137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:02]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti 1. minni hluta fjárlaganefndar um 136. mál á þskj. 204, stjórnarfrumvarpi um ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Ég vil í upphafi máls míns færa formanni og varaformanni nefndarinnar sérstakar þakkir fyrir þrautseigjuna og mjög gott samstarf, svo og öðrum samverkamönnum í fjárlaganefnd í þeirri vinnu sem þar hefur farið fram. Sömuleiðis vil ég nota tækifærið og þakka starfsfólki nefndasviðs Alþingis fyrir þess frábæru störf. Það góða fólk hefur lagt nótt við dag í störfum sínum og gert þar með nefndinni fært að vinna með þeim hætti að þessu máli sem raun ber vitni. Kröfur ríkisstjórnarinnar og forustu Alþingis um hraða vinnslu þessa máls hafa verið slíkar að tæpast er til eftirbreytni eða sóma.

Deilan vegna uppgjörs Icesave-reikninganna er án efa eitt erfiðasta deilumál sem Íslendingar hafa staðið frammi fyrir frá lýðveldisstofnun. Allt frá því að Landsbanki Íslands hf. fór í þrot á haustmánuðum árið 2008 hefur deilan magnast. Strax og þrýstings frá innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi varð vart beittu stjórnvöld þar í landi öllum brögðum til að fá íslensk stjórnvöld til að gangast við skuldbindingum sem fullkomin óvissa var og er um hvort leggja eigi á herðar íslensks almennings. Bretar og Hollendingar hafa allar götur frá því í haust neitað Íslendingum um þann sjálfsagða rétt að leita lagalegrar niðurstöðu í deilunni. Þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi strax í upphafi lýst því yfir að þau muni ávallt standa við lagalegar skuldbindingar dugði það ekki Bretum og Hollendingum á annan hátt en þann að þessi stjórnvöld kröfðust þess af Íslendingum að þeir greiddu ýtrustu kröfur.

Fyrir utan lagalega óvissu beittu þjóðirnar Ísland gríðarlegum pólitískum þrýstingi þegar Íslendingar voru hvað viðkvæmastir fyrir. Meðan íslensk stjórnvöld börðust við að afla nauðsynlegs stuðnings frá alþjóðasamfélaginu vegna þess gríðarlega efnahagstjóns sem fall bankanna hafði í för með sér lögðu Bretar og Hollendingar stein í götu Íslendinga hvar sem þeir komu því við.

Í þessu andrúmslofti magnaðist deilan sem frumvarpinu er ætlað að taka á.

Afstaða 1. minni hluta til málsins helgast af brýnni nauðsyn þess að ná almennri alhliða sátt um málefni Landsbanka Íslands hf. og annarra íslenskra banka er stöðva þurftu starfsemi í októbermánuði 2008. Þá eru uppi miklar efasemdir hjá 1. minni hluta um gildi þeirra ráðstafana sem gerðar hafa verið og þarf að gera af hálfu íslenska ríkisins til að bregðast við því neyðarástandi sem leiddi af hruni bankanna.

Til þessa telst sú nauðsyn að tryggja sátt við breska og hollenska ríkið um stöðu þeirra og íslenska tryggingarsjóðsins við slitameðferð Landsbankans og uppgjör krafna á hendur Tryggingarsjóði innstæðueigenda í kjölfar ákvarðana ríkjanna á árinu 2008 um að leysa til sín sparifjárinnstæður í útibúum bankans í Bretlandi og Hollandi.

Fyrsti minni hluti lítur svo á að umræddar ákvarðanir hafi verið teknar á ábyrgð hvors ríkjanna um sig, viðhald og framkvæmd tryggingakerfa á grundvelli laga og tilskipana þar að lútandi sé í reynd sameiginlegt vandamál þeirra ríkja sem hagsmuna eigi að gæta og raunar allra ríkja sem áhrif tilskipananna ná til. Markast afstaða 1. minni hluta til breytingartillagna meiri hluta nefndarinnar af þessu viðhorfi.

Áður en vikið verður nánar að efnisatriðum breytingartillagna þeirra sem fyrir liggja er nauðsynlegt í ljósi umfangs málsins að gera grein fyrir forsögu þess og þeim forsendum og röksemdum sem afstaða 1. minni hluta fjárlaganefndar byggir á.

