137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:22]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég held að það sé ekkert ofsagt sem hér hefur komið fram í umræðum í dag að þetta er eitt erfiðasta mál sem íslensk stjórnvöld hafa tekist á við á síðari tímum og auðvitað miklir hagsmunir í húfi fyrir íslenska þjóð. Ég held líka að ef við klárum þetta mál og frágang þess þá sé rutt úr vegi einum stærsta þröskuldi fyrir endurreisninni sem við erum að vinna að.

Það er auðvitað óljúft hverjum einstaklingi að mæla fyrir máli sem þessu sem aldrei getur orðið annað en baggi á þjóðinni en undan því verður ekki vikist að mínu viti. Hlutverk okkar stjórnmálamanna er auðvitað að velja þá leið sem við teljum farsælasta fyrir íslenska þjóð jafnvel þó að kostirnir séu slæmir. Umræður og endanleg afgreiðsla þessa máls er að ýmsu leyti prófsteinn á íslensk stjórnmál enda hefur sjaldan verið mikilvægara að málefnaleg umræða og kalt hagsmunamat um það hvernig hag þjóðarinnar verður best borgið ráði niðurstöðunni.

Sú niðurstaða sem nú virðist vera í augsýn sýnir að við stóðumst það próf að mestu og ég tel fulla ástæðu til að þakka þingmönnum, ekki síst í þeim nefndum sem hafa fjallað um þetta mál, og starfsfólki þingsins og þeim fjölmörgu aðilum utan þings sem lögðu sitt af mörkum vinnslu málsins. Að mínu viti er það afar mikilvægt að breið samstaða sé orðin um afgreiðslu þess. Málið á að vísu eftir að fara aftur til nefndar eins og hér hefur komið fram milli 2. og 3. umr. en við skulum vona að engu að síður haldist sú breiða samstaða sem orðið hefur í þessu máli.

Auðvitað er það svo að gríðarlegt verk er fram undan við að bæta þann skaða sem orðspor Íslands hefur orðið fyrir og það mun verða eitt af mikilvægum verkefnum stjórnvalda næstu missirin og árin en niðurstaða í Icesave-máli er forsenda þess að hægt verði að ráðast í það stóra verkefni.

Það er auðvitað eðlilegt eins og reyndin hefur orðið að þingið hefur tekið sér góðan tíma til að fjalla um þetta mál og meta allar hliðar þess, kosti og galla, réttarstöðu Íslands í málinu, skuldbindingar þjóðarinnar til að borga og gera þessa samninga við Breta og Hollendinga og vega og meta hvort umgjörð samninganna sé nægilega traust til að Íslendingar hafi viðspyrnu ef skuldaþol þjóðarinnar breytist verulega næstu árin. Ég tel að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn stendur að tryggi betur og skýri betur öryggisákvæði sem lúta sérstaklega að friðhelgi og efnahagslegri framtíð þjóðarinnar þannig að skuldirnar verði ekki þjóðinni ofviða. Það er mikilvægt.

Það er líka ástæða til að vekja máls á því að við verðum að varast að horfa of þröngt á það mál sem hér er til afgreiðslu. Þetta er hluti af stærri heild og alþjóðlegu samhengi sem verður að hafa í huga. Við verðum líka umfram allt í þessu stóra máli að læra af mistökunum sem gerð hafa verið í gegnum tíðina, afleiðingunum og orsökum þess að við stöndum í þessum sporum núna. Við hljótum þar m.a. að skoða og læra af einkavæðingu bankanna á sínum tíma, umgjörð þess hvernig að því var staðið. Þar var mörgu ábótavant og sárlega skorti ýmislegt að því er varðar regluverkið. Á ég þar ekki síst við dreifða eignaraðild og hvernig að þessu máli var staðið. Sú saga er liðin en engu að síður verðum við af henni að læra vegna þess að bankarnir sem nú eru í umsjá stjórnvalda eða ríkisvaldsins eiga auðvitað ekki að vera það lengur en þörf krefur og þá er mikilvægt að sú umgjörð sem við búum um framhaldið í þessu máli sýni að við höfum lært af reynslunni.

