137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[13:14]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar upplýsingar, sérstaklega þær óumbeðnu vegna þess að nú veit ég hvernig á að segja eyja á finnsku.

Vissulega er rétt að einhverjir vöruðu við hruni íslensks efnahagslífs. Ég held að sú umræða hafi byrjað með útgáfu bókarinnar Síðustu forvöð sem prófessor Þorvaldur Gylfason gaf út árið 1995. Í 14 ár komu sífellt einhverjir fram með að nú væri allt að hrynja. Þetta ágerðist árið 2008. Eftir á að hyggja var í sumum þeirra spádóma eitthvað að finna en flestir voru háðir sömu annmörkum og t.d. þessi áðurnefnda bók, Síðustu forvöð, þ.e. því að gefnar voru yfirlýsingar um eitthvað sem ómögulegt var að segja til um.

Þrátt fyrir að eitthvað hafi verið gefið út þar sem spáð var rétt er ómögulegt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi vitað í hvert stefndi. Ef svo væri hefðum við þegar fundið ábyrgðarmenn hrunsins og væntanlega væri hægt að gefa fjármálafurstunum okkar sakaruppgjöf strax en ég er ósammála þeirri túlkun. Þetta er fyrst og fremst bankamönnum og gölluðu reglugerðarverki að kenna.