137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[14:20]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum um Icesave-samningana, ríkisábyrgðina, eftir umfjöllun fjárlaganefndar sem hefur nú í margar vikur velt upp hinum ýmsu hliðum á þessu máli, lagalegum og efnahagslegum, sögunni og hversu góð niðurstaðan er. Við 1. umr. þessa máls sættu samningarnir sem slíkir harðri gagnrýni. Mig langar til þess samhengisins vegna að fara í örstuttu máli yfir aðdraganda þess að samningar voru gerðir við Breta og Hollendinga í sumar.

Ég tel að nokkur meginatriði skipti öllu þegar samhengi málsins er rætt á þinginu og við fjöllum um þörfina fyrir ríkisábyrgð og mikilvægi þess að taka hana til endurskoðunar á þinginu og gera á henni breytingar til samræmis við hagsmuni okkar Íslendinga. Þar er fyrst til að taka í hversu þrönga stöðu viðsemjendur okkar í málinu settu íslensku ríkisstjórnina strax í októbermánuði í fyrra með því að þrengja að okkar hagsmunum á öllum vígstöðvum. Það var ekki nóg með að Bretar beittu hinum ósmekklegu aðgerðum, sem við þekkjum öll og hefur verið vitnað til sem beitingar hryðjuverkalaganna, heldur var gripið til þess ráðs að nota fulltrúana í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að tefja fyrir fyrirgreiðslu gagnvart Íslandi vegna þeirrar lánsbeiðni sem þar lá frammi af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Til stóð að þvinga Íslendinga til að fallast á lagalega skuldbindingu í málinu samkvæmt evrópskum tilskipunum. Sú atburðarás átti sér stað í tengslum við ECOFIN-fundinn sl. vetur þar sem þáverandi fjármálaráðherra Íslands, Árni Mathiesen, var staddur. Í kjölfarið fór fram þessi gerðardómsmeðferð sem rann öll út í sandinn vegna þess að viðsemjendur okkar og viðmælendur sýndu sitt rétta andlit. Þeir höfðu engan áhuga á lögfræðilega réttri niðurstöðu í málinu heldur bara á þeirri niðurstöðu sem þeim kom best. Í framhaldinu var síðan komið á viðræðum á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða sem svo oft eru nefnd til sögunnar í þessu máli.

Ég vil byrja á því að vekja athygli á einu meginatriði að frá því að hin sameiginlegu viðmið komust á var viðræðuferlið við Breta og Hollendinga núllstillt. Allt það sem fram að þeim tímapunkti hafði gerst var lagt til hliðar. Aðilarnir komu sér saman um að láta ekki reyna á lagalega stöðu málsins sín á milli heldur var ákveðið á grundvelli yfirlýsingar um að ríkt tillit yrði tekið til þarfar Íslendinga til að endurreisa sitt efnahagslíf og koma fjármálakerfinu aftur í gang að viðræður færu fram á þeim grundvelli. Það var í trausti þess sem þingið tók þá ákvörðun í desembermánuði sl. að veita ríkisstjórninni umboð til að leiða samninga við þessar tvær þjóðir til lykta. Þetta er kristaltært og algerlega skýrt öllum þeim sem kynna sér þingumræðuna og þau þingskjöl sem liggja frammi í málinu í tengslum við þá afgreiðslu.

Sem formaður utanríkismálanefndar fylgdist ég mjög grannt með því sem gerðist í kjölfarið og inn á borð utanríkismálanefndar komu skýr skilaboð frá samningamönnum Íslands í viðræðunum við Breta og Hollendinga. Í stuttu máli voru skilaboðin þessi: Viðsemjendur okkar telja að Íslendingar skuldi þeim alla fjárhæðina. Þeir ætlast til að hún verði greidd að fullu. Þeir eru tilbúnir til að lána fjárhæðina en þeir vilja fá vexti og þeir vilja að upphæðin verði greidd hratt til baka. Strax á fyrstu vikum málsins var því orðið ljóst að þeir sem höfðu fallist á að fara í viðræður við íslensk stjórnvöld á grundvelli hinna sameiginlegu viðmiða þar sem átti að taka tillit til okkar Íslendinga sviku í reynd það loforð strax á fyrstu dögum viðræðnanna. Í þessum farvegi var málið þegar hin nýja ríkisstjórn tók við í febrúar með yfirlýsingum um að nú þyrfti að taka öðruvísi á þessum málum.

