137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:03]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Nú er þetta rugl búið að standa í hátt á þriðja mánuð og ríkisstjórnin hefur á meðan ekki getað gert nokkurn skapaðan hlut annan. Hún virðist vera með þessi karllægu einkenni að geta bara gert eitt í einu og það er Icesave-málið sem hefur átt hug stjórnarinnar allan. En illu heilli hefur stjórnin ekki verið að vinna að því að gæta hagsmuna Íslendinga í því máli. Frá upphafi hefur þessi ríkisstjórn einbeitt sér að því að verja hagsmuni Breta og Hollendinga sem hafa beitt okkur alveg ótrúlegum órétti í málinu. Engu að síður gerir ríkisstjórnin hvað hún getur til að halda málstað þeirra á lofti og kveða niður umræðu um allt annað. Það kann að þykja undarlegt að ríkisstjórn landsins láti með þessum hætti og menn hljóta að hugsa sem svo: Það getur ekki verið að þau telji sig a.m.k. ekki vera að gæta hagsmuna þjóðarinnar. Þau hljóta a.m.k. að halda að þessi undirgefni muni á endanum skila bestu niðurstöðunni fyrir þjóðina.

En það er ekki svo. Hæstv. fjármálaráðherra er búinn að útskýra allt saman sjálfur hvernig í þessu liggur. Þetta snýst allt um það að ríkisstjórnin falli ekki vegna þess að það er mikilvægara en allt annað að þessi sósíalistatilraun fái að halda áfram einhverja mánuði í viðbót. Það er öllu til fórnandi, hagkerfi Íslands næstu áratugina jafnvel, vegna þess að umfram allt verður þessi ríkisstjórn að starfa áfram. Hvað er ráðherrann að segja? Hann er að segja: Það skiptir öllu máli að ég hafi völd. Allt annað er aukaatriði í þessu máli. Þess vegna er ráðherrann tilbúinn til að gefa eftir gagnvart þessari utanaðkomandi ógn, allt til að hann geti áfram haldið völdum í málinu. Það sem ríkisstjórnin leyfir sér að gera til að halda völdum er með stökustu ólíkindum.

Menn hafa tekið upp á því úti um allan bæ að eigin frumkvæði, af hugsjón, að reyna að berjast fyrir málstað Íslands í þessu máli, bent á styrk okkar hvort heldur sem er pólitískan eða lagalegan, bent á efnahagsleg atriði, bent á lögfræðilegar útskýringar sem hefðu átt að vera ríkisstjórninni augljósar frá upphafi. Þetta er ekki þegið með þökkum, það er ekki reynt að nýta þetta framtak, hvað þá að sótt sé aðstoð utanaðkomandi manna, bestu manna. Nei, það er reynt að kveða það í kútinn og beitt til þess alveg ótrúlegri ósvífni. Vinstri grænir eða hluti þeirra gera þetta að miklu leyti úr ræðustól og í viðtölum í fjölmiðlum, koma fram og segja: Við viljum ekki þessa umræðu. Við viljum bara málið í gegn. Samfylkingin notar hins vegar ekki svo opinskáar aðferðir, sérstaklega ekki í málum sem eru óþægileg fyrir Samfylkinguna. Þá er notast við meðul á borð við það að leka einhverri vitleysu í fjölmiðla, reyna að hanna atburðarás eða stýra umræðunni og þar fram eftir götunum. Eða fá einhverja menn, t.d. fræðimenn, til að tala máli sínu. Það hefur reyndar gengið erfiðlega í þessu máli því þeir eru ekki margir, fræðimennirnir sem hafa verið tilbúnir að tala máli ríkisstjórnarinnar. Þess vegna hefur þurft að notast við þá sömu aftur og aftur og aftur og ég held að einn ágætur hagfræðiprófessor — ég held að hann sé prófessor — sé líklega búinn að vera í útvarpsþætti einum sjö sinnum að ræða sama málið fyrir hönd ríkisstjórnarinnar.

