137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:43]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo undarlega sem það hljómar ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að hafa tvær skoðanir í þessu máli. Hann þykist vera á fyrirvörunum, hann samþykkir að málið sé tekið út úr fjárlaganefnd en kemur svo fram og segir að hann hafi allt aðrar skoðanir á hvernig eigi að túlka þá en meiri hlutinn.

Nú kemur hv. þm. Pétur H. Blöndal fram og fullyrðir að það að samþykkja samningana hafi á einhvern hátt áhrif á fyrirtæki í landinu. Í fjárlaganefnd voru allir sammála um að þessi fullyrðing væri algjörlega órökstudd. Það kom enginn fyrir fjárlaganefndina sem hélt þessu fram, fyrir utan einn aðila sem reyndist vera varaþingmaður Samfylkingarinnar. (Gripið fram í: Allir fulltrúar atvinnulífsins.) Allir fulltrúar atvinnulífsins komu fram og viðurkenndu að enginn þeirra hefði skoðað málið, hver og einn einasti. Þeir töluðu út frá sinni persónulegu skoðun og þetta er til í gögnum málsins.

Það er ekki búið að samþykkja Icesave-samningana og það er ekki búið að skrifa undir þá, svo ég svari hv. þm. Pétri Blöndal. Ef Alþingi fellir ríkisábyrgðina falla samningarnir niður. Undirskriftirnar voru gerðar með fyrirvara og ég ráðlegg þingmanninum að lesa samningana. Það er lykilatriði.

Framsóknarmenn telja að það sé fullkomlega eðlilegt í því ástandi sem við glímum við núna að það verði farið og samið á ný. (Forseti hringir.) Samningunum verði vísað til hliðar, líka til að koma (Forseti hringir.) í veg fyrir að það sem sjálfstæðismenn hafa verið að tala um í dag verði ekki að veruleika vegna þess að þeir túlka samningana (Forseti hringir.) á allt annan hátt en meiri hlutinn.