137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:58]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samfylkingin situr nú sitt þriðja ár í ríkisstjórn og var við stjórnvölinn þegar hrunið varð eins og allir vita en oft er reynt að líta fram hjá. Mig langar að spyrja hæstv. forsætisráðherra. Ríkisstjórnin féll frá málssókn vegna beitingar hryðjuverkalaganna þegar Bretar settu þau lög á okkur á sínum tíma. Þá var haft eftir talsmanni ríkisstjórnarinnar að hefði þessum rétti verið viðhaldið þá hefði svo mikill kostnaður fallið á íslenska ríkið. Mig langar til að spyrja forsætisráðherra sem var ráðherra í þeirri ríkisstjórn sem tók þessa ákvörðun: Hver var afstaða hennar til brottfalls réttarins og tók hún virkan þátt í þeirri ákvörðun? Sömuleiðis, hver var hugur samfylkingarráðherra þegar þessi ákvörðun var tekin?