Svo er annar kollegi þessa prófessors sem er eins konar bónusráðherra Samfylkingarinnar, viðskiptaráðherrann, sem hefur haldið fram alveg ótrúlegum bókhaldsbrellum sem enginn banki hefði nokkurn tíma leyft sér að notast við, enda auðvelt að sjá í gegnum málflutninginn. Svona hefur þessi ríkisstjórn starfað af ótrúlegri óskammfeilni og með hreinum og klárum áróðri gegn hagsmunum Íslendinga.

Fyrstu drög að nefndaráliti utanríkismálanefndar þar sem ég á sæti, meirihlutaálitinu, voru ótrúlegasta þingskjal sem ég hef séð. Ég held að ekkert þjóðþing í Evrópu hefði sent slíkt frá sér. Þar var kerfisbundið reynt að skaða málstað Íslands í málinu. Það var haldið til haga öllu því sem talið var sterkast í málstað gagnaðilanna. Svo var að einhverju leyti tekið fyrir það sem fulltrúar Íslands eða málsvarar Íslands höfðu haldið fram og reynt að gera sem allra minnst úr því.

Ég ætla ekki að fara mikið út í það hvernig samningaviðræðurnar sjálfar gengu fyrir sig en það er hins vegar alveg ljóst og sætir furðu að menn hafa ekki notast við til að mynda þá erlendu sérfræðinga sem voru búnir að bjóða fram aðstoð sína, bjóða Íslendingum aðstoð sína í þeirri erfiðu og einstöku aðstöðu sem þjóðin var í. Kannski var það of dýrt þó að ég efist um að kostnaðurinn hafi verið meiri en næmi í mesta lagi nokkurra daga vaxtagreiðslum í þessu máli því hagsmunirnir eru svo gífurlega miklir og það skýrir hvers vegna þarf að leggja svona mikla áherslu á að reyna a.m.k. að gera sem best úr þessu.

Mikið hefur verið rætt um stöðu mála innan lögreglunnar í fjölmiðlum að undanförnu. Þar var niðurskurður upp á rúmar 50 millj. kr. minnir mig sem er búinn að setja allt úr skorðum Þetta eru held ég 13 klukkutíma vextir af Icesave-láninu. Þessa vexti ætla menn að borga áfram hvað sem líður fyrirvörum svo framarlega sem forsendur ríkisstjórnarinnar standast og þá reynir náttúrlega á það. En þetta dæmi sýnir hvers vegna menn ættu að leggja á sig allt sem þeir mögulega geta til að reyna að lágmarka tjónið í þessu máli í stað þess að halda stöðugt á lofti málstað andstæðinganna, andstæðinga sem beittu Íslendinga hryðjuverkalögum og settu Ísland og íslensk fyrirtæki á lista með al Kaída og Norður-Kóreu. Ég held reyndar að viðskiptaráðherra ríkisstjórnarinnar hafi gert það sjálfur þannig að það er kannski einhver skilningur þar á framferði Bretanna. En ríkisstjórnin og raunar sú sem var á undan henni hefur ekki haft fyrir því að mótmæla þessari aðferð Bretanna nema hvað hæstv. forsætisráðherra upplýsti rétt áðan að þar sem nýr framkvæmdastjóri NATO hafi átt leið um þá hafi hún nefnt þetta við hann. Það var sem sagt ekki búið að taka upp símann til að ræða málið.

Það er búið að nefna í dag dagsetninguna 7. janúar þegar frestur til að kæra vegna beitingar hryðjuverkalaganna rann út. Sá frestur var ekki nýttur. Og eins og hv. þm. Atli Gíslason benti á þá reyndu mjög margir að leiða þáverandi ríkisstjórn fyrir sjónir hversu mikilvægt væri að nýta tækifærið. Það gekk ekki. Þetta var áður en ég var farinn að skipta mér beint af stjórnmálum. En ég og fleiri komum niður í þing til að reyna að útskýra þetta fyrir þingmönnum seint að kvöldi. Þeir vildu ekki heyra á þetta minnst, allra síst þingmenn Samfylkingarinnar. Þingmenn Framsóknarflokksins — og ég er glaður að geta rifjað það upp hins vegar — höfðu reynt alveg frá því í október að benda á mikilvægi þess að bregðast við þessu ofbeldi sem Íslendingar voru beittir. Strax í október sagði þáverandi formaður flokksins, með leyfi forseta:

