137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:46]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Það er ekki ofsögum sagt að hér sé til umræðu eitt stærsta og afdrifaríkasta mál sem Alþingi hefur tekist á við um langt skeið. Vandinn sem Icesave-samningunum er ætlað að leysa á rætur að rekja mörg ár aftur í tímann. Í raun má líkja þessu ástandi við það sem gerist þegar tiltekin atburðarás fer úr böndunum, þegar menn missa sjónar á markmiðum sínum, færast of mikið í fang og verða óhófi og græðgi að bráð. Þessi þróun, og ég leyfi mér að segja þetta hugarástand, náði vissu hámarki árið 2007. Það ártal er eiginlega orðið að hnjóðsyrði í íslensku máli. Endanlega valt svo allt með falli bankanna haustið 2008. Vissulega urðu atburðir í alþjóðlegum fjármálaheimi sem áttu sinn þátt í þeim erfiðleikum sem við glímum nú við en undir niðri hafði grasserað í íslensku efnahagslífi mein sem aldrei var tekið á.

Hér ríkti góðæri sem var að verulegu leyti tekið að láni, það var ofþensla í hagkerfinu, allar vélar voru keyrðar á fullu og síðan endaði með að þær brunnu yfir. Þorri þjóðarinnar hafði hins vegar litla hugmynd um þær hrikalegu skuldir sem gerjuðust undir yfirborðinu og við súpum nú seyðið af með þeirri ríkisábyrgð á skuldbindingum Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem við fjöllum um á Alþingi í dag. Þjóðin var í raun grunlaus um það sem hún átti í vændum. Það er hafið yfir allan vafa að mínu viti að stjórnvöld, Seðlabankinn, Fjármálaeftirlitið, Alþingi sjálft og e.t.v. mætti einnig nefna fjölmiðla, brugðust því samfélagslega hlutverki sínu að tryggja öryggi og hagsmuni alls almennings í landinu með skilvirku, gagnsæju og gagnrýnu eftirliti.

Þessum aðdraganda er mikilvægt að halda til haga, frú forseti. Ekki í þeim tilgangi að kenna einhverjum sérstökum um, þetta er ekki tíminn til þess, heldur til að læra af þeim mistökum sem þá voru gerð og áttu sinn ríka þátt í að fjármálakreppan olli meira tjóni hér en víða annars staðar. Undirstöðurnar sem á yfirborðinu litu ágætlega út voru einfaldlega feysknar, báru í öllu falli ekki hið ofvaxna hagkerfi. Þegar við lítum til baka og sjáum hvernig menn bárust á í efnahagslegu tilliti í viðskiptalífinu og víðar og hvernig við fórum um lönd og álfur og hreyktum okkur af hinu ofvaxna fjármálakerfi sem eftirlitsstofnanir samfélagsins áttu ekki roð í þá getur maður eiginlega ekki varist því að hugsa: Dramb er falli næst.

Ég held að það sé hollt fyrir okkur á þessum tímamótum að rýna svolítið inn í okkur sjálf og velta því fyrir okkur á hvaða vegferð við raunverulega vorum og hvert hún hefur leitt okkur. Ég ítreka, ekki til þess að kenna einhverjum einum um. Það hefur lítið upp á sig í þeirri stöðu sem við erum í dag. Sú saga verður áreiðanlega skráð þótt síðar verði. Í gangi er rannsókn sem Alþingi setti á laggirnar á aðdraganda og orsökum bankahrunsins þar sem reynt er að draga fram hverjar orsakirnar voru og hverjir báru þar ábyrgð. Sagnfræðingar framtíðarinnar munu áreiðanlega rýna í þessa sögu og skrifa hana.

Á þessum tímamótum er að mínu viti mikilvægt, sérstaklega fyrir framhaldið og hvernig við ætlum að vinna okkur út úr þeirri stöðu og inn í framtíðina, að við hugsum um það í fullri einlægni og algerlega áreitnilaust hvað hefði mátt betur fara, hvar okkur sem þjóð varð á og hvernig við eigum að vinna úr þeirri stöðu sem við erum í.

