137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:07]
Horfa

Atli Gíslason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það þýðir lítið að festa sig í fortíð þessa máls. Við breytum henni ekki en getum lært af henni. Í því ljósi vil ég leita viðbragða hv. þm. Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, við þrennu.

Ég lít svo á að dómstólaleiðinni hafi verið ýtt út af borðinu með þingsályktun 5. desember. Ákveðið var að ganga til samninga en ekki til dómstóla. Það er tvennt ólíkt.

Í beinu framhaldi af því í öðru lagi gaf fyrrverandi ríkisstjórn frá sér þann möguleika að kæra beitingu Breta á hryðjuverkalögum gagnvart Íslandi. Sá kærufrestur rann út 6. eða 7. janúar 2009. Margfaldar áskoranir komu fram til ríkisstjórnarinnar að beita þessu því að þetta var stjórnsýsluákvörðun Breta, ekki dómstólaákvörðun, og kæruleið og kæruvinnan tiltölulega einföld. Það hefur meira að segja mátt vinna upp röksemdirnar úr ræðum stjórnarandstöðunnar á þeim tíma.

Í þriðja lagi vil ég vekja athygli á því og spyrja hv. þingmann þar sem hann fullyrðir að ábyrgð hafi aldrei verið lofað. Ég tel þetta ekki rétt. Hvað með samkomulag við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn þar sem beinlínis var hert á ábyrgðaryfirlýsingum gagnvart Icesave viku fyrir undirskrift samninga? Hvernig getur hv. þingmaður haldið því fram að það hafi aldrei verið lofað ábyrgð? Við verðum að vera reiðumenn í stjórnmálum. Ábyrgir reiðumenn í stjórnmálum, ekki óreiðumenn. Við verðum að standa við það sem við segjum á alþjóðavettvangi.

Það er skoðun mín að stöðunni hafi verulega verið fórnað eða staða okkar gerð mun verri með þingsályktun 5. desember. Þá var málið sett í þann farveg sem það er. Það var sett í þann farveg 5. desember og vikurnar á undan, frá 6. október. Endanlega var að mínu mati málinu klúðrað réttarfarslega og lögfræðilega með því að kæra ekki beitingu hryðjuverkalaganna. Mér er óskiljanlegt af hverju það var ekki gert og ég bið hv. þingmann að skýra það út fyrir mér og þingheimi.