En fleira hefur fallið en íslensku bankarnir frá því í haust. Hugmyndasmíði nýfrjálshyggjunnar sem sett hefur rammann um mestalla efnahagsumræðu í þrjá áratugi hefur hrunið. Sú hugmynd að opnir og alþjóðlegir fjármagnsmarkaðir beini fjármagni ávallt á réttar brautir til framfara og varanlegrar hagsældar hefur einnig beðið hnekki. Sú kennisetning sem komið hefur Íslendingum mest í koll, að fjárfestingarbankar eigi að vera hreyfiaflið í efnahagslífinu, fæddi af sér efnahagsbólu sem hefur sprungið til stórskaða fyrir almenning og ríkissjóði í öllum okkar heimshluta. Við Íslendingar sitjum eftir með sárt ennið í þessu máli, m.a. vegna þess að við teljum að tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar sé miðuð við gjaldþrot einstakra banka en ekki hrun heilu bankakerfanna í einstökum löndum. Við höfum ekki fengið stuðning alþjóðasamfélagsins eða aðildarþjóða Evrópusambandsins á þessari túlkun. Má auðvitað líta svo á að við séum fórnarlömb þeirrar nauðsynjar sem Evrópulöndin töldu vera á því að viðurkenna ekki galla á regluverki í ESB eða tilskipun um innstæðutryggingar vegna hættu á enn frekari og víðtækari bankakreppu ef slíkt yrði gert. Það hlýtur að vera tekið tillit til þess í framhaldi þessa máls og á þeim tímum sem fram undan eru að greiða þann stóra skuldabagga sem búið er að leggja á þjóðina.

Það er auðvitað þannig að það er ekki síst verkefni seðlabanka og fjármálaeftirlita að sjá til þess að bankar og fjármálastofnanir tefli ekki efnahag þjóða í tvísýnu. Seðlabankar og fjármálaeftirlit í Bretlandi og Hollandi geta því ekki skotið sér undan allri ábyrgð á því sem varð íslenska bankakerfinu að falli. Íslensk stjórnvöld hafa haldið þessari skoðun á lofti og halda enn fast við hana. Það hefur verið þrautin þyngri að fá aðrar þjóðir til að fallast á sjónarmið okkar eða leggja ólík sjónarmið í þessu efni í óvilhallan dóm. Það þekkjum við og höfum margfarið í gegnum. Þessari grundvallarafstöðu þurfa Íslendingar þó að halda til streitu til síðari tíma enda er allt regluverk alþjóðlegrar bankastarfsemi til endurskoðunar um þessar mundir.

Við Íslendingar erum að fást við afleiðingar þrefaldrar kreppu, fjármála- og gjaldeyriskreppu og einnar alvarlegustu efnahagslægðar í okkar heimshluta sem yfir hefur dunið. Það er ljóst að regluverk okkar um fjármálamarkaðinn var ekki nægilega traust, innstæðutryggingatilskipun Evrópusambandsins óljós og eftirlitskerfi okkar var ekki nægjanlega vel á verðinum. Og eins og margoft hefur komið fram er ekki síst ástæða hrunsins að útrásarvíkingarnir fóru fram af of miklu offorsi og of miklum glannaskap. Þeir sem voru í forsvari fyrir útrásinni blésu á skömmum tíma út efnahag bankanna þannig að efnahagur þeirra samsvaraði 10–12-faldri landsframleiðslu og þeir horfðust greinilega ekki í augu við þá staðreynd að ódýrt lánsfé væri ekki lengur aðgengilegt á alþjóðlegum lánamörkuðum frá og með árinu 2006 og gengu fram á árinu 2007 og 2008 með æ meira óhófi og ágirnd. Í stað þess að minnka umsvif sín og sníða fjárfestingarbönkum sínum stakk eftir vexti á erlendum vettvangi hófu þeir að safna innlánum með loforðum um háa vexti á netreikninga í Evrópu. Þar með hjuggu þeir nærri þjóðarhagsmunum Íslands og annarra landa um leið og Landsbankinn skirrtist við að koma innlánssöfnum sínum í Bretlandi og Hollandi í erlenda tryggingavernd. Í raun gerði bankinn þannig út á íslenska ríkisábyrgð með íslensku þjóðskrána að veði. Fæstir Íslendingar gerðu sér grein fyrir að safnað hafi verið á 350 þúsund reikninga eða alls um 1.244 milljarða kr. í Bretlandi og Hollandi á örskömmum tíma. Það er svo sérstakt rannsóknarefni hvers vegna Landsbankanum var leyft að hefja innlánssöfnun á eigin ábyrgð í Hollandi í maí 2008 á sama tíma og reynt var með öllum ráðum að fá bankann til að koma innstæðum á Icesave-reikningum í Bretlandi í breskt dótturfélag.

