137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:43]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir framsögu hans og þær skýringar sem hann hefur gefið á nefndaráliti meiri hlutans. Mig langar til að vekja athygli á mikilvægasta þætti málsins eins og það liggur núna fyrir þinginu með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar, efnahagslegu fyrirvörunum og þeim takmörkunum sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að gerðar verði á ríkisábyrgðinni. Nú skiptir öllu að menn séu sammála um túlkunina og skilninginn.

Er það ekki ábyggilega þannig að sú ríkisábyrgð sem meiri hlutinn leggur hér til að verði veitt er takmörkuð þannig að hún gildi ekki lengur en í líftíma lánasamninganna, þ.e. í mesta lagi til ársins 2024? Jafnvel þótt vísað sé til þess að viðræður þurfi að eiga sér stað ef þau atvik komi upp sem leiða til takmarkaðrar ríkisábyrgðar (Forseti hringir.) sé ljóst að engin ríkisábyrgð verði veitt án aðkomu Alþingis fram yfir þennan tíma?