137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:44]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég er ekki ánægður með þetta svar [Hlátur í þingsal.] því að hv. þingmaður gleymdi að segja mér úr hvaða flokki þeir væru. [Hlátur í þingsal.] Ég hef nefnilega fengið hæstv. utanríkisráðherra til þess að viðurkenna að hann hefði verið í þessari stjórn. Hann hefur viðurkennt það nú þegar hér í sölum Alþingis.

Mig langar til þess að benda á að það var viðtal við formann Fjármálaeftirlitsins í blaði sem hét Moment, Landsbanki Magazine, sem var fréttabréf Landsbankans. Það birtist í maí í fyrra og þar stendur í fyrirsögn: „Finances of the Icelandic banks are basically sound.“ Svo ég þýði það yfir á íslensku: Fjárhagur íslensku bankanna er í grunninn heilbrigður. Þetta segir formaður Fjármálaeftirlitsins og hann er titlaður sem slíkur. (Gripið fram í: Hvað gerir sá maður í dag?) Hann segir þetta í fréttablaði banka sem hann á að hafa eftirlit með. Á sama tíma vissi hann að þeir voru ekki heilbrigðir.