„Við framsóknarmenn teljum að Bretana eigi að kæra strax, kæra þá sem samstarfsþjóð á hinu Evrópska efnahagssvæði, kæra þá fyrir ólögmæta og einstaka aðför að lítilli vinaþjóð og fyrir að úthrópa Ísland gjaldþrota. Það gerði forsætisráðherra þeirra. Slík yfirlýsing hafði lamandi áhrif á framsækin íslensk fyrirtæki. Út á þessa yfirlýsingu Browns er verið að stöðva viðskipti Íslendinga um víða veröld fram á þennan dag. — Við Íslendingar töldum okkur starfa samkvæmt löggjöf á forsendum samninga og siðareglna á hinu Evrópska efnahagssvæði. — Við eigum að kæra bresku ríkisstjórnina til Brussel, kæra breska heimsveldið til hæstu skaðabóta.“

Þessum málflutningi var svo haldið á lofti næstu mánuðina en allt án árangurs. Ríkisstjórnin þáverandi og sú sem tók við og sú sem nú starfar vildu ekki verja íslenska hagsmuni, töldu best að láta eins og ekkert væri og nú erum við komin í þá stöðu eins og til að mynda hv. þm. Atli Gíslason rakti áðan að það er orðið miklu erfiðara fyrir okkur að verjast en var. En það þýðir ekki að menn eigi að gefast upp. Menn eiga alltaf að berjast áfram, berjast eins og hæstv. núverandi fjármálaráðherra talaði svo mikið fyrir, alveg fram á þann dag að hann varð ráðherra og allt hans pólitíska líf fór að snúast um það, eins og hann útskýrði sjálfur, að halda völdum. Nei, við eigum að breyta um og sætta okkur ekki við það sem er búið að sýna fram á aftur og aftur og aftur undanfarnar vikur að þeir samningar sem liggja fyrir Alþingi eru í raun ekki tækir. Þeir eru ekki í samræmi við það umboð sem þingið veitti í nóvember sl., taka ekki mið af þessum margumræddu Brussel-viðmiðum og þeir eru ekki í samræmi við það sem eðlilegt má teljast í samskiptum ríkja.

Erlendir lagaprófessorar hafa tjáð sig um þetta, m.a. forstöðumaður alþjóðalögfræðistofnunar við Cambridge-háskóla, sem lýsti þeim samningi sem hér var reynt að fá Alþingi til að samþykkja sem nýjum Versalasamningum en þó verri að því leyti að kostnaðurinn væri hlutfallslega meiri og þjóðir heims hefðu lært ýmislegt síðan þá. Þar af leiðandi væri þeim mun verra að reyna að þröngva slíkum samningi upp á nokkra þjóð. Þessu er verið að þröngva upp á okkur núna en sem betur fer með hinum ýmsu breytingartillögum sem breyta fullkomlega eðli málsins. En betur má ef duga skal og ég mun reyna að útskýra hvaða gallar eru enn á meðferð málsins, hvers vegna er ekki hægt að sætta sig við þessar breytingartillögur, hvers vegna þær nægja ekki.

Í fyrsta lagi er það einfaldlega svo að breytingartillögurnar eru algerlega úr samræmi við efni samningsins. Þegar ráðherrar í ríkisstjórninni halda því fram að þetta sé innan ramma samningsins þá staðfestir það eina ferðina enn það sem hefur komið svo oft í ljós í öllu þessu ferli að ráðherrarnir hafa ekki lesið samningana, enda voru ráðherrarnir tilbúnir til að skrifa undir þá áður en þeir höfðu séð þá. Ráðherrar í þessari ríkisstjórn og raunar margir þingmenn stjórnarmeirihlutans voru tilbúnir til að samþykkja Icesave-samningana án þess að hafa séð þá. Og það var eins gott að það gekk ekki eftir því að þingið átti ekki að fá að sjá samningana. Þingið átti ekki að fá að sjá