137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:36]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að eiga orðastað við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Nú er ágreiningur á milli sjálfstæðismanna og ríkisstjórnarflokkanna varðandi hvort fyrirvararnir rúmist innan samningsins sjálfs eða ekki. Í gr. 13.1.1 í breska samningnum segir t.d., með leyfi forseta:

„Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.“

Að auki er samkvæmt breskri réttarvenju það eitt hluti af samningnum sem í honum stendur.

Hvernig lítur hv. þingmaður á þessa túlkun? Er þessi fyrirvaravinna öll óþörf eða lítur þingmaðurinn svo á að Bretar og Hollendingar þurfi ekki að rita undir samninginn með fyrirvörum áður en Alþingi samþykkir ríkisábyrgð svo að sameiginlegur skilningur þjóðanna sé að um samning sé að ræða sem fyrirvararnir rúmast innan? Ég bið hann vinsamlegast um að svara því.