Ljóst er af öllum gögnum málsins að frumvarpið mundi að óbreyttu hafa veruleg áhrif á lífsafkomu Íslendinga um langt árabil. Þeim skuldbindingum sem af því leiðir yrði einungis mætt með hærri sköttum, minni kaupmætti og samdrætti í þeirri öflugu velferðarþjónustu sem byggð hefur verið upp á undanförnum árum. Það er því ekki óeðlilegt að mikil umræða hafi átt sér stað um efni frumvarpsins um allt þjóðfélagið og sýnist sitt hverjum.

Samdóma álit allra þeirra sem um þessi mál hafa fjallað er að orsakir þess megi rekja til blöndu af blekkingarleik, aðgerðaleysi, mistökum og uppgjöf.

Vegna Evróputilskipunar var Íslandi gert að koma á fót innlánstryggingakerfi og stofna sérstakan Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta í því skyn. Sjóðnum var meðal annars ætlað að greiða þeim til baka sem áttu sparnaðarreikninga í íslenskum banka ef hann færi í þrot. Í tilskipuninni er hins vegar heimilt að neita bönkum um að stofna útibú ef fjárhagsstaða þeirra þykir gefa tilefni til. Eins og menn þekkja var Landsbankanum þó leyft að safna gífurlegum fjárhæðum í erlendum útibúum á svokallaða Icesave-reikninga í Bretlandi og Hollandi. Í aðdraganda og kjölfar hruns íslensku bankanna kom þetta mál svo fram með fullum þunga.

Þegar reynt var að greiða úr því voru samskipti við fjármálayfirvöld viðkomandi landa mjög merkt þeirri óvissu og að mörgu leyti risavöxnu viðfangsefnum sem við var að glíma og við það að halda efnahagslífi þjóðarinnar gangandi.

Skilaboðin frá ríkisstjórn Íslands, sérstaklega frá fjármálaráðherra og viðskiptaráðherra, voru afar misvísandi. Viðskiptaráðherra virðist hafa fullvissað Breta lengi framan af um að íslenska ríkið ábyrgðist innstæðurnar á Icesave-reikningunum, líkast til með þeim afleiðingum að sífellt bættist á reikningana, en fjármálaráðherra var á öðru máli eins og fram kom í símtali hans við fjármálaráðherra Breta.

Margir virtir lögspekingar settu strax fram þau sjónarmið að hlutverk innlánatryggingakerfa samkvæmt reglum ESB-/EES-svæðisins ætti aldrei að takast á við allsherjarbankahrun, heldur aðeins fall einstakra banka. Sama sjónarmið kemur fram í skýrslum og yfirlýsingum frá Seðlabanka Evrópu og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Veigamikil rök hnigu því strax frá upphafi að því að íslenska ríkið bæri ekki ábyrgð á skuldum vegna Icesave-reikninganna umfram þá upphæð sem var til reiðu í Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta.

Hinn 14. nóvember 2008 verða ákveðin vatnaskil í þrátefli Íslendinga við bresk og hollensk stjórnvöld þegar skrifað var undir yfirlýsingu um svokölluð „umsamin viðmið“ til lausnar Icesave-deilunni.

Áður hafði að sjálfsögðu ýmislegt gengið á og er í því tilfelli rétt að nefna nokkrar dagsetningar:

6. október féllu bankarnir.

Óformlegar viðræður á milli Hollendinga og Íslendinga áttu sér stað þann 11. október.

Svokallaður Ecofin-fundur með fjármálaráðherra var haldinn 4. nóvember.

Loks komu Frakkar að þessari deilu og gengust fyrir því að aðilar næðu sátt um hin svokölluðu umsömdu viðmið sem stundum eru nefnd Brussel-viðmiðin. Það gerðist 14. nóvember.

Í kjölfar þess samkomulags var undirrituð ný viljayfirlýsing á milli Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Íslendinga. Það gerðist 15. nóvember.

Hinn 5. desember samþykkti svo Alþingi tillögu til þingsályktunar þar sem ríkisstjórninni var falið að leiða til lykta samninga við viðeigandi stjórnvöld vegna innstæðna í útibúum íslenskra viðskiptabanka á Evrópska efnahagssvæðinu á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar höfðu komið sér saman um. Laut þingsályktunartillagan fyrst og fremst að því að ríkisstjórninni skyldi falið að ganga til samninga við bresk og hollensk stjórnvöld vegna innlánsreikninga Landsbankans í löndunum tveimur.