Ég tel að það hafi verið gerð mistök strax á þessum tíma að kalla ekki forusturíki ráðherraráðsins og Evrópusambandsins að borðinu vegna þess að það hafði verið skrifað inn í viðmiðið að Evrópusambandið mundi halda áfram að fylgjast með málinu. Við áttum strax á þessum tíma að beita okkur fyrir því að skilningur á okkar afstöðu vaknaði meðal annarra Evrópusambandsríkja, Norðurlandanna og annarra þjóða sem eiga fulltrúa hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum til að koma í veg fyrir að ósanngjörnum áróðri væri haldið uppi gagnvart Íslandi. Að óskyld mál yrðu tekin í gíslingu eins og seinna var gert og sú sanngjarna krafa sem við höfðum uppi í málinu um að tillit yrði tekið til aðstæðna á Íslandi og ef engin niðurstaða fengist í slíkar viðræður væri málið lagt fyrir hlutlausa dómstóla heyrðist skýrt og skilmerkilega.

Hvaða Evrópuþjóð er annars líkleg til að neita annarri þjóð um að láta reyna á lagalega stöðu sína ef upp kemur ágreiningur? Sú hin sama þjóð verður þá að vera tilbúin til að sæta slíkri höfnun sjálf þegar hún telur mikils vert að geta beitt þeim sjálfsagða rétti sínum. Ég fullyrði að engin þjóð í Evrópu sættir sig við slíka meðferð. Af sömu ástæðu ætti engin þjóð í Evrópu að beita aðra Evrópuþjóð slíkum órétti. Í stað þess að fá Evrópusambandið að borðinu og forusta ríkisstjórnarinnar færi til samtals við forustumenn annarra ríkja sem við helst þurfum að treysta á í þessu samhengi var samt ákveðið að láta það undir höfuð leggjast og halda áfram samningaviðræðum sem framan af virtust vera því sem næst vonlausar. Eftir því sem upplýst var í utanríkismálanefnd högguðust þessar viðræður hvorki til né frá svo mánuðum skipti. Á sama tíma vorum við komin með lánin frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum langt fram yfir endurskoðunardagsetningu og tíminn byrjaði að vinna gegn okkur í málinu.

Jafnframt er algert grundvallaratriði að átta sig á því að engar yfirlýsingar höfðu verið gefnar af íslenskum stjórnvöldum, hvorki fyrir né eftir bankahrunið, sem lofa ríkisábyrgð á þeim skuldbindingum sem er verið að fjalla um. Það hefur verið talað um að styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta og að Íslendingar mundu standa við sínar alþjóðlegu skuldbindingar. Það hefur líka verið rætt um að ríkissjóður mundi gera það sem í hans valdi stæði til að styðja tryggingarsjóðinn við að leysa úr þeim vanda sem upp kynni að koma en því var aldrei lofað, hvorki fyrir né eftir bankahrunið, að veitt yrði ríkisábyrgð fyrir allri kröfunni sem haldið var uppi gagnvart Íslandi.

Þess vegna urðu það þinginu, og ég tala fyrir þá þingmenn sem stóðu að meirihlutaáliti utanríkismálanefndar um að afgreiða þingsályktunartillögu til að ljúka þessu máli frá því í desember í fyrra, gríðarleg vonbrigði að ríkisstjórnin skyldi skrifa upp á samninga þar sem í fyrsta sinn var fallist á að veita ríkisábyrgð fyrir allri skuldbindingunni með tilvísun til þess að menn hafi verið bundnir af fyrri yfirlýsingum íslenskra stjórnvalda. Þetta er ekki bara efnislega misskilningur, þetta er beinlínis rangt. Hvergi er nokkur einasti fótur fyrir þessu í skriflegum gögnum.

Í öðru lagi verður að segjast að samningarnir sem slíkir eru líka þinginu mikil vonbrigði á þeirri forsendu að þar er í raun ekkert tillit tekið til aðstæðna á Íslandi eins og upp var lagt með. Menn geta rætt um greiðsluhlé samkvæmt lánasamningunum í sjö ár. Vissulega veitir það okkur svigrúm til að nota þá fjármuni sem við höfum úr að spila til annarra mikilvægra mála en í millitíðinni hlaðast upp vextir. Við fáum engan greiðsluafslátt, það er bara verið að fresta þeim. Þetta skapar svigrúm en það er ekki þetta sem þingið átti við þegar það treysti á að tekið yrði ríkt tillit til þarfar Íslendinga til að endurreisa efnahagskerfi sitt.

