137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:17]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tel að í reynd hafi farið fram heilmikið umræða um það í þinginu hvort vísa bæri málinu aftur til ríkisstjórnarinnar. Það var málstaður fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd að það væri eftir atvikum líklega besta leiðin vegna þess að hér væri til umfjöllunar að gera svo miklar breytingar á ríkisábyrgðinni að það væri skynsamlegt að taka einfaldlega upp viðræður um allar þær breytingar. Þessi hlið málsins var rædd held ég í öllum þingflokkum. Niðurstaðan varð sú að það virtist ekki takast neinn meiri hluti fyrir því á þinginu, jafnvel þó ríkisstjórnin væri búin að missa meiri hluta fyrir þingmálinu óbreyttu, að fara þá leið. Það er þá bara einhver raunveruleiki sem fulltrúar Sjálfstæðisflokksins horfast í augu við í starfi sínu í fjárlaganefnd og reyna með öðrum hætti að hafa áhrif á framgang málsins þannig að hagsmunir íslensku þjóðarinnar séu hafðir í huga. En ég vék aðeins að þessu að öðru leyti áðan.

Varðandi skuldajöfnun snýst málið einfaldlega um það að taka til skoðunar hvort íslenska ríkið eða innstæðutryggingarsjóðurinn eigi mögulega einhverjar kröfur vegna krafna sem Landsbankinn kann að eiga sem hægt væri að skuldajafna móti þeim miklu kröfum sem er verið að beina að íslenska ríkinu í þessu máli. Ég vil vekja athygli á því að það þarf að gaumgæfa alla skuldajöfnunarmöguleika núna vegna þess að það getur verið erfiðara að beita skuldajöfnun á síðari stigum.

Varðandi þær breytingar sem vísað var til þá er mér ekki kunnugt um hvernig þau mál atvikuðust í fjárlaganefndinni. Það sem máli skiptir er að viðmið séu með þeim hætti að íslenska þjóðarbúið geti risið undir þeim endurgreiðslum sem þarna er um að ræða og 6% af vexti landsframleiðslunnar er samkvæmt mati hagfræðinga eitthvað sem þjóðarbúið á að geta ráðið við.