137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:03]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Allt frá því að samningarnir um Icesave-deiluna voru lagðir fram hér á þinginu í sumar hafa forustumenn ríkisstjórnarinnar vísað allri gagnrýni á samningana á bug. Það var sama hvort rætt var um að hin sameiginlegu viðmið hefðu ekki verið tekin með í reikninginn eða að friðhelgisákvæði samninganna væri gallað. Það var vakin athygli á því að eignir ríkisins væru jafnvel í hættu undir ákveðnum kringumstæðum og það var sögð allt of mikil efnahagsleg áhætta í samningunum. Í þessari gagnrýni var talað um að við héldum ekki til haga okkar lagalegu stöðu og endurskoðunarákvæði samninganna var einnig gagnrýnt. Öllu þessu vísaði ríkisstjórnin á bug.

Nú hefur fjárlaganefnd Alþingis ákveðið að taka til greina allar þessar athugasemdir og tryggja að ríkisábyrgðin taki mið af þeim þannig að hagsmuna okkar Íslendinga sé betur gætt (Forseti hringir.) í lagalegu og efnahagslegu tilliti. Er ekki kominn tími til að ríkisstjórnin fallist á að samningarnir sem lagðir voru fyrir þingið voru meingallaðir (Forseti hringir.) og biðji þingið afsökunar á því að hafa ekki staðið betur að málum?