Fyrir utan þessi tvö grundvallaratriði þar sem ríkisstjórnin leggur sem sagt í fyrsta lagi til að við föllumst á ríkisábyrgð fyrir allri skuldbindingunni og í öðru lagi að við sættum okkur við að ekkert raunverulegt tillit sé tekið til aðstæðna á Íslandi og þarfar okkar til þess að endurreisa efnahagskerfið er fjöldinn allur af öðrum göllum og mistökum í þessum samningi sem hafa verið hér til umfjöllunar í þinginu. Í sjálfu sér væri ástæða til þess að halda sérstaka ræðu um þá.

Málið var lagt hér fram með þeim orðum, eins og ég rakti áðan, að hendur samninganefndarinnar hafi verið bundnar af fyrri ákvörðunum. Þetta er rangt. Í öðru lagi var því haldið fram þegar málið var lagt fram á þinginu að samkvæmt þeim útreikningum sem gerðir hefðu verið væri ekki sú efnahagslega áhætta í málinu sem efasemdamenn hér í þinginu hefðu haldið fram. Þeir sem gagnrýnt hafa málið hafa einfaldlega bent á að með því að fallast á ríkisábyrgð á þetta miklum skuldbindingum, óháð efnahagslegri þróun á Íslandi, værum við því sem næst að setja snöru um hálsinn á okkur sem við vissum ekki hvort mundi þrengja að okkur síðar.

Til að byrja með var gripið til ýmissa skýringa eins og þess að í samningunum væri að finna endurskoðunarákvæði sem kæmu okkur til góða ef þessar aðstæður kynnu að rísa. Þegar betur var að gáð var ljóst að endurskoðunarákvæðið sem slíkt var algjörlega gagnslaust til þess að tryggja hagsmuni íslensku þjóðarinnar í þessu efni. Ég held að umræðan hér á þinginu og í fjárlaganefnd hafi þróast með þeim hætti að þetta sé orðið óumdeilt.

Í ræðu hæstv. fjármálaráðherra hér í 1. umr. velti hann upp þeirri spurningu, hæstv. ráðherra, hvort íslenska þjóðarbúið réði við þessar skuldbindingar. Þar segir í ræðunni, með leyfi forseta:

„Þá er spurning um það, ræður íslenska þjóðarbúið við þessar skuldbindingar á árabilinu 2016–2024 eða árunum sem þá fara í hönd? Það er vissulega stór spurning.“

Það er þetta atriði sem þingið sættir sig ekki við. Á þessu atriði klofnaði þingið í tvennt og þetta atriði tekur fjárlaganefndin til endurskoðunar og segir: Við sættum okkur ekki við að fara með þá spurningu opna inn í framtíðina hvort íslenska þjóðarbúið ráði við að standa undir þessum skuldbindingum. Málið er lagt þannig fyrir þingið að það sé réttlætanlegt og í raun óhætt að leggja upp í þessa óvissuferð og vona það besta.

Fjárlaganefnd Alþingis hefur nú lagt fram breytingartillögu sem naut stuðnings fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í nefndinni og gengur út á að við slíka óvissu vilji þingið ekki búa. M.a. af þessari ástæðu segi ég: Það er búið að kollvarpa þessu máli. Það er búið að taka efnahagslegar forsendur málsins og segja: Í stað þess að búa við fullkomna óvissu með veikt eða handónýtt endurskoðunarákvæði viljum við einfaldlega að efnahagslega áhættan sé skýrt afmörkuð í ákvæði sem tryggir hagsmuni íslensku þjóðarinnar ef allt fer hér á verri veg.

Í reynd er það þannig að samkvæmt ákvæðinu erum við einungis tilbúin til þess að ráðstafa 6% af vexti landsframleiðslunnar í framtíðinni til þessa máls, það er allt og sumt. Þingið segir: Við erum tilbúin til þess að veita ríkisábyrgð fyrir skuldbindingunni en hún mun þó aldrei taka til meiri fjárhæðar en sem nemur 6% af vexti landsframleiðslunnar. Með öðrum orðum, ef hér verður enginn vöxtur á landsframleiðslunni kemur ekki til þess að við greiðum neitt af þessum samningum. Auðvitað munum við ná okkur á strik og ég er ekki að spá slíku afhroði hér í efnahagsmálum að við fáum ekki vöxt í landsframleiðsluna en það er grundvallarmunur á því að leggja málið upp með þeim hætti eða með því að sætta sig við að spurningin hvort við getum risið undir þessum greiðslum sé opin og óviss.