Í dag er athyglisverður leiðari í Fréttablaðinu sem m.a. tekur á þessu og þar segir, með leyfi forseta:

„Eitt allra mikilvægasta tækifæri yfirstandandi kreppu felst í lærdómnum sem má draga af hinni miklu leit að sökudólgum. Margir af helstu fjármálafurstum landsins hafa orðið opinberir að sorglegri græðgi, hroka og virðingarleysi fyrir verðmætum. Sum látalæti hinna ofurríku voru pínleg í samtíma sínum og eru enn verri þegar litið er um öxl.“

Þar segir líka um þá einstaklinga sem þar kunna að bera ábyrgð að þeir séu ekki annað en „skilgetin afkvæmi þjóðfélags sem varð hér til á tiltölulega fáum árum“.

Síðan segir áfram, með leyfi forseta:

„Þjóðin þarf að gera sér grein fyrir þeirri ábyrgð. Umfram allt þurfa þó landsmenn að gera sér grein fyrir valdi sínu til að hafa áhrif á þær þjóðfélagsbreytingar sem eru óumflýjanlegar í tómarúminu eftir hrunið.“

Ég vek athygli á þessu, virðulegi forseti, vegna þess að mér finnst þetta vera mikilvægt núna þegar við reynum að leysa úr þeim vanda sem Icesave-skuldbindingarnar og bankahrunið hafa valdið í íslensku samfélagi og við erum auðvitað öll sár og reið yfir, þjóðin öll og við sem sitjum á Alþingi. Það breytir ekki því að við verðum að takast á við þetta ástand, þessa erfiðleika. Við verðum að reyna að vinna okkur út úr því og við eigum að reyna að vinna að því í breiðri, pólitískri sátt og samstöðu. Við eigum að reyna að læra af því sem við höfum gengið í gegnum og ég tel að við séum í raun að stíga fyrstu skrefin á þeirri lærdómsbraut nú þegar þetta mál er til 2. umr. og ég kem betur að því síðar.

Fjármálaráðherra lagði í byrjun júní fram það frumvarp sem hér er til umfjöllunar. Ríkisstjórnin fól fjármálaráðherra strax síðla vetrar að leiða þetta mál til lykta í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Það átti sér reyndar forsögu því Alþingi samþykkti 5. desember sl. þingsályktunartillögu þess efnis eins og kunnugt er og hér hefur þegar komið fram í umræðunni. Eins og málum var komið á þeim tíma var orðið ljóst að það yrði að leysa þetta mál með samningum við Breta og Hollendinga. Dómstólaleiðin sem margir vildu fara var í raun orðin ófær og það er óþarfi að rekja það mál hér og nú. Alþingi þekkir það og ýmsir af þeim sem þegar hafa tekið til máls í umræðunni hafa vakið máls á því.

Ég ætla að leyfa mér í allri hógværð að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir hvernig hann hefur haldið á þessu geysierfiða máli sem hann fékk í fangið, ef svo má segja, og hefur unnið að nær þrotlaust um margra mánaða skeið. Ég vil líka þakka þeim ágætu einstaklingum sem skipuðu samninganefnd Íslands og lögðu sig fram í þágu íslenskra hagsmuna við afar erfiðar aðstæður. Ég veit að það er auðvelt að kenna þeim um og mörg þeirra sem þar hafa unnið hafa mátt þola mikla gagnrýni og jafnvel persónulegar árásir á köflum en ég ætla að leyfa mér að færa því fólki öllu þakklæti fyrir að hafa lagt á sig mikla vinnu fyrir okkur hin.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú haft þetta þingmál til meðferðar í um átta vikur. Nefndin hefur farið rækilega yfir öll efni málsins, fengið fjölmarga gesti, skoðað gríðarlegt magn gagna og fengið margvísleg álit úr ýmsum áttum eins og kom skilmerkilega fram í máli hv. þm. Guðbjarts Hannessonar, formanns fjárlaganefndar. Í nefndaráliti meiri hlutans eru rakin ýmis álitamál sem varða þetta efni. Ég ætla að tipla á nokkrum og sérstaklega að víkja að hinum alþjóðapólitísku álitaefnum og vinnu utanríkismálanefndar.

