137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:34]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég lýsti þeirri skoðun minni að ég teldi að Alþingi hefði styrkst sem stofnun í umfjöllun um þetta mál og ég tel að það sé sjálfsagt og eðlilegt að Alþingi fari málefnalega og sjálfstætt yfir lagafrumvörp sem hingað berast, hvort sem þau koma frá þingmönnum eða ráðherrum. Það er ekki sjálfgefið mál að ríkisstjórn geti gengið út frá því sem vísu að þau mál sem hún ber fram séu afgreidd héðan óbreytt. Mér er alveg sama hvaða flokkar eiga þar í hlut hverju sinni. Ég tel að Alþingi hafi styrkt sig í vandlegri og málefnalegri umfjöllun um þetta mál.

Hvað varðar upplýsingar vil ég ekki taka undir með hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni um að upplýsingum hafi verið haldið frá þingnefndinni. Hér á bak við er gríðarlegt magn upplýsinga og formaður nefndarinnar lagði sig í líma við að taka tillit til allra óska sem komu fram á vettvangi nefndarinnar um gesti og annað slíkt. (Forseti hringir.) Það hygg ég að nefndarmenn úr öðrum flokkum geti staðfest.