Í Hollandi náði bankinn að safna á annað hundrað þúsund viðskiptavinum áður en hann féll 6. október sama ár. Finnski bankasérfræðingurinn Kaarlo Jännäri dregur það einnig sérstaklega fram í skýrslu sinni að útibú íslenskra fjármálastofnana erlendis hafi verið undanþegið bindiskyldu síðan í maí 2008. Skuldasöfnun einkavæddu bankanna var einnig af ótrúlegri stærðargráðu. Eins og kemur fram í upphaflegri greinargerð með frumvarpinu urðu skuldir Landsbankans t.d. 3.000 milljarðar íslenskra króna áður en yfir lauk þrátt fyrir að hann hafi einungis verið keyptur á 11 milljarða sex árum áður. Hér virðist hafa verið um stjórnlaust áhættuspil að ræða þar sem öll þjóðin var undir. Nauðsynlegt er að gera upp þetta tímabil í Íslandssögunni sem hófst með einkavæðingu bankanna og lauk með því að bankakerfi heillar þjóðar hrundi til grunna.

Hér erum við að fjalla um eina afleiðingu bankahrunsins, lagafrumvarp þar sem leitað er eftir samþykki Alþingis við því að ríkissjóður gangist í skilyrta ábyrgð fyrir láni Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta hjá breska og hollenska ríkinu. Ég vek athygli á því að frá upphafi hefur verið gert ráð fyrir að ríkisábyrgðin sé skilyrt með endurskoðunarákvæði þar sem greiðslugeta þjóðarinnar verður metin af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Íslenska ríkið greip inn í rekstur íslenskra fjármálafyrirtækja í byrjun október í fyrra til að koma í veg fyrir allsherjaráhlaup á þá sem leitt hefði til ómældra hörmunga fyrir íslenskt atvinnulíf og samfélag. Við megum ekki gleyma því að neyðarlögin frá 6. október miðuðu að því að bjarga innlendri bankastarfsemi og vernda innstæður landsmanna og það tókst að halda innlendri greiðslumiðlun og almennri bankastarfsemi gangandi og greiðslumiðlun milli landa stöðvaðist aldrei með öllu. Við megum því ekki með nokkrum hætti veikja grunn neyðarlaganna í úrvinnslu okkar á þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Þá væri meiri hagsmunum fórnað fyrir minni. Þetta sjónarmið finnst mér stundum hafa gleymst í umræðunni um Icesave-samningana við Breta og Hollendinga og því skulum við ekki gleyma að erlendir kröfuhafar og lánardrottnar höfðu lánað íslensku bönkunum mörg þúsund milljarða kr. til starfsemi sinnar og eiga á hættu að tapa mjög miklu fé. Því er það fagnaðarefni að tekist hefur að semja við þá um að koma að bankastarfsemi hér á landi til að rétta hlut sinn í endurreistu bankastarfi í þeirri von að þeir fái endurheimt að nokkru það fé sem þeir hefðu ella tapað. Allar horfur eru á því að endurreisn bankanna verði ekki eins kostnaðarsöm fyrir ríkið og almenning í landinu en á horfðist. Þar hefur samningaleiðin reynst okkur farsæl og það er okkur einnig dýrmætt að Bretar og Hollendingar hafa í samningunum fallist á að virða neyðarlögin.