Utanríkismálanefnd fékk beiðni frá fjárlaganefnd um að fjalla sérstaklega um tiltekna hluti, einkum er vörðuðu samskipti okkar við þessar erlendu þjóðir, við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, Evrópusambandið og Norðurlöndin, og að fjalla einnig um áhrifin í alþjóðlegu pólitísku samhengi af því ef þetta mál yrði áfram óleyst. Það er mat meiri hluta utanríkismálanefndar sem kemur fram í áliti hans til fjárlaganefndar að það sé brýnt að leysa þetta mál því eins og þar segir, með leyfi forseta:

„Hætt sé við að alþjóðlegri einangrun Íslands linni mun síðar ef samningar nást ekki.“

Þetta er í raun og veru grunntónninn í þeirri afgreiðslu sem málið fékk að lokum á vettvangi fjárlaganefndar eins og ég lít á hana. Ég hygg að nokkuð breið pólitísk samstaða sé um að það er brýnt að leiða þetta mál til lykta. Vitanlega geta menn verið mismunandi ánægðir með þá niðurstöðu, bæði úr samningunum sjálfum og eins úr vinnu fjárlaganefndar, en það breytir ekki hinu að við þurfum að fá niðurstöðu í þetta mál til að við getum haldið áfram að byggja upp íslenskt efnahags- og atvinnulíf og tekist á við þau fjölmörgu önnur úrlausnarefni í samfélaginu sem bíða.

Ég vil líka nefna í þessu sambandi samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn vegna þess að í umræðunni bæði hér og á fyrri stigum og úti í samfélaginu hefur mikið verið fjallað um þær tengingar sem hafa verið gerðar á milli þessa máls sérstaklega og fyrirgreiðslu okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Margt hefur verið sagt um að þarna séu engar tengingar. Fáir vilja gangast við því að þær séu til staðar en það hefur þó komið í ljós í raunveruleikanum vegna þess að það eru engar aðrar skýringar haldbærar á því af hverju Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur frestað fyrirtöku á málefnum Íslands aðrar en þær að þessi mál hafi verið óleyst. Þótt það hafi e.t.v. ekki verið sagt skýrum og berum orðum tel ég að það liggi fyrir. Í því efni vil ég undirstrika þá skoðun meiri hluta utanríkismálanefndar sem gagnrýnir harðlega, eins og segir í áliti meiri hlutans, hvernig ríkin tvö, Bretland og Holland, hafa að því er virðist nýtt sér stöðu sína í framkvæmdastjórn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins til að koma sínum málstað á framfæri í deilu þeirra við Ísland. Það er mjög ámælisvert og ég tel að það sé ekki í samræmi við starfsreglur og samþykktir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Að því leyti get ég verið sammála því sem um það segir í, hygg ég, áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar.

Niðurstaða utanríkismálanefndar er sem sagt eins og ég gat um að það sé mikilvægt að ljúka þessu máli. Í niðurlagi meirihlutaálits utanríkismálanefndar segir m.a., með leyfi forseta:

„Þá er ljóst að verði deilan ekki sett niður kann það að hafa alvarleg áhrif á þátttöku Íslands í EES og þar með viðskiptahagsmuni landsins gagnvart helstu viðskiptalöndum. Meiri hlutinn getur ekki mælt með því að þeim hagsmunum verði teflt í tvísýnu við þær aðstæður sem nú eru í íslensku efnahagslífi enda gæti það haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir endurreisn þess. Jafnvel þótt samningnum verði hafnað með skýrum skilaboðum um að ekki sé horfið frá því að leita pólitískrar lausnar og lýst sé vilja til þess að setjast að samningaborðinu að nýju telur meiri hlutinn að óvissuástand geti skapast sem valda muni miklum töfum á endurreisnarstarfi efnahagslífsins. Slíkt óvissuástand getur jafnframt skapað alvarlegar hindranir gagnvart Íslandi í því alþjóðlega samstarfi sem er landi og þjóð nauðsynlegt til að vinna sig út úr yfirstandandi efnahagsþrengingum.“

Þetta vildi ég segja um hin alþjóðapólitísku eða utanríkispólitísku efni.