Mismunandi skilningur er lagður í þann áfanga í deilunni sem hér um ræðir. Oddvitar þeirrar ríkisstjórnar sem þá var við völd, þau Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þáverandi utanríkisráðherra, og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, hafa sagt að með samþykki hinna umsömdu viðmiða hafi íslensk stjórnvöld tryggt aðkomu Evrópusambandsins að málinu. Þar með hafi Evrópusambandið orðið beinn aðili að samningaviðræðum landanna sem hafi verið afar mikilvægur áfangi því að regluverk sambandsins hafi þar verið lagt til grundvallar.

Núverandi hæstv. fjármálaráðherra leggur í leiðréttingu fjármálaráðuneytisins, sem dagsett er 25. júlí sl., þann skilning í málið að í fyrrahaust hafi íslensk stjórnvöld fallist á „að þeim bæri að greiða innstæðueigendum í Bretlandi og Hollandi hluta af innstæðum þeirra í Landsbanka Íslands (LÍ) í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins um innstæðutryggingar“.

Ég tek hins vegar undir túlkun og afstöðu hv. þm. Steingríms Jóhanns Sigfússonar, formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, sem birtist í Morgunblaðsgrein þann 24. janúar 2009, en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þó má segja að enn sé örlítil vonarglæta eftir í málinu því enn á Tryggingarsjóður innstæðueigenda eftir að taka við skuldunum og tryggingarupphæðirnar eru því formlega séð enn á ábyrgð viðkomandi ríkja. Eins og undirritaður lýsti yfir við atkvæðagreiðslu um málið í þinginu 5. desember síðastliðinn lítur þingflokkur Vinstri grænna á samninginn sem riftanlegan eða ógildanlegan nauðungarsamning.“

Þessi afstaða er í fullu samræmi við afstöðu meiri hluta utanríkismálanefndar sem kom fram í greinargerð með þingsályktun Alþingis þann 5. desember en þar segir, með leyfi forseta:

„Í þessu sambandi var nefndin upplýst um þau meginsamningsmarkmið sem stjórnvöld hafa sett sér og fram kom að stöðu Íslands verði haldið á lofti í þeim viðræðum sem í hönd fara þannig að sem hagstæðust niðurstaða fáist fyrir Ísland. Leiði samningar ekki til ásættanlegrar niðurstöðu fyrir Ísland er það sjálfstætt úrlausnarefni hvernig stjórnvöld og Alþingi vinna úr þeirri stöðu, en hin umsömdu viðmið fela ekki í sér að stjórnvöld afsali sér með einhverjum hætti lagalegri stöðu að þjóðarétti sem ríkið hefur í dag.“

Taka ber fram að ekki var farið að vinna á grunni þingsályktunarinnar fyrr en minnihlutastjórn Samfylkingar og Vinstri grænna hafði tekið til starfa og skipað nýja samninganefnd þann 24. febrúar sl.

Lokaorð tilvitnaðrar Morgunblaðsgreinar eru hins vegar eftirfarandi, með leyfi forseta:

„Í ljósi þessa er mesta örlagastundin í Icesave-málinu í raun enn eftir. Enn er hægt að afstýra stórslysi fyrir íslenska þjóð. Taki Tryggingarsjóðurinn hins vegar við skuldunum er ljóst að þá verður ekki aftur snúið: Þá hefur þjóðin endanlega verið skuldsett á grundvelli pólitískra þvingunarskilmála sem ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að standa gegn.“

Lok þessarar sögu þekkja allir. Stórslysinu varð ekki afstýrt, jafnvel þótt greinarhöfundur yrði í millitíðinni fjármálaráðherra.

Tækifærið til þess kom þann 26. janúar þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar sprakk og ný ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar var mynduð til bráðabirgða 1. febrúar, í skjóli Framsóknarflokksins.

Ábyrgð á samningagerðinni vegna Icesave er á ábyrgð minni hluta stjórnarinnar en þann 24. febrúar var skipuð ný samninganefnd. Í erindisbréfi nefndarinnar segir svo, með leyfi forseta:

,,Samninganefndin skal gera fjármálaráðherra grein fyrir framvindu samningaviðræðna eftir því sem þeim miðar áfram og leggja niðurstöður þeirra fyrir hann til endanlegrar samþykktar.“

Þegar fjármálaráðherra hafði farið með Icesave-málið í rúma fjóra mánuði í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur var kynnt niðurstaða samninganna, þ.e. föstudaginn 5. júní. Því miður varð hún nákvæmlega sú sem ráðherrann hafði áður talið fráleita og alls ekki koma til greina.

