137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:05]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir svarið því þetta var skilningur minn í morgun þegar ég beindi spurningu til hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar en hann lét ekki svo lítið að svara þeirri spurningu. Farsælast væri að mínu mati að eftir 2. umr. þingsins yrðu Bretar og Hollendingar kallaðir að samningaborðinu og látnir líta yfir það hvernig málið lítur út eftir 2. umr. og hvort þeir mundu fallast á þær breytingartillögur sem fyrir liggja eða hvort það sé raunverulega svo að þeir komi ekki til með að taka tillit til þess að fyrirvararnir gildi, því að þegar samningurinn tekur gildi með þeirri ríkisábyrgð sem á honum er gilda um hann bresk lög og mál verða rekin fyrir breskum dómstólum þar sem hvorki íslensk lög né stjórnarskrá gilda. Þess vegna tel ég að við ættum að reyna að ná samkomulagi um það í þinginu að eftir 2. umr. verði Bretar og Hollendingar kallaðir að borðinu og látnir útskýra hvernig þeir sjá málið og hvort hægt sé að halda þessu áfram.