Málið hefur þróast þannig frá því að það var lagt fram í 1. umr. að öllum efasemdaröddum hefur markvisst verið vísað á bug sem ýmist misskilningi eða órökstuddum málflutningi. (VigH: Rétt.) Það hefur verið einkennileg upplifun fyrir stjórnarandstöðuna í þessu máli að þurfa að eiga orðastað við forustu ríkisstjórnarinnar nánast eins og maður væri að semja við Breta og Hollendinga sjálfa. (Fjmrh.: Þetta er nú ekki drengilega mælt.) Það hefur ekki verið nokkurt einasta svigrúm fyrir efasemdaraddir og það er alveg sama hvar drepið er niður fæti, öllu hefur markvisst verið vísað á brott.. (GBS: Hárrétt.)

Ég er af handahófi hérna með þrjár greinar frá aðstoðarmanni fjármálaráðherra þar sem hann hrekur öll rök Ragnars Halls, Harðar Felix Harðarsonar og Eiríks Tómassonar lögfræðinga fyrir því að menn hafi gert mistök í uppgjörsákvæði samninganna. Svona er búið að koma fram við stjórnarandstöðuna í þessu máli, hvert og eitt einasta atriði. Menn hafa verið duglegir við að koma fram í fjölmiðlum, skrifa greinar, mæta í andsvör í þinginu. Hart hefur verið tekist á í fjárlaganefndinni. Öllu er markvisst svarað og vísað á brott og spurt: Ætlið þið virkilega að setja Icesave-samningana upp í loft og stórskaða þannig hagsmuni þjóðarinnar, fresta endurreisninni? Senda allt ferlið aftur til októbermánaðar í fyrra, eins og hæstv. fjármálaráðherra fjallaði um í sinni framsöguræðu í málinu. Fjallað hefur verið um málefnalegar athugasemdir stjórnarandstöðunnar sem pólitíska árás á ríkisstjórnina, menn væru í pólitískum skylmingum heima fyrir sem ættu að nýtast í pólitískum tilgangi til þess að auka fylgi flokkanna, það væri ekki í reynd verið að fjalla um málið af neinni alvöru ábyrgð.

Við vitum öll hvað gerðist síðan í kjölfarið. Ég vil byrja á því að segja að Alþingi stendur í stórkostlegri þakkarskuld við alla þá lögfræðinga, hagfræðinga og aðra sem hafa af fúsum og frjálsum vilja komið fram, gefið tíma sinn í að kafa ofan í þessi gögn, lesa samningana, fletta lögfræðibókum, finna dóma og lesa erlendar fræðigreinar. Allir þessir hafa gefið sér tíma til þess að leggja íslensku þjóðinni lið við að betrumbæta þetta mál. (VigH: Rétt.) Megi þeir allir hafa miklar þakkir fyrir sitt framlag vegna þess að það hefur haft gríðarlega mikil áhrif á framgang málsins hér og alla umræðu í þinginu og þjóðfélaginu yfir höfuð.

Eftir því sem fleiri hafa lagst á árarnar hefur efasemdaröddunum fjölgað hér í þinginu. Í reynd kom í ljós eftir nokkrar vikur að ríkisstjórnin hafði ekki meiri hluta fyrir þeirri tillögu sinni að þingið ætti að veita ríkisábyrgð fyrir þeim samningum sem hér voru lagðir fram. Í Icesave-samningunum er ekkert svigrúm fyrir takmarkaða ríkisábyrgð og engin umfjöllun um að Íslendingum sé ætlað að standa í skilum við þá lánasamninga sem um er að ræða í samræmi við greiðslugetu sína. Þetta frumvarp er tvær greinar. Önnur fjallar um að veita þurfi ríkisábyrgð fyrir samningunum og hin segir að lögin taki strax gildi.

