137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:42]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki er hægt að halda því fram að ræðan hafi verið mjög upplýsandi en margar kenningar komu fram. Ein kenningin hjá hæstv. forsætisráðherra var sú að hér væri um gjaldþrot frjálshyggjunnar að ræða og reglugerðarverkið sem unnið væri eftir væri meingallað. Ég er sammála því hvað varðar reglugerðarverkið en vek athygli hæstv. forsætisráðherra á að við tókum það algerlega upp eftir Evrópusambandinu, sem er þá væntanlega það frjálshyggjubandalag sem hæstv. forsætisráðherra vill að Íslendingar fari í.

Ég vil sömuleiðis upplýsa hæstv. ráðherra af því að hún telur að það sé mikið rannsóknarefni að kanna af hverju Landsbankinn fékk að stofna Icesave-reikninga í Hollandi, þá er það algerlega mál Samfylkingarinnar þar sem sá sem stýrði Fjármálaeftirlitinu var Jón Sigurðsson, helsti efnahagsráðgjafi þess flokks, og við þekkjum hver bankamálaráðherrann var.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra einnar spurningar: Hvernig stendur á því, þar sem þetta mál er augljóslega meingallað og kom í þingið algerlega meingallað, að ekki var samþykki og samstaða innan ríkisstjórnarinnar um málið þegar það var lagt fram? Af hverju var ekki búið að ganga frá því á þeim heimavelli áður en menn settu málið í þann farveg sem við þekkjum?