137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:10]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi um dómstólaleiðina. Ég tel að við höfum enn ekki gefið frá okkur þann rétt að leita dómstólaleiðarinnar í málinu. Ég er þeirrar skoðunar að ef Bretar og Hollendingar ætla að þráast við og vilji ekki hlusta á skilaboð þingsins, ef á að setja okkur pólitíska afarkosti í þessu máli þá eigum við einfaldlega að segja við viðkomandi ríki: Við skulum leggja þetta mál fyrir hlutlausan þriðja aðila. Það er okkar tilboð fyrst ekki á að standa við hin sameiginlegu viðmið. Alveg tvímælalaust eigum við að fara dómstólaleiðina ef aðrir samningar standa ekki til boða en þeir sem ríkisstjórnin gekk frá og lagði til við þingið að samþykkja.

Varðandi kæru á beitingu hryðjuverkalaganna þá er rétt að ákveðinn frestur rann út fyrir íslenska ríkið til að kæra þá stjórnsýsluákvörðun og fyrrverandi forsætisráðherra gerði ítarlega grein fyrir þeirri niðurstöðu þingsins í þingsal á fyrra þingi. Ég ætla ekki að endurtaka það sem þar kom fram en sú ákvörðun ríkisstjórnar þess tíma byggði á lögfræðilegri ráðgjöf. En það eru enn uppi allir möguleikar fyrir skilanefnd Landsbankans til að fara í dómsmál vegna beitingar hryðjuverkalaganna og ég tel að skilanefnd Landsbankans eigi að gera það.

Um það að ekki hafi verið lofað ábyrgð og vísað var í samkomulagið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, þá vil ég leyfa mér að lesa upp úr áliti 1. minni hluta fjárlaganefndar. Þar er einmitt rakið hvað segir í þessu samkomulagi, með leyfi forseta:

„Íslendingar hyggjast virða allar lagalega réttarlagalegar skyldur sínar. Sé ekki samkomulag um það hverjar þær séu sé réttast að vísa slíkum ágreiningi til dómstóla eins og fram hefur komið á öðrum vettvangi.“

Þetta sagði í samkomulaginu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og sá sem heldur því fram að við höfum lofað ríkisábyrgð á þessum skuldbindingum vinsamlegast komi fram með þá yfirlýsingu.