Ég er hér með breytingartillögur fjárlaganefndar á fjórum síðum. Það er auðvitað ekki endanlegur mælikvarði á efnislegar breytingar á málinu en þegar maður les breytingartillögurnar sést að þar er skipulega farið yfir hvert einasta atriði sem mest hefur verið gagnrýnt í þessu máli og þannig búið um að hagsmunir Íslendinga eru hafðir að leiðarljósi. Það skorti algjörlega í því frumvarpi sem ríkisstjórnin lagði fram. Þeir samningar voru þannig að í reynd hefði nánast sama niðurstaðan orðið ef við hefðum borið málið undir hlutlausan dómstól og einfaldlega tapað því.

Það er erfitt að gera sér í hugarlund einhverjar kröfur Hollendinga og Breta sem þeir fengu ekki fullnægt í þessum samningum við íslensku ríkisstjórnina. Ég á erfitt með að sjá fyrir mér nokkurn þann hlut sem Bretar og Hollendingar fóru fram á að við gengjumst í ábyrgð fyrir og viðurkenndum að við skulduðum viðkomandi ríkjum sem ekki hefur náð fram að ganga í þessum samningum. Eftir meðhöndlun þingsins, þegar í ljós kom að ríkisstjórnin hafði í raun og veru ekki meiri hluta lengur á þinginu, tókum við í Sjálfstæðisflokknum og fulltrúar okkar í fjárlaganefnd þá ákvörðun að reyna að betrumbæta þetta mál. Við áttum sannarlega hlutdeild í þeirri ákvörðun að leggja af stað í þetta viðræðuferli. Ég er enn þá þeirrar skoðunar að það hafi verið skynsamlegt. Ég tel að það hafi þjónað okkar bestu hagsmunum á þeim tíma sem sú ákvörðun var tekin og ég er enn þá þeirrar skoðunar að mjög sterkar pólitískar ástæður séu til þess að reyna að leiða þennan ágreining í jörð. Við megum þó aldrei gefa okkar lagalegu stöðu í þessu máli frá okkur og við eigum ekki heldur að sætta okkur við neins konar pólitíska afarkosti. Sem betur fer hefur þó ekki þannig verið haldið á málinu að þessu tvennu verði ekki bjargað.

Með breytingartillögum fjárlaganefndar er í reynd verið að gera eins konar viðbót við samningana. Verði frumvarpið samþykkt hér verður ríkisábyrgðin hluti af samningnum sjálfum. Þess vegna verður eiginlega að viðurkennast að þingið er nánast komið í það hlutverk að hafa einhliða áhrif á samningsniðurstöðuna. Þetta er afskaplega einkennileg staða. Þess vegna er það mín sannfæring að langbest og skynsamlegast væri, ef þetta mál verður klárað með þessum hætti, að aðilar málsins kæmu sér saman um að endurgera lánasamningana og að síðan stæði ríkisábyrgð að baki þeim. Það er eitthvað óeðlilegt, óheppilegt og ég vil meina óskynsamlegt við að vera með mjög bólginn lánasamning en takmarkaða ríkisábyrgð á bak við hann. Eru ekki allir sammála því að langbest væri að vera með samninga sem endurspegluðu það samkomulag sem er á milli þjóðanna og að baki slíkum samningi væri einfaldlega ríkisábyrgð án fyrirvara og allra málalenginga og alls þess sem er að finna í þeirri ríkisábyrgð sem við erum nú með í höndunum?

Þess vegna er það mín sannfæring að það væri langheppilegast að þeir sem eiga hér hlut að máli, íslenska ríkisstjórnin, sú breska og sú hollenska, horfðust í augu við þennan veruleika og gerðu þær breytingar á samkomulaginu sem þingið kallar eftir.

Það hefur verið mjög merkilegt að fylgjast með því undanfarna daga hvernig erlendir fjölmiðlar og eftir atvikum kollegar okkar á öðrum þjóðþingum fóru loksins að taka við sér og augu þeirra opnuðust fyrir því að kröfur Íslendinga í þessu máli eru í reynd afskaplega sanngjarnar og einfaldar. Við höfum í fyrsta lagi sagt allan tímann að við séum tilbúin til að leysa þetta mál og við ætlum ekki að hlaupast undan okkar alþjóðlegu skuldbindingum. Við höfum þó líka haldið því til haga að við ætlum ekki að fella okkur við að skuldir einkaaðila verði gerðar að skuldum almennings í landinu með þeim hætti að fullkomin óvissa sé um hvernig íslenska þjóðin geti risið undir slíku í framtíðinni.

