorminn er að gildistími frumvarpsins verði 1. október en ekki 1. september. Það eru ekki nema tvær vikur til mánaðamóta og þetta þótti óþarflega stuttur tími til að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem óhjákvæmilega þarf að gera á verkaskiptingu milli ráðuneyta og stofnana ráðuneytanna þannig að allsherjarnefnd var samstiga í því að gefa þessu lengri tíma þannig að gildistíminn yrði sem sagt 1. október í staðinn fyrir 1. september.

Að öðru leyti skýrir málið sig sjálft. Þetta eru, eins og ég segi, bara tvær minni háttar breytingar en efnisleg umræða um stjórnarráðsbandorminn hefur farið fram hér og ég reikna með að náðst hafi samkomulag milli forseta og þingflokks Sjálfstæðisflokksins um að málið verði tekið hér aftur upp á morgun og rætt efnislega og þá greidd atkvæði um málið.