Hæstv. núverandi forsætisráðherra hefur sagt að þau drög að samkomulagi sem hafa verið kynnt séu mun hagstæðari hvað varðar lánstíma og vaxtakjör en áður hafi verið í boði. Tryggingarsjóður innlána gengur frá málinu með ríkisábyrgð, en vegna ábyrgðanna þurfi málið að fara fyrir þingið.

Orð hæstv. forsætisráðherra um „mun hagstæðari“ lán eru ósönn þegar litið er til þess sem Steingrímur J. Sigfússon lýsti í grein sinni þann 24. janúar sl. í Morgunblaðinu. Samningaviðræðurnar undir forustu Svavars Gestssonar skiluðu vissulega niðurstöðu. Hún var hins vegar ekki þess eðlis að nokkur ástæða sé til að fagna henni.

Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir sagðist á Alþingi þann 23. júlí sl. gera sér grein fyrir því að Icesave-samningurinn hvíldi þungt á þingmönnum. Það væri hins vegar ekki kostur í stöðunni fyrir Alþingi að fella samninginn enda hefði verið skrifað undir hann með fyrirvara um samþykki Alþingis. Þessi orð forsætisráðherra vekja óneitanlega upp hugrenningar um hlutverk Alþingis.

Það vekur því furðu að í skipunarbréfi nýju samninganefndarinnar hafi ekki verið vakin athygli á vilja Alþingis eins og hann birtist mjög skýrt í þingsályktunartillögunni frá 5. desember 2008 og áliti meiri hluta utanríkismálanefndar. Þvert á móti virðist það hafa verið skilningur þeirra sem voru í forsvari fyrir samninganefndinni að hennar verkefni hafi fyrst og fremst verið að semja um vexti og skilmála. Full ástæða er til að gagnrýna að framkvæmdarvaldið hafi með þeim hætti sniðgengið skýran vilja Alþingis í málinu.

Íslendingar höfðu aldrei og hafa ekki fallið frá þeirri lagalegu óvissu sem í málinu er og það var því frumskylda samninganefndar fjármálaráðherra að halda þeirri skoðun Alþingis Íslendinga á lofti. Ekki síður er ástæða til að nefna að þau sjónarmið sem hér að framan greinir voru einnig staðfest og viðurkennd af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fulltrúum íslenskra stjórnvalda, þáverandi fjármálaráðherra og seðlabankastjóra, í sameiginlegri viljayfirlýsingu framkvæmdastjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og íslenskra stjórnvalda frá 15. nóvember 2008.

Þar segir í 9. lið, með leyfi forseta:

„Ítrekuð er sú yfirlýsta stefna stjórnvalda að standa lagalega rétt að uppgjöri gagnvart innstæðueigendum og kröfuhöfum gömlu bankanna, hvort sem er í samræmi við íslensk gjaldþrotalög eða þjóðréttarlegar skuldbindingar. Íslendingar hyggjast virða allar lagalega réttarlagalegar skyldur sínar. Sé ekki samkomulag um það hverjar þær séu sé réttast að vísa slíkum ágreiningi til dómstóla eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi.“

Þessi yfirlýsing skiptir að sjálfsögðu gríðarlega miklu máli fyrir alla umgjörð og vinnslu málsins. Því er rík ástæða til að gagnrýna harðlega að þessi hluti yfirlýsingarinnar skuli hvorki koma fram í greinargerð með frumvarpinu né í áliti meiri hlutans.

Sjálfstæðisflokkurinn stóð að þeirri þingsályktunartillögu sem samþykkt var í desember sl. og ber því á henni pólitíska ábyrgð. Það er hins vegar á ábyrgð þeirra sem tóku við málinu hverjar lyktir þess urðu. Þrátt fyrir þá viðurkenningu ábyrgðar hefur því verið haldið fram að svokallað „Letter of intent“ sem undirritað var í tíð fyrri ríkisstjórnar í nóvember sl. hafi bundið hendur samninganefndar við samningagerðina og því sé ábyrgðin á samningunum hennar.

