137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:18]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að þessi langa meðganga málsins og sá langi aðdragandi sem er að afgreiðslunni hafi sumpart þjónað þessum tilgangi sem hv. þingmaður lýsir eftir. Ég held að það hafi ekki farið fram hjá neinum að málið er stórt og erfitt og á Íslandi hafa menn þungar áhyggjur af þeim miklu byrðum sem verið er að leggja á okkur. Það hefur skilað sér rækilega í gegnum alþjóðlega umfjöllun að undanförnu. Þeir sem fylgjast með málinu, bæði viðsemjendur okkar Hollendingar og Bretar sem og Norðurlandaþjóðirnar og fleiri, eru mjög vel meðvitaðir um þetta núna. Það vitum við. Miklu betur en í vetur og vor. Að því leyti til hefur þessi langa meðganga málsins þjónað því, að ég held, að skilningur hefur aukist á því hversu stórt og erfitt þetta mál er fyrir Ísland. Að sjálfsögðu þarf síðan líka að fylgja því eftir. Ég held að ekki sé ástæða til að bíða með endanlega afgreiðslu málsins eftir að grundvöllur afgreiðslunnar liggur fyrir. Hann er mönnum ljós núna, það er opinbert, en ég held að það sé tvímælalaust rétt að fylgja því vel eftir í framhaldinu.