137. löggjafarþing — 53. fundur,  17. ág. 2009.

laun forseta Íslands.

168. mál
[15:57]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram hvort hann telji ekki að jafnframt þurfi að breyta 9. gr. stjórnarskrárinnar þegar þetta frumvarp er lagt fram, en þar segir í seinni málslið, með leyfi forseta:

„Ákveða skal með lögum greiðslur af ríkisfé til forseta og þeirra, sem fara með forsetavald. Óheimilt skal að lækka greiðslur þessar til forseta kjörtímabil hans.“

Ef verið er að breyta, eins og fram kemur í þessu frumvarpi, 8. gr. stjórnarskrárinnar þá hlýtur, frú forseti, að þurfa að skoða 9. gr. sem sérstaklega tekur á því að óheimilt sé samkvæmt stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að lækka laun forseta eða þessar greiðslur sem nefndar eru í 9. gr. til forseta og þeirra er fara með forsetavald og hvort þá sé ekki ástæða til að breyta jafnhliða, til að þetta standist nú stjórnarskrá, 9. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.

Frú forseti. Mér finnst stundum eins og þessar sparnaðarráðstafanir í ríkisfjármálum eins og þessar séu einfaldlega til þess fallnar að reyna að afla vinsælda en skipti í raun og veru engu máli í þeim sparnaðarleiðum sem fram undan eru við fjárlagagerð og er ekki alveg viss um að sú aðferð hugnist mér þegar hv. efnahags- og skattanefnd eða hæstv. forsætisráðherra sem í upphafi lagði þetta til er að afla sér vinsælda með þessum hætti því að þetta er og hefur lítið sem ekkert að segja inn í þann niðurskurð sem fram undan er í ríkisfjármálum.