Fram kom hjá formanni samninganefndarinnar á fundi fjárlaganefndar að þetta bréf hefði ekki haft áhrif eða truflað störf samninganefndar og væri eingöngu minnisblað.

Í vinnu fjárlaganefndar hafa ekki fengist fullnægjandi svör við því hvers vegna þeim sjónarmiðum sem þingsályktunin byggðist á var ekki fylgt.

Á heildina litið er vandséð að íslensk stjórnvöld hafi náð fram nokkrum þeirra samningsmarkmiða sem ætla má að þau hafi átt að leggja áherslu á að ná fram í samningaviðræðunum. Á hinn bóginn verður ekki betur séð en að viðsemjendur ríkisstjórnarinnar hafi náð fram öllum sínum samningsmarkmiðum. Raunar blasir við að viðsemjendur íslensku ríkisstjórnarinnar hafi tekið ákvörðun um hverjar skuldbindingar íslenska ríkisins væru vegna Icesave-reikninganna og að á þá ákvörðun hafi íslenska samninganefndin fallist.

Virðist ljóst að íslenska samninganefndin hafi gengið til viðræðna á þeim forsendum að íslenska ríkið væri greiðsluskylt vegna innlána á Icesave-reikningunum og því einungis samið um þau greiðslukjör sem fram koma í áðurnefndum samningum.

Sú ályktun er dregin af því og staðfest raunar í greinargerð með frumvarpi ríkisstjórnarinnar í 11. kafla hennar þar sem segir á bls. 13, með leyfi forseta:

,,Heildarfjárhæð skuldbindinganna var því ekki samningsatriði heldur var verkefnið að semja um sem hagstæðasta skilmála.“

Ekki verður séð, eins og áður sagði, að sú nálgun sé í samræmi við þá þingsályktun sem samþykkt var á Alþingi 5. desember eða þá kynningu sem fram fór á hlutverki samninganefndarinnar þegar hún var skipuð. Samkvæmt þingsályktuninni ályktaði Alþingis einungis að fela ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við stjórnvöld á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða. Í þeim viðmiðum er hins vegar ekkert sem mælir fyrir um að Alþingi hafi litið svo á að íslenska ríkið væri greiðsluskylt, né heldur eru ákvæði samningsins í samræmi við þau umsömdu viðmið sem leggja skyldi til grundvallar. Þar við bætist að þeir skilmálar og þau kjör og sem samninganefndin samdi um og koma fram í samningunum eru svo afleit að á þau verður ekki fallist.

Afstaða ríkisstjórnarinnar var frá upphafi að ekki væri hægt að gera neina fyrirvara við ríkisábyrgðina. Þeir yrðu ávallt óásættanlegir og Alþingi bæri landi og þjóð til heilla að staðfesta ábyrgðina óbreytta. Verður að telja að hér hafi verið um að ræða algjöra rangtúlkun á hlutverki framkvæmdarvaldsins og þrískiptingu valdsins. Málið er samkvæmt stjórnarskrá á forræði þingsins og það er þingsins að samþykkja eða synja ríkisábyrgð á samningunum.

Fjárlaganefnd fékk frumvarpið, eins og áður sagði, til meðferðar þann 6. júlí. Það sem hefur gert vinnu nefndarinnar við frumvarpið erfiða er sú staðreynd að því sem næst á hverjum einasta fundi nefndarinnar komu fram nýjar upplýsingar sem kröfðust þess að nefndarmenn þurftu oft og tíðum að endurskoða afstöðu sína til ýmissa álitaefna í þessu umfangsmikla máli.

Þau efnisatriði samninganna sem þóttu sérstaklega aðfinnsluverð og mestar athugasemdir voru gerðar við í vinnu nefndarinnar eru eftirfarandi þættir:

Lagaleg óvissa varðandi ábyrgð ríkisins á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

Svokölluð friðhelgisákvæði.

Efnahagsleg áhætta.

Vextir á lánum og upphaf vaxtatíma.

Lögsaga samninganna.

Gjaldfellingarákvæði.

Umsýslukostnaður.

Endurskoðunarákvæði samninganna.

Varðandi efnisatriði þessara álitamála leyfi ég mér að vísa til ítarlegs nefndarálits 1. minni hluta fjárlaganefndar sem mér skilst að hafi nú verið lagt fram.

