137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:50]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég kalla ekki eftir því að nauðsynlegt sé að fara í aðra samninga ef þær þjóðir sem við stöndum í deilum við eru sáttar við okkar niðurstöðu og forsendur. Það skiptir hins vegar afskaplega miklu máli að þeir sem hafa forustu um þetta mál tali skýrt um hvort þessi samningur sem skrifað var undir, með þeim skuldbindingum sem hann felur í sér, sé þessi grundvöllur og það sem eigi að byggja á eða hvort við séum að setja skilyrði sem ekki er hægt að hlaupast frá. Það er stóra einstaka málið því ef það koma upp deilur um þessi mál í nánustu framtíð munu menn vilja vita hver túlkun forustumanna þingsins var sem og þeirra aðila sem um þetta mál fjölluðu.

Ég vil því fá skýr svör frá hv. þingmanni: Telur hann að ef til deilu kemur milli aðila, (Forseti hringir.) sé samningurinn sem skrifað var undir það plagg sem á að vísa til eða eru það fyrirvararnir sem ganga lengra?