137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:13]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri að ég og hv. þingmaður erum sammála um að Bretar verði að standa ábyrgir fyrir því tjóni sem þeir hafa valdið með beitingu hryðjuverkalaganna. Varðandi lagalega stöðu málsins þá er ég ekki sammála því að hún hafi versnað við þingsályktunartillöguna sem reyndar þingflokkur Vinstri grænna taldi að væri ógildanlegur nauðungarsamningur. Ég velti því þá upp hvers vegna þingflokkur Vinstri grænna hefur ekki lagt til að sameiginlegu viðmiðin verði ógild og málið sett aftur á byrjunarreit. Ef hv. þingmaður er svona öflugur og einbeittur talsmaður þess að við förum dómstólaleiðina í málinu þá er það svo sem enn þá opið. Það var ekki meiri hluti fyrir því í fjárlaganefndinni.

Við höfum verið talsmenn þess að við sættum okkur ekki við að vera beittir afarkostum í málinu. Ég ítreka það sem ég sagði áðan, ef á að halda okkur við þá samninga sem hér hafa verið gerðir og fara fram á ríkisábyrgð vegna þeirra mun Sjálfstæðisflokkurinn undir drep standa gegn því.