Alþingi hefur val um mismunandi leiðir við afgreiðslu málsins. Þær áherslur hafa ráðið för að takmarka eða skilyrða ríkisábyrgðina með þeim hætti sem breytingartillögur meiri hluta fjárlaganefndar gera ráð fyrir. 1. minni hluti telur í ljósi þess hversu margvíslegir fyrirvarar koma fram í breytingartillögum meiri hlutans ástæðu til að draga saman þýðingu þeirra í frumvarpinu í heild sinni.

Í 1. gr. er tiltekið að fyrirvararnir sem settir kunni að verða séu óaðskiljanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar.

Í 2. gr. eru settar fram eftirfarandi forsendur fyrir veitingu ríkisábyrgðarinnar; a. að lánasamningar verði túlkaðir í samræmi við hin umsömdu viðmið og samningsaðilar verði við rökstuddri og málefnalegri beiðni Íslands um endurskoðun samninganna samkvæmt ákvæðum þeirra; b. að staða Íslands sem fullvalda ríkis sé virt; c. að hvergi sé haggað við óskoruðum yfirráðum Íslands yfir náttúruauðlindum landsins.

Í 3. gr. breytingartillagnanna eru sett fram efnahagsleg viðmið sem eiga að takmarka greiðslubyrði lánasamninganna auk skilyrða um viðræður um áhrif þeirra viðmiða. Ef ekki er orðið við þeim óskum takmarkast ríkisábyrgðin nema Alþingi ákveði annað.

Í 4. gr. er í 1. mgr. skilyrt að fram skuli fara viðræður milli Íslands og viðsemjenda þess um áhrif niðurstöðu þar til bærs úrlausnaraðila varðandi ábyrgð Íslands á lágmarkstryggingu innstæðueigenda.

Í 2. mgr. 4. gr er áskilið að Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta láti á það reyna fyrir þar til bærum úrlausnaraðilum hvort kröfur hans gangi við úthlutun framar öðrum hluta krafna vegna sömu innstæðu. Fari ekki fram viðræður samkvæmt þessum ákvæðum eða leiði þær ekki til niðurstöðu getur Alþingi takmarkað ríkisábyrgðina.

Í 5. gr. er kveðið á um að unnt sé að Alþingi geti samþykkt að óska eftir viðræðum um breytingar á lánasamningunum samkvæmt endurskoðunarákvæðum þeirra eigi síðar en 5. október árið 2015.

Virðulegi forseti. Til að forða því að Íslandi yrði stefnt í efnahagslegar ógöngur var þess freistað að leiða umræðuna á þá braut að ekki mætti samþykkja samningana óbreytta. Vinna fjárlaganefndar einkenndist af því að stöðugt fleiri sjónarmið voru uppi um galla á frumvarpi ríkisstjórnarinnar og þann skaða sem það óbreytt myndi valda þjóðinni. Af lagalegum álitamálum bar hæst að fullkomin óvissa er um það hvort við Íslendingar getum staðið undir þeim fjárhagslegu skuldbindingum sem af samningunum leiðir.

Það er ekki síst á grunni greiðslugetu þjóðarinnar sem 1. minni hluti taldi nauðsynlegt að reyna að koma í veg fyrir að ríkisábyrgðin á samningunum yrði samþykkt óbreytt. Þau hagfræðilegu álit sem fyrir liggja benda að vísu til þess að Ísland gæti greitt þessar skuldir.

Þó er rétt að taka fram að það er ekki einungis rétt að spyrja hvort Íslendingar geti staðið undir þeim greiðslum sem af samningunum kynni að leiða. Ekki síður er ástæða til að íhuga vandlega hvaða afleiðingar það kynni að hafa ef Íslendingar tækju á sig þær skuldbindingar sem samningarnir kveða á um. Í áliti Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem er fylgiskjal við álit 1. minni hluta fjárlaganefndar, kemur skýrt fram að þjóðin þyrfti að færa miklar fórnir yrði samþykkt óbreytt að veita ríkisábyrgð á Icesave-samningunum.

