137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:44]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri mér alveg fulla grein fyrir því að það er viðkvæmt að nefna í eyru hv. þingmanns fall frjálshyggjunnar en ég held að flestir séu sammála um að nýfrjálshyggjan, ekki bara á Íslandi heldur um heim allan, hafi átt sinn þátt í því þroti og hruni sem við stöndum frammi fyrir, og reyndar fleiri þjóðir.

Varðandi regluverkið sem við höfum búið við um fjármálamarkaðinn og þó það sé að hluta til tekið upp samkvæmt tilskipunum Evrópusambandsins þá held ég hreinlega að það sé staðreynd sem við verðum að viðurkenna að það hafi verið gallað. Ég vísa í Finnann sem fór yfir allt regluverk og ástæður hrunsins, hann hélt því m.a. fram að skoða þyrfti regluverkið miklu betur, ég held að það sé alveg ljóst.

Hvað varðar Icesave í Hollandi þá er það nokkuð sem ég kom upp með áðan, en ég held að ofsagt sé að fara að vísa því til Jóns Sigurðssonar, formanns stjórnar Fjármálaeftirlitsins, að það sé allt honum að kenna að stofnað hafi verið til þeirra reikninga.