137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:57]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við gerðum ýmis herfileg mistök í aðdraganda þessa máls. Um eitt af stærstu mistökunum er einmitt fjallað á bls. 4 í nefndaráliti meiri hlutans. Þar stendur, með leyfi forseta:

„Icesave-samningarnir byggjast á þeirri meginforsendu að íslensk stjórnvöld höfðu ítrekað nokkrum sinnum í aðdraganda bankahrunsins að þau mundu standa við skuldbindingar samkvæmt tilskipun 94/19/EB og að yfirvöld styddu Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta til þess ef þörf krefði.“

Íslensk stjórnvöld, ríkisstjórnin sem sat í lok síðasta árs sagði ítrekað við Breta og Hollendinga að við ætluðum að borga og styðja við tryggingarsjóðinn ef þess gerðist þörf. Þetta er rétt.

En síðan kemur annað sem er rangt, virðulegi forseti. Þarna kemur fram að mikilvægt sé að hafa í huga að þessar yfirlýsingar voru gefnar áður en bankarnir féllu (Forseti hringir.) en síðan hafi spurningar vaknað um hvort ætti að standa við þetta. Þetta er alrangt. Þessar yfirlýsingar voru gefnar vegna spurninga Breta út af stöðunni sem var komin upp, rauðblikkandi ljósum. Ég vil spyrja framsögumann af hverju þessi söguskýring er röng. Þetta er kolrangt.