137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:53]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur stundum einkennt þetta mál að menn hafa haft uppi fullyrðingar um aðkomu manna að málinu á ýmsum stigum. Ég kannast ekki við að þingflokkur Samfylkingarinnar hafi samþykkt samningana óséða. Þeir voru kynntir ítarlega. Það er hægt að gagnrýna þingflokkana eða þingmenn fyrir að hafa samþykkt þá en það var gert og þetta var sett inn í þingið. Þar hefur það fengið þinglega meðferð. Þegar við afgreiðum mál inn í þingið er það oft gert vegna þess að Alþingi hefur síðasta orðið og ræður því hver niðurstaðan verður. Þannig hefur það verið í þessu máli og það verður unnið út frá því að bæta málið. Margt af því sem kemur fram í fyrirvörunum tengist í sjálfu sér ekki samningnum öðruvísi en að viðhalda lagalegri óvissu.

Það var sameiginlegur skilningur þeirra þingmanna sem ég hlustaði á að það væri nauðsynlegt að komast áfram með þetta mál og ljúka því. Það átti sér langan aðdraganda og var búið að fara í ákveðið ferli eins og ég rakti (Forseti hringir.) áðan og mikilvægt var að klára málið. Þess vegna var það sett í hendur þingsins. Við höfum tekið okkur góðan tíma til að fjalla um það og niðurstaðan liggur hér á borðinu.