Í grófum dráttum má segja að Alþingi standi frammi fyrir fimm kostum við afgreiðslu málsins:

1. Samþykkja frumvarpið óbreytt og þar með ótakmarkaða ríkisábyrgð.

2. Hafna frumvarpinu og leita nýrra samninga.

3. Hafna frumvarpinu og láta reyna á réttarstöðuna.

4. Vísa frumvarpinu til ríkisstjórnarinnar með rökstuddri dagskrá.

5. Takmarka/skilyrða ríkisábyrgð á einhvern hátt

Af hálfu 1. minni hluta fjárlaganefndar var í öllu starfi nefndarinnar lögð áhersla á að samningarnir væru í reynd óaðgengilegir og að í frumvarpinu voru engar skorður reistar við því ofríki sem íslensk stjórnvöld voru beitt. 1. minni hluti færði rök fyrir því í vinnu nefndarinnar að hreinlegast væri að láta viðsemjendur okkar vita strax að Alþingi gæti ekki og mundi ekki samþykkja málið óbreytt.

Jafnframt hefur þeirri afstöðu þingflokks Sjálfstæðisflokksins verið haldið á lofti í nefndarstarfinu að hafna beri frumvarpinu eða vísa því til ríkisstjórnarinnar með rökstuddri dagskrá. Undir það sjónarmið tók meðal annars lögfræðingurinn Lee Buchheit sem boðaður var sérstaklega á fund nefndarinnar undir lok starfsins.

Við meðferð málsins í fjárlaganefnd kom fljótlega í ljós að útilokað var að þingmeirihluti myndaðist til stuðnings framangreindum sjónarmiðum.

Fljótlega kom í ljós að hugmyndir stjórnarflokkanna um fyrirvara voru ófullnægjandi að mati stjórnarandstöðunnar og þess var freistað af fulltrúum allra flokka í fjárlaganefnd að skapa farveg fyrir ríka fyrirvara og ströng skilyrði ríkisábyrgðarinnar.

Niðurstaða meiri hluta fjárlaganefndar, sem nú er til umfjöllunar, er borin uppi af ríkisstjórnarflokkunum með aðkomu fulltrúa Borgarahreyfingarinnar. Sjálfstæðisflokkurinn hefur gegnt miklu hlutverki í að þessir fyrirvarar urðu til, ekki síst hinn efnahagslegi fyrirvari sem hefur einmitt það markmið að greiðslur vegna Icesave séu í samræmi við getu þjóðarbúsins almennt.

Vinna við frumvarp fjármálaráðherra um ríkisábyrgð vegna Icesave-reikninganna í fjárlaganefnd hefur einkennst af því að annar ríkisstjórnarflokkurinn hefur lengst af verið ófáanlegur til að gera sér grein fyrir göllum málsins. Þá var hinn ríkisstjórnarflokkurinn, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, klofinn í afstöðu sinni til málsins.

Sjálfstæðismenn hafa allt frá upphafi lýst fjöldamörgum göllum á málinu eins og að framan er rakið. Framan af var ófært að fá forustu ríkisstjórnarflokkanna til að fallast á að unnt væri að bregðast við þessum göllum. Vikum saman tók fjárlaganefnd á móti gestum sem bentu nefndarmönnum á galla í samningsgerðinni.

Hinn almenni borgari tók það upp hjá sjálfum sér að ígrunda málið og freista þess að hafa áhrif á ríkisstjórnarflokkanna svo forða mætti því stórslysi sem ella var í uppsiglingu. Sú gagnrýni sem hinir ýmsu sérfræðingar héldu á lofti var mjög í samræmi við þann málflutning sem sjálfstæðismenn höfðu uppi í fjárlaganefnd við vinnu málsins. Að lokum tókst að leiða ríkisstjórnarflokkunum það fyrir sjónir að málið yrði aldrei samþykkt í þeim búningi sem það var í.

Afstaða stjórnarandstöðunnar við þessa samninga lá strax fyrir og jafnframt það, sem er alvarlegra þegar meirihlutastjórn er við völd í landinu, að ekki var tryggur stjórnarmeirihluti fyrir málinu. Að mati þess sem hér stendur hefði ríkisstjórnin átt að ganga úr skugga um það áður en farið var til undirritunar samninganna að tryggur stjórnarmeirihluti væri í málinu.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur talað fyrir því í allt sumar að ríkisstjórnin færi strax til þess að tala máli Íslendinga við viðsemjendur, nágranna- og vinaþjóðir með skipulögðum hætti, enda ljóst að samningarnir væru í uppnámi. Þar var talað fyrir daufum eyrum. Það var og er mat Sjálfstæðisflokksins að aldrei sé mikilvægara en einmitt nú að rækta tengslin við nágrannaþjóðir og leiða þeim fyrir sjónir hvers konar afarkostir felist í þessum samningum. Því miður hefur ríkisstjórnin látið þetta mikilvæga verkefni undir höfuð leggjast.