Hæstv. forseti. Ég vil ítreka þakkir mínar til þeirra nefnda þingsins sem hafa fjallað um málið og ekki síst fjárlaganefndar en það er auðvitað ærin vinna sem liggur að baki umfjöllun um svona gríðarlega stórt mál. Meginniðurstaða nefndarinnar er að styrkja umgjörð samningsins, ekki síst endurskoðunarákvæðið í samhengi við skuldaþol þjóðarinnar og að hluta lagaleg viðmið. Í þeim breytingartillögum sem nefndin setur fram var viðfangsefnið að þræða þann milliveg að þó verið væri að styrkja ýmis öryggisákvæði samningsins sem snúa að Íslandi þá væri mikilvægt að gera það með þeim hætti að viðsemjendur okkar gætu ekki sagt að verið væri að ganga gegn grundvallarákvæðum samningsins eða brjóta hann. Ég tel að það hafi tekist. Það hefur aldrei verið efi í mínum huga að Alþingi gæti sett umgjörð um þann skilning sem það leggur í ríkisábyrgðina og er það raunar staðfest í umsögn þjóðréttarfræðings utanríkisráðuneytisins þar sem segir að samþykki Alþingis um ríkisábyrgðina sé ekki bara formsatriði heldur sé um raunverulegt efnislegt skilyrði fyrir gildistöku samninganna að ræða, enda segir í samningnum að hann öðlist gildi ef og þegar Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgðina. Í því sambandi skiptir auðvitað miklu máli þingsályktunin frá 5. desember sl. þar sem Alþingi fól ríkisstjórninni að leiða til lykta samninga við hlutaðeigandi stjórnvöld á grundvelli þeirra sameiginlegu viðmiða sem aðilar hafa komið sér saman um og er það grundvallaratriði að það skuli tekið tillit til hina erfiðu og fordæmalausu aðstæðna sem Ísland er í og knýjandi nauðsynjar þess að ákveða ráðstafanir sem gera Íslandi kleift að endurreisa fjármála- og efnahagskerfi sitt. Svo ég vitni aftur í þjóðréttarfræðing utanríkisráðuneytisins kemur fram í umsögn hans með vísan til þessara viðmiða að fyrirvari sem styrkir verulega endurskoðunarákvæði Icesave-samningsins og/eða þak á árlegri greiðslu eða efnahagslegt viðmið geti samrýmst viðmiðunum svo dæmi sé tekið. Samþykki Alþingi þessa fyrirvara eða breytingartillögu sem fyrir liggja er það síðan stjórnvalda og framkvæmdarvaldsins að tryggja að þeir fyrirvarar séu að fullu virtir og eins og fram kemur í áliti þjóðréttarfræðingsins, með leyfi forseta:

„Væri fyrirvaraleiðin farin væri nauðsynlegt að undirstrika að fyrirvararnir væru óaðskiljanlegur hluti samþykktar Alþingis á ríkisábyrgðinni til að fyrirbyggja að hinir samningsaðilarnir gætu haldið því fram að ríkisábyrgðin gildi en fyrirvararnir ekki.“ Þetta er rækilega undirstrikað í tillögum meiri hlutans.

Ljóst er að enginn góður kostur er í þessu máli og skuldabyrðar sem þarf að leggja á þjóðina vegna Icesave-skuldbindinganna eru miklar sem draga munu niður lífskjör í landinu um tíma. Margir hafa orðið til að segja: Við eigum ekki að borga skuldir einkaaðila og ekki sé hægt að leggja á þjóðina þessa skuldabyrði en þeir hinir sömu verða að svara hvaða betri lausn er þá í stöðunni. Ég hef ekki enn heyrt neina raunhæfa lausn sem gangi upp með þeim hætti að við öðlumst trúverðugleika og eðlilegan aðgang að alþjóðasamfélaginu á nýjan leik sem okkur er orðin lífsnauðsyn. Lagaleg viðmið og efnahagslegir fyrirvarar hafa verið aðallega í umræðunni varðandi breytingar á samningnum um efnahagslega þáttinn og skuldaþol þjóðarinnar. Það er rétt að ýmis óvissa er uppi um þann mikilvæga þátt og þar vegur auðvitað þyngst hagvöxturinn þar sem nokkuð ber á milli aðila um hver þróun hagvaxtarins getur orðið, þ.e. vaxtaþróunin og vaxtaútgjöldin. Þetta hangir líka saman ekki síst við sölu eigna Landsbankans hve mikið fellur á Tryggingarsjóðinn og íslenska ríkið.

