137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:09]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra talaði um að hann ætti von á því að við fengjum skilning gagnaðilanna á þeim fyrirvörum og breytingartillögum sem hér eru til umræðu. Því langar mig að spyrja hann: Hvernig getur ríkisstjórnin haldið því fram að hér sé um sama samning að ræða þegar búið er að kollvarpa honum í öllum grundvallaratriðum? Er öruggt að hæstv. ráðherra, með allri virðingu, skilji nákvæmlega hvað Alþingi er að gera? Í stað þess að vera með óvissu inn í framtíðina segjum við: Ef hlutir þróast á ákveðinn hátt munum við ekki borga nema ákveðið mikið. Hvernig er sú niðurstaða sambærileg við þann samning sem hæstv. ráðherra kallaði á einhverjum tíma glæsilega niðurstöðu en fjallaði núna um sem skástu niðurstöðuna?

Í öðru lagi, Bretar og Hollendingar ætla ekki að tjá sig um þetta fyrr en niðurstaða er fengin. Getum við sætt okkur við það, virðulegi forseti, (Forseti hringir.) sérstaklega í ljósi þess að uppi eru tvö sjónarmið, það sjónarmið (Forseti hringir.) sem við sjálfstæðismenn og stjórnarandstaðan höldum uppi, að samningnum sé kollvarpað, (Forseti hringir.) og hitt sem ríkisstjórnin heldur fram, (Forseti hringir.) að þetta sé sami samningurinn?