137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:16]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þetta með hv. þingmanni. Það skiptir miklu máli að við getum haldið vel á okkar málflutningi og útskýrt þetta og kynnt. Þegar hefur verið unnin heilmikil vinna og nú er í gangi vinna í þeim efnum. Utanríkisþjónustan öll leggur þar sitt af mörkum. Þetta hefur verið kynnt öllum sendiherrum á Íslandi. Þetta hefur verið kynnt í Brussel og á öllum þeim vígstöðvum sem við höfum aðstöðu til, ekki síst á Norðurlöndunum og hjá aðilum þar sem vonandi leggja okkur lið í þessum efnum. Þingmenn geta að sjálfsögðu og eiga að leggja sitt af mörkum. Alþingi er þátttakandi í margs konar fjölþjóðastarfi og það getur skipt máli að við kynnum þetta þar sem við höfum sambönd og aðgang og skipuleggjum jafnvel sérstakar ferðir eða heimsóknir. Til dæmis gætum við kynnt vinahópum Íslands þetta á þjóðþingum sem víða eru starfandi í nálægum löndum. Það getur allt saman komið vel til greina og ber að skoða það í framhaldinu.