Samkvæmt áliti Seðlabankans telur bankinn að þjóðarbúið verði fyllilega fært um að standa undir Icesave-skuldbindingum, eins og fram kemur í áliti Seðlabankans, og sé litið til álits Hagfræðistofnunar er ekki komist að þeirri niðurstöðu að Ísland geti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Þar kemur fram að hreinar skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu fari minnkandi sem gefur til kynna að þær séu ekki ósjálfbærar. Ljóst er þó að hagvaxtarspá Seðlabanka og fjármálaráðuneytisins gera ráð fyrir 3,6% meðalhagvexti 2010–2016 og 3% hagvexti eftir það en Hagfræðistofnun telur hagvöxt líklega verða nær 2–2,5% sem helgast af því að þeir spá minni fólksfjölgun. Einnig er ástæða til að minnast á í þessu samhengi að Seðlabankinn gaf út uppfærða hagspá 13. ágúst sem gerir ráð fyrir 9% samdrætti hagkerfisins í ár miðað við 11% spá bankans frá því í maí. Þetta er afar jákvætt en samkvæmt þessu verður samdrátturinn nokkuð minni en flestir gerðu ráð fyrir og ef þetta er raunin er hugsanlegt að halli ríkissjóðs verði minni en talið hefur verið. En allt er þetta ýmissi óvissu undirorpið eins og fram hefur komið í umræðunni í dag og erfitt að spá um framhaldið.

Ég vil segja, virðulegi forseti, að fyrirvararnir sem koma fram í breytingartillögum meiri hlutans eru þess eðlis að stjórnvöld ættu að geta útskýrt þá fyrir viðsemjendum og alþjóðasamfélaginu þannig að á þá verði fallist. Ef frumvarpið nær fram að ganga staðfestir Ísland vilja sinn til að standa við alþjóðlegar skuldbindingar en áréttað er að slíkt megi ekki verða efnahag landsins ofviða. Settir eru fyrirvarar og varnaglar er lúta að fullveldi landsins og efnahagslegri framtíð sem hvert þjóðþing í Evrópu hefði talið sér heimilt að gera. Einnig er haldið til haga rétti til að láta reyna á hver sé lagaleg staða á grundvelli EES-samningsins einkum að því er varðar úthlutun úr þrotabúi. Alltaf er gert ráð fyrir viðræðum milli aðila og aðkomu Alþingis áður en fyrirvararnir mundu leiða til takmörkunar á ríkisábyrgð. Þessa fyrirvara þarf að sjálfsögðu að kynna fyrir viðsemjendum en sannfæring mín stendur til þess að þeir munu ekki setja samningana í uppnám þegar þeir gera sér ljóst að hér er einungis um varnagla að ræða í samræmi við forsendur sem lagðar voru til grundvallar með Brussel-viðmiðunum.

Ég tel ekki ástæðu til, virðulegi forseti, að hafa um þetta stóra mál fleiri orð. Það er einlæg von mín að sú niðurstaða sem fæst þegar málið kemur til atkvæðagreiðslu verði til farsældar fyrir þjóðina. Ég ítreka þakkir mínar til nefndarmanna og þeirra sem hafa lagt sig alla fram um að fá eins ásættanlega niðurstöðu og hægt er að búast við miðað við allar forsendur sem menn geta gefið sér inn í framtíðina og hún verði með þeim hætti að þjóðin geti unnið sig fram úr þessu erfiða máli.