Ég er þeirrar skoðunar að það frumvarp sem ríkisstjórnin tefldi fram hafi fallið á báðum þessum prófum. Þar er lagt til að veita ríkisábyrgð fyrir öllu saman og menn sætta sig við efnahagslega óvissu án þess að til staðar sé öflugt endurskoðunarákvæði. Þess vegna hefur verið unnið gríðarlega mikilvægt starf í þinginu. Okkar ákvörðun í Sjálfstæðisflokknum var, eins og ég vék að áðan, að leggja þeirri mikilvægu vinnu lið. Þegar ríkisstjórnin stóð frammi fyrir því að hún hafði ekki meiri hluta á þinginu til að fylgja málinu óbreyttu eftir og í gegn, og það gerðist í reynd mjög seint í ferlinu, sköpuðust aðstæður fyrir stjórnarandstöðuna til að hafa efnisleg áhrif á þetta mál. Slíkt tækifæri í jafnstóru máli vorum við ekki tilbúin til að láta fram hjá okkur fara. Það hefði í sjálfu sér verið afskaplega einfalt að stíga til hliðar og vilja ekki koma nálægt þessu máli, leyfa ríkisstjórninni að eiga það með húð og hári, en við töldum það ekki ábyrga afstöðu í þessu máli. Miklu frekar vildum við koma okkar sjónarmiðum að og það verður að segjast forustu fjárlaganefndar til hróss að menn féllust að lokum á að það væri skynsamlegt að gera breytingar á málinu.

Menn hafa haft uppi athugasemdir við að ég skuli fjalla þannig um þessa niðurstöðu að við séum að gera gagntilboð. Það geti varla þjónað hagsmunum okkar að fjalla þannig um málið ef menn vilji í reynd að meðhöndlun þingsins, afgreiðsla Alþingis, leiði málið til lykta. Ég er einfaldlega ósammála þessu. Ég tel að það sé okkur alltaf farsælast að tala um málin eins og þau eru. Þingið sendir núna tiltölulega einföld skilaboð út, þau þurfa að heyrast og við þurfum að vera tilbúin til að standa að baki þeim, tala um þau eins og þau eru, vinna þeim fylgi og stuðning hjá öðrum þjóðum og sannfæra viðsemjendur okkar í þessu máli um að þetta sé skynsamleg niðurstaða. Eins og ég vék að áðan fjallar sú niðurstaða fyrst og fremst um að við erum ekki tilbúin til að veita ríkisábyrgð á fjárhæð sem er umfram þetta tiltekna hlutfall af vexti landsframleiðslunnar í framtíðinni.

Nú fer þetta mál aftur til fjárlaganefndar á milli umræðna. Ég tel í ljósi umræðunnar sem hefur verið á þinginu í dag og í fjölmiðlum undanfarna daga að það sé nauðsynlegt fyrir fjárlaganefnd að ræða efnahagslegu viðmiðin nánar og eyða öllum hugsanlegum vafa um að við séum að gera nokkuð annað en veita ríkisábyrgð fyrir þessum hámarksfjárhæðum samkvæmt þeim reiknireglum sem er að finna í frumvarpinu. Það þarf að vera alveg skýrt að það sem út af stendur þegar lánasamningarnir og ríkisábyrgðin eru borin saman er fjárhæð sem nýtur ekki ríkisábyrgðar. Mér finnst eðlilegt að fjallað sé um að við þær aðstæður skulu aðilarnir eiga með sér viðræður, ekki síst í ljósi þess að málið er í þessum einkennilega búningi sem ég var að lýsa áðan. Misræmi getur komið upp milli lánasamninganna og ríkisábyrgðarinnar og við þurfum á því að halda að viðsemjendur okkar ýti öllu sem út af stendur til hliðar. Það má t.d. ekki koma upp að innstæðutryggingarsjóðurinn lendi í vanskilastöðu vegna þess að ríkisábyrgðin sé takmörkuð. Engin ákveðin trygging er fyrir því hér, önnur en sú að það eigi að taka upp viðræður og fari slíkar viðræður ekki fram eða leiði þær ekki til niðurstöðu takmarkist ríkisábyrgðin í samræmi við þetta hámark.

Við skulum hafa í huga að þetta girðir í sjálfu sér ekki fyrir að innstæðutryggingarsjóðurinn lendi í vanskilum. Það kann að vera óheppilegt. Þetta er ein hlið á málinu sem ég tel að fjárlaganefnd þurfi að kafa nánar ofan í. Þetta er sama ástæðan og ég vék að áðan fyrir því að í reynd væri langbest að lánasamningurinn sjálfur yrði endurskrifaður og það væri bara ríkisábyrgð að baki honum.

