137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:48]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom í ræðu minni áðan reyndi fjárlaganefnd að fara þann veg að hleypa ekki öllu í uppnám. Það þýðir að ekki er verið að hafna samningunum sem slíkum heldur leita leiða til að setja mjög stranga fyrirvara samkvæmt þeim heimildum sem þar eru, eða við teljum okkur hafa þjóðréttarlega og sem Alþingi. Menn geta síðan túlkað sem svo að það felli ákvæðin en það felur ekki í sér að menn þurfi sjálfkrafa að setjast að samningaborði vegna þess að ég held að Bretar og Hollendingar eigi að geta samþykkt alla þessa fyrirvara sem hér hafa verið settir fram, hafandi sameiginlega hagsmuni af því að skuldbindingar Íslendinga verði greiddar. Þessar tvær þjóðir hafa þá sameiginlegu hagsmuni fyrst og fremst að fá sína peninga endurgreidda.

Þessir fyrirvarar eru mjög skýrir og afdráttarlausir en ég tel að það megi fá þá alla (Forseti hringir.) viðurkennda án þess að kallað verði til nýrra samningaviðræðna um það mál. Á það reynir í framhaldi af okkar samþykktum og þá kemur í ljós hver viðbrögð Hollendinga og Breta verða við þessum fyrirvörum þingsins.