Ég vil líka koma inn á það álitamál sem hér hefur verið til umfjöllunar allt frá því að fjárlaganefnd lauk umfjöllun sinni um þetta mál, hvort í þeim fyrirvörum felist gagntilboð til Breta og Hollendinga eins og hér hefur verið orðað eða hvort við setjum skilmála sem rúmast innan þess samnings sem gerður var. Ég vil byrja á því að minna á að Alþingi er að fjalla um ríkisábyrgð á samningunum en ekki einstök efnisatriði samninganna sjálfra. Þó að hér sé eðlilega mjög erfitt að gera greinarmun á erum við formlega séð að fjalla um ríkisábyrgðina. Alþingi hefur að sjálfsögðu allar heimildir til þess að binda ríkisábyrgð við þær skuldbindingar, skilyrði og skilmála sem það kýs. Um það var fjallað ítarlega á vettvangi fjárlaganefndar og ég hygg að ekki sé ágreiningur um það í sjálfu sér.

Ég lít svo á að í þeirri afgreiðslu sem fór fram af hálfu fjárlaganefndar sé að finna tillögur um að binda ríkisábyrgðina tilteknum skilyrðum og skilmálum. Ég vil taka undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni sem nefndi að það væri síðan viðsemjenda okkar að meta hvort þeir féllust á þessa skilmála eða ekki. Við eigum að sjálfsögðu ekki að gefa okkur það fyrir fram, þá hefði verið hreinlegra að segja að við ætluðum ekki að veita þessa ríkisábyrgð. Miðað við að almennur vilji sé í þinginu til þess að veita hana með sterkum skilmálum á það þó að vera okkar málflutningur að við munum kynna viðsemjendum okkar þá fyrirvara og skilmála sem Alþingi vill setja og binda við ríkisábyrgðina. Þeir verða þá að bregðast við því þegar þar að kemur. (Gripið fram í: Hvenær?) Þegar Alþingi hefur fjallað um málið og ákveðið hvað það vill gera í málinu, að sjálfsögðu. Það verður engin ákvörðun tekin í þessu máli fyrr en að lokinni atkvæðagreiðslu í Alþingi, svo því sé til haga haldið.

Ég ætlaði líka, eins og kom fram í máli hv. formanns fjárlaganefndar, að fjalla aðeins um hin efnahagslegu viðmið. Mikil umræða fór fram um það hvort við ættum að binda ríkisábyrgðina skilmálum um greiðslugetu þjóðarbúsins til framtíðar. Reyndar kemur fram í meirihlutaáliti efnahags- og skattanefndar að það sé erfitt að spá sérstaklega fyrir um framtíðina. Við erum öll sammála um að það ríkir mikil óvissa um hvernig hagþróun verður nákvæmlega hér þegar við reynum að spá 10 eða 15 ár fram í tímann. Við leyfum okkur engu að síður að gefa okkur ákveðnar forsendur sem liggja að baki þessum samningum og þeim efnahagslegu fyrirvörum sem við höfum ákveðið að leggja til af hálfu fjárlaganefndar að verði bundnir við þessa ríkisábyrgð.