Ég ætla líka að fjalla stuttlega um lagalegu stöðu málsins. Það er eðlilegt að því sé velt upp í umræðu um þetta stóra mál hvers vegna í ósköpunum við föllumst yfir höfuð á að greiða nokkuð ef við erum á sama tíma þeirrar skoðunar sem ég er, þ.e. að í reynd sé ekki ríkisábyrgð fyrir greiðslu lágmarkstryggingarinnar. Þetta er eðlileg spurning. Við fjölluðum um hana í vetur og við höfum rætt um hana margoft á þinginu. Ég var þeirrar skoðunar þá að þegar heildarhagsmunir okkar í þeirri erfiðu stöðu sem við höfum verið sett í, og höfum að hluta til komið okkur í, væru skoðaðir þá væri skynsamlegast fyrir okkur að reyna að leiða þetta mál til lykta með samningum. Það var mín sannfæring. Ég sagði í ræðu minni þegar við fjölluðum um þingsályktunartillöguna að við þyrftum að gera okkur grein fyrir því að ef við vildum fara í hart með þetta mál værum við um leið að segjast tilbúin til að taka afleiðingunum af því ef slíkar málsástæður okkar næðu ekki fram að ganga og við töpuðum hreinlega málinu.

Í mínum huga er þetta enn ástæðan fyrir því að við eigum að reyna að leiða þetta mál til lykta en ekki sætta okkur við að taka á okkur meira en þingið fjallar um í sínum breytingartillögum. Við skulum þá jafnframt hafa í huga að verði sú leið farin og verði niðurstaðan sú sem ég nefndi, að við töpuðum því máli, verðum við búin að koma okkur í miklu verri stöðu en verið er að tryggja okkur með breytingartillögum meiri hluta fjárlaganefndar. Ástæðan er einfaldlega sú að ef farið yrði í hart með þetta mál og okkar málstaður yrði undir í slíkum málarekstri stæði okkur ekki til boða við fjármögnun slíkrar niðurstöðu í framhaldinu að takmarka greiðslurnar við þróun efnahagsmála á Íslandi. Það væri enginn tilbúinn til að fjármagna slíka niðurstöðu án þess að full greiðsla kæmi fyrir. Sá möguleiki stendur þó að mínu áliti enn þá opinn og í framhaldi þess að þingið mun afgreiða þetta mál er auðvitað nauðsynlegt að halda málstað okkar hátt á lofti eins og hv. þm. Pétur Blöndal vék að áðan. Við þurfum á öllu okkar að halda til að sjónarmið okkar heyrist skýrt og skilmerkilega á Norðurlöndunum og annars staðar. Eins og ég vék að áðan hefur það verið gleðileg þróun fyrir okkur að sjá hvernig augu fjölmiðlanna og kollega okkar eru að opnast fyrir því að við erum ekki með ósanngjarnar kröfur uppi í þessu máli eða að reyna að hlaupast frá okkar skuldbindingum.

Þrátt fyrir að ég sé þeirrar skoðunar að við eigum enn pólitískra hagsmuna að gæta af því að fá niðurstöðu í þetta mál tel ég engu að síður að það væri fullkomið ábyrgðarleysi ef þeim lagalegu fyrirvörum væri ekki komið inn sem eru í breytingartillögunum, um að við höfum enn ekki fallið frá þeim rétti að láta á þetta reyna og að við höfum enn ekki gefið frá okkur þann möguleika að fá leiðréttingu á stöðu okkar ef í ljós kemur að okkar málstaður er réttur. Það verður þó að segjast um þetta atriði að staða okkar til að láta á þetta reyna verður allt önnur eftir að lánasamningarnir hafa verið virkjaðir og greiddir út. Það er stærsta og erfiðasta ákvörðunin sem ég tel að við stöndum frammi fyrir. Eigum við að setja okkur í þá stöðu að mun erfiðara verði að láta reyna á þessi lagalegu álitaefni áður en lánasamningarnir eru gerðir, undirritaðir og greiddir út? Munurinn liggur í því að áður en lánasamningarnir eru afgreiddir þurfa Bretar og eftir atvikum Hollendingar að sækja okkur og við getum einfaldlega vísað á íslenska dómstóla. Það kann að vera ólíkleg atburðarás í hugum margra en þannig er a.m.k. hinn lagalegi farvegur málsins. Eflaust mundu fyrst koma til pólitískar þvinganir af ýmsum toga áður en málið færi í þann farveg en sú er a.m.k. lagaleg staða okkar. Eftir að lánasamningarnir hafa hins vegar verið gerðir er það íslenska ríkið sem þarf að sækja sinn rétt og það verður að viðurkennast að þá er miklu þrengra um möguleika til að bera málið undir hlutlausa dómstóla. Þó er rétt að minnast á það í þessu samhengi að hinn lagalegi ágreiningur snýr ekki eingöngu að ríkisábyrgðinni.

