137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:30]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel hins vegar að það sé alls ekki nógu skýrt í þessum texta, breytingartillögu frá meiri hluta fjárlaganefndar, hvað eigi að gera við eftirstöðvarnar. Í þeirri vinnu sem fór fram innan þingmannahópsins var skýrt að við töldum að í textanum ætti að koma fram að eftirstöðvarnar ættu að falla niður. Þess vegna höfum við framsóknarmenn einmitt lagt fram breytingartillögu þar sem segir, með leyfi forseta:

„Verði greiðslubyrði lánasamninganna meiri en nemur hámarki skv. 3. mgr. og þar með eftirstöðvar í lok lánatímabilsins árið 2024 fellur ríkisábyrgðin á eftirstöðvunum niður.“

Þetta er alveg hreint og skýrt.

Ég hvet til þess, þar sem talað var um að við værum að eignast nýja og góða vini, að hv. þingmaður taki tillit til þessara tillagna frá nýju vinunum hans og samþykki þessa breytingartillögu. Ég bendi líka á að hann talaði um áhyggjur af því að þarna kæmi hugsanlega hærri vaxtabyrði. Ef hann samþykkti líka breytingarnar á þessum (Forseti hringir.) tölum hjá okkur held ég að þar taki einmitt á því, því að þarna er miðað við að hámarkið sem við greiðum séu 240 milljarðar á núvirði miðað við 5,5% vexti og ekki krónu meira.