Auðvitað eru ýmsar aðferðir til við að setja sér efnahagsleg viðmið. Margvíslegar hugmyndir í því efni voru ræddar á vettvangi fjárlaganefndar og hópur þingmanna tók sig til, lagði fram og formaði ákveðnar hugmyndir í því efni. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka fyrir það góða innlegg í umræðuna og þá vinnu sem sannarlega var unnin. Þetta er ekki eina aðferðin sem hægt er að nota í þessu efni og fleiri aðferðir voru skoðaðar. Eftir talsverða umfjöllun á vettvangi nefndarinnar var það niðurstaðan engu að síður að vinna út frá þeim hugmyndum sem umræddur þingmannahópur lagði í púkkið, þ.e. að tengja hámarkið sem við viljum að gildi um þessa ríkisábyrgð við vöxt landsframleiðslunnar til framtíðar með árið 2008 sem grunnár og reikna síðan ákveðið hlutfall af vexti landsframleiðslunnar frá árinu 2008 til greiðsluárs. Þetta þýðir að greiðsluflæðið á samningstímanum frá árinu 2016 verður annað en Icesave-samningarnir gera ráð fyrir. Þetta þýðir að greiðslur verða léttari í upphafi greiðslutímans en þyngjast eftir því sem líður á tímabilið, öndvert við það sem Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir. Það má vel færa rök fyrir því að skynsamlegt sé að hafa þetta greiðsluflæði frekar en það sem felst í samningnum.

Á hinn bóginn þýðir þetta líka að höfuðstóllinn greiðist hægar niður en ella og vaxtabyrðin verður meiri þegar upp er staðið en Icesave-samningurinn gerir ráð fyrir. Það er mikilvægt fyrir hv. þm. Höskuld Þórhallsson að gera sér grein fyrir því vegna þess að hann ræddi sérstaklega um viðbótarkostnað við eitt og annað sem er í þessum samningi. Ég lít svo á að sá umframkostnaður sé í rauninni eins konar tryggingariðgjald vegna þess að í þessari aðferð felst þrátt fyrir allt meiri vörn gegn efnahagslegum áföllum en í öðrum aðferðum sem ræddar voru. Þetta tel ég kostinn við þessa aðferð þótt hún þýði, miðað við óbreyttar forsendur, hærri vaxtabyrði yfir heildina. Á móti kemur meiri vörn og þess vegna má að mínu viti líkja þessu við ákveðið tryggingariðgjald. Við kaupum okkur ákveðna tryggingu gegn efnahagslegum áföllum. Ég tel að það sé vel rökstyðjanlegt og verjanlegt að gera það.

Þessi reikniregla sem er sett inn miðar við að Icesave-skuldbindingin sé greidd að fullu, gangi forsendur Seðlabankans varðandi hagvöxt, gengi og endurheimtur eftir. Eins og ég sagði áðan dreifast þessar greiðslur þó öðruvísi. Ég er sem sagt orðinn — það er best ég orði það þannig — talsmaður þessarar reiknireglu þótt ég hafi ekki verið það í upphafi. Ég hef leyft mér að skipta um skoðun og gerast talsmaður hennar. Ég tel að hvað varðar fyrirvarana sé mikilvægt, bæði varðandi þessa og aðra sem hér hefur verið vikið að, hina lagalegu, að þeir séu sanngjarnir, auðútskýranlegir og rökstyðjanlegir þannig að viðsemjendur okkar fái ekki tækifæri til að gera lítið úr þeim eða reyna að draga í efa að þeir séu málefnalegir. Ég vil einfaldlega segja að með þeirri tillögu, sem breið samstaða náðist um í fjárlaganefnd, eru settir þeir varnaglar sem sanngjarnt og eðlilegt er að gera í þessu tilefni.

Ég ætla ekki að fara sérstaklega í aðrar breytingartillögur sem koma fram af hálfu fjárlaganefndar en vil samt víkja örlítið að síðustu breytingartillögunni sem meiri hluti fjárlaganefndar gerir. Það er tillaga um endurheimtur á innstæðum og þar segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórnin skal þegar í stað grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana sem þarf til að endurheimta það fé sem safnaðist inn á Icesave-reikningana. Í þeim tilgangi skal ríkisstjórnin fyrir 15. október 2009 hafa frumkvæði að samstarfi við þar til bæra aðila, m.a. yfirvöld í Bretlandi, Hollandi og Evrópusambandinu, og óska aðstoðar þeirra við að rekja hvert innstæðurnar af Icesave-reikningunum voru fluttar.“

Síðan segir þar áfram:

„Í því skyni að lágmarka ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum skal ríkisstjórnin einnig gera ráðstafanir, í samráði við þar til bæra aðila, til þess að þeir sem kunna að bera fjárhagsábyrgð á þeim skuldbindingum sem stofnast hafa vegna Icesave-reikninganna verði látnir bera það tjón.“

Ég vil lýsa yfir sérstakri ánægju minni með þessa breytingartillögu. Ég tel að það sé mikilvægt fyrir allt framhald málsins að farið sé í mjög þungar aðgerðir í þessu efni. Hv. þm. Höskuldur Þórhallsson kaus að leggja þetta út á þann veg að í þessu fælist viðurkenning á því að ekkert hefði verið gert en mér finnst ekki sanngjarnt hjá hv. þingmanni að gera lítið úr öllu þessu máli. Mér finnst þetta skipta miklu máli. (Gripið fram í: Hvaða breytingartillögu?) Ég er að tala um breytingartillöguna um endurheimtur á innstæðum sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson sagði að væri viðurkenning á því að ekkert hefði verið gert í þessu efni. (HöskÞ: Hvað ertu að tala um?) Það er ekki sanngjarnt því að sjálfsögðu hefur á undanförnum mánuðum, bæði eftir alþingiskosningar en einnig á tímum minnihlutastjórnarinnar sem var studd af þingmönnum Framsóknarflokksins, þar með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, verið hafin vinna við rannsókn þessa máls m.a. með því að koma því í sérstakan farveg ríkissaksóknara, ráða sérstakan ráðgjafa, Evu Joly, í rannsókn málsins og setja fjármagn í allt þetta ferli. Það breytir þó ekki því að við þurfum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að leiða sannleikann í ljós, reyna að endurheimta það fé sem þarna kann að vera á sveimi einhvers staðar og lágmarka það tjón sem samfélagið verður fyrir. Það er bæði mikilvægt frá efnahagslegu sjónarmiði en líka siðferðislegu.

Virðulegi forseti. Ég vil leggja áherslu á mikilvægi breiðrar samstöðu í þessu máli. Þetta mál allt hefur skapað mikla ólgu í samfélaginu. Icesave-samningarnir hafa vissulega skapað mikla ólgu en þó ekki síður hrunið og allt sem fylgdi þar í kjölfarið. Allt sem veldur þeim ríku skuldbindingum sem við þurfum að takast á við á næstu árum. Það er mikilvægt og nauðsynlegt að ná fram réttlæti til að þjóðin geti orðið sátt við hlutskipti sitt og horft björtum augum fram á veginn, hafið uppbyggingarstarf og lyft grettistaki eins og hún hefur svo oft gert áður og getur gert. Þess vegna er breið pólitísk samstaða um úrlausn þessa máls svo brýn og þess vegna lögðu margir mikið á sig og teygðu sig langt frá sínum upphaflegu sjónarmiðum í málinu til að ná henni. Í þessu máli og stjórnmálum yfirleitt er nefnilega ekki endilega alltaf árangursríkast að halda sínum prívat og persónulegum skoðunum til streitu fram í rauðan dauðann. Það getur einmitt þjónað markmiðum að gefa eitthvað eftir af sínum ýtrustu skoðunum í þeim tilgangi að ná breiðri samstöðu vegna þess að í henni felst líka mikill máttur. (Gripið fram í: Selja sannfæringu sína.) Þetta snýst ekki um að selja sannfæringu sína, virðulegur þingmaður, þetta snýst um að ná árangri fyrir íslenska þjóð. (Gripið fram í.) Það ætla ég mér að gera og ég tel að í breiðri samstöðu felist máttur til að við getum unnið okkur út úr kreppunni.