Við þurfum líka að fá úr því skorið hvernig fara eigi með allt það tjón sem breska ríkið hefur valdið eignasafni Landsbankans með beitingu hryðjuverkalaganna. Það tjón eitt og sér verður í reynd tjón íslenskra skattgreiðenda þar til það hefur fengist bætt vegna þess sem hér er í uppsiglingu. Gatið í eignasafni Landsbankans verður á endanum reikningur til íslenska ríkisins ef innstæðutryggingarsjóðurinn tekur á sig þessar skuldbindingar. Þetta er hinn ískaldi veruleiki málsins og það er alveg ótrúlegt að gengið hafi verið frá samningi við bresk stjórnvöld án þess að þessi hluti málsins hafi verið settur í öruggan farveg.

Í þriðja lagi er ein lagaleg hlið á þessu máli sem ég tel að þurfi að gaumgæfa mjög nákvæmlega. Hún fjallar um mögulega bótaábyrgð Evrópusambandsins vegna þeirra væntinga sem innstæðueigendur í Evrópusambandinu höfðu til innstæðutryggingakerfisins. Um þetta hafa Stefán Már Stefánsson prófessor og Lárus L. Blöndal fjallað í sínum blaðaskrifum. Ég ætla ekki að fara nánar út í það hér en sú staða kann að vera uppi að íslenska ríkið hafi við uppgjör málsins fengið til sín framselda bótakröfu, réttarstöðu innstæðueigenda í Evrópu sem hægt er að byggja málsókn gegn Evrópusambandinu á.

Í fjórða lagi og að lokum ætla ég að minnast á enn eina lagalega hlið þessa máls sem er sú, og ég tel að fjárlaganefnd þurfi að taka það til skoðunar á milli umræðna, hvort við séum mögulega að fyrirgera einhvers konar skuldajöfnunarrétti með þessari afgreiðslu málsins. Með því værum við að gera okkur mun erfiðara fyrir en efni standa til.

Það kann að þjóna pólitískum hagsmunum hér heima fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana að halda því fram að við séum að afgreiða sama málið og lagt var fram fyrr í sumar. Það kann að vera þægilegt fyrir þá í pólitískri umræðu að segjast hafa fengið sitt eigið mál samþykkt. Það kann líka vel að vera að fyrir stjórnarflokkana þjóni það þeirra hagsmunum í viðræðum við bresk og hollensk stjórnvöld að geta haldið því fram að þingið hafi staðfest samninginn eins og um hafi verið rætt, að veitt hafi verið ríkisábyrgð eins og lofað var fyrr í sumar. Það þjónar samt örugglega ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar að fara með annað en rétt mál í samskiptum við aðrar þjóðir. Það þarf að tala einfaldlega um hlutina eins og þeir eru. Þannig endurheimtum við það traust annarra þjóða sem svo mikið skortir á að við höfum í dag. Það þjónar heldur engum tilgangi að halda því fram við skynsama Íslendinga sem sjá staðreyndir málsins (Forseti hringir.) þegar þeir kynna sér þær að hér sé áfram um eitt og sama málið að ræða. Það er búið að kollvarpa (Forseti hringir.) frumvarpi ríkisstjórnarinnar. Við erum á réttri leið en málið í heild sinni er þó auðvitað hræðilegt. (Forseti hringir.)

Ég vil þakka mínu fólki í fjárlaganefnd fyrir þeirra vinnu. (Forseti hringir.) Enn hafa þau ekki einu sinni fengið nætursvefn en ég treysti fjárlaganefnd til að fara ofan í þau atriði á milli umræðna sem ég hef vakið athygli á.