Í nefndaráliti 1. minni hluta er tæpt á þeim leiðum sem tækar voru til að leiða málið í farsælan farveg. Að okkar mati hefði verið farsælast að hefja þegar viðræður við Breta og Hollendinga um þá stöðu sem uppi er á Alþingi vegna þessa máls með það að markmiði að afla fylgis við nýja samninga. Ef slíkir samningar hefðu ekki boðist hlyti þrautalendingin ávallt að vera sú að ríkið léti reyna á sinn lagalega rétt í málinu og að úr því fengist skorið hverjar skuldbindingar okkar væru.

Allt að einu varð niðurstaðan sú í fjárlaganefnd að setja skýra fyrirvara við ríkisábyrgðina. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki hluti af þeirri niðurstöðu, það eru ríkisstjórnarflokkarnir sjálfir, eins og áður gat, sem standa að henni með stuðningi Borgarahreyfingarinnar.

Engu að síður lýstu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd yfir stuðningi við þessar breytingartillögur en áskildu sér þó rétt til þess að leggja fram eða styðja aðrar tillögur sem væru til þess fallnar að styrkja málstað Íslands enn frekar.

Það er þýðingarmikið að ríkisstjórnarflokkarnir átti sig á að þeir fyrirvarar sem gerðir hafa verið við samningana fela í sér miklar breytingar. Ekki er ásættanlegt að ríkisstjórnin reyni að telja nágrönnum okkar, t.d. á Norðurlöndunum, trú um að þessir fyrirvarar breyti þeim í engu. Ríkisstjórnin hefur engar forsendur til að halda slíku fram meðan viðsemjendur okkar hafa ekki lýst afstöðu sinni til málsins. Ef ríkisstjórnin hefur einhverjar upplýsingar um afstöðu viðsemjenda okkar ber henni skylda til að skýra Alþingi frá því.

Af hálfu 1. minni hluta fjárlaganefndar er skýrt að hér er um slíkar breytingar að ræða, ekki síst hvað varðar greiðslur okkar samkvæmt samningunum, að viðsemjendur okkar verða að bregðast við því. Með því að setja ríkisábyrgðinni skorður er löggjafarsamkundan að senda framkvæmdarvaldinu og raunar viðsemjendunum einnig skýr skilaboð um þá samninga sem gerðir voru.

Miklu skiptir hver afstaða manna til þessara fyrirvara er og það er ekki æskilegt að uppi sé ágreiningur milli stjórnar og stjórnarandstöðu um gildi þeirra. Um þetta er það að segja, eins og svo margt annað í þessu máli, að einu gildir hvað þingmenn og flokkar segja hver við annan á Íslandi um efni og túlkun samninganna — niðurstaðan hlýtur alltaf að verða sú að það er afstaða viðsemjendanna sjálfra sem öllu skiptir.

Að lokum þykir mér rétt að árétta og minna á það álit 1. minni hluta fjárlaganefndar að Íslendingar verði hið fyrsta að fara fram á rannsókn á því hvernig það mátti vera að hægt var að misbeita Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í fyrrahaust í þágu þriggja aðildarríkja á kostnað eins.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er stofnun sem ekki tekur þátt í tvíhliða deilum og er ekki í anda stofnsamningsins sem samþykktur var í Bretton Woods í júlí 1944 að beita sjóðnum eins og gert var í fyrrahaust til að þvinga Ísland til að gangast undir að greiða fyrir þær skuldbindingar sem felast í frumvarpi ríkisstjórnarinnar vegna Icesave-samninganna.

Hæstv. forseti. Enn eru uppi ýmis álitamál og óvissa í tengslum við þetta mál. Viðbúið er að sú umræða sem hér er hafin í dag kalli fram sjónarmið og upplýsingar sem krefjast munu frekari umræðu. Með vísan til þess tel ég fullt tilefni til að málinu verði, að lokinni umræðu, vísað aftur til frekari umfjöllunar í fjárlaganefnd.

Að lokum vil ég geta þess að undir nefndarálit 1. minni hluta fjárlaganefndar rita auk þess sem hér stendur hv. þm. Ólöf Nordal og Ásbjörn Óttarsson.