Ég fagna því sérstaklega að vinnan í fjárlaganefnd skilaði niðurstöðu sem fulltrúar fjögurra flokka af fimm styðja. Það er ómetanlegt og ég vil þakka öllum nefndarmönnum í fjárlaganefnd undir dyggri forustu hv. þm. Guðbjarts Hannessonar. Ég vil líka þakka hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Borgarahreyfingarinnar sem hafa komið að þessu máli og lýst yfir stuðningi við þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir. Ég vil einnig þakka hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, fulltrúa Framsóknarflokksins í fjárlaganefnd, fyrir hans framlag vegna þess að þrátt fyrir að hann styðji ekki þær breytingartillögur sem hér liggja fyrir og Framsóknarflokkurinn kjósi að fylgja úr hlaði sínum eigin tillögum hefur innlegg hans og vinna í fjárlaganefnd líka haft sitt að segja fyrir þá niðurstöðu sem meiri hluti fjárlaganefndar komst að. Allir sem að þessu máli hafa komið hafa þannig lagt fram drjúgan skerf í þágu þjóðarsamstöðu og allir fá að sjálfsögðu að eiga það sem þeir eiga í þessu máli.

Hér á hlut að máli mikill fjöldi sem hefur með þrotlausri vinnu, samtölum, greinaskrifum og fundahöldum leitt til þeirrar niðurstöðu sem felst í breytingartillögum fjárlaganefndar. Breytingartillögurnar munu að mínu viti styrkja þetta mál mjög mikið og styrkja hagsmuni Íslands og þær eru talandi dæmi um þýðingu öflugs þingræðis. Alþingi hefur að mínu viti styrkt sig í þessu máli og við eigum að vera stolt af því. Það getur verið freistandi að falla í þann fúla pytt að berja sér á brjóst, eigna sér þessa niðurstöðu sérstaklega og benda um leið á aðra sem bera ábyrgð á því hvernig komið var. Alls konar samsæriskenningar hafa heyrst í því efni en í raun eru þær fáfengilegar þegar litið er til þess vanda sem við er að etja. Allir bera einhvern hluta af ábyrgðinni eins og hér hefur verið rakið. Allir stjórnmálaflokkar nema Borgarahreyfingin bera í raun ábyrgð á því sem við er að glíma. Minn flokkur er þar ekki undanskilinn. Hann hefur verið í ríkisstjórn frá 1. febrúar. Hann hefur borið fram það mál sem hér er til umfjöllunar og ég segi fyrir mitt leyti að ég tek á mig gagnrýni á málið með því að standa að þeim breytingartillögum sem fjárlaganefnd gerir. Ég skammast mín ekki fyrir það og ætla ekki að víkja mér undan því. Ég tel að allir, með þeirri undantekningu sem ég nefndi, eigi sinn hluta af ábyrgðinni og eigi þess vegna að leggja sitt af mörkum til að leysa málið og ná um það breiðri samstöðu. Sem þjóð berum við ábyrgð á því að vinna okkur úr vandanum og þingið verður að veita leiðsögn í þeirri vegferð.

Ég ítreka þakkir mínar til formanns fjárlaganefndar fyrir frábært samstarf og til annarra nefndarmanna í fjárlaganefnd. Þar er enginn undanskilinn. Þar hafa verið málefnalegar og hreinskiptar umræður og mikil vinna eins og hér hefur komið fram. Starfsfólk fjárlaganefndar og nefndasviðs, starfsfólk í ráðuneytum og stofnunum hefur lagt gríðarlega mikla vinnu í þetta mál og á miklar þakkir skildar.

Ég vil að lokum, frú forseti, heita á vini mína í Framsóknarflokknum að skoða vel hug sinn til þessa máls. Þeir hafa kynnt sínar breytingartillögur en líka lýst því yfir í umfjöllun að þær breytingartillögur sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur fram séu málinu mjög til bóta. Þeir eiga þannig sannarlega erindi í þá samstöðu sem nú er svo brýn þegar þjóðarsómi er í raun í húfi að hér náist breið samstaða. Ég leyfi mér að vona að með afgreiðslu þessa máls verði lokið við einn af mörgum mikilvægum áföngum við endurreisn íslensks efnahags- og atvinnulífs og endurheimt trausts og orðstírs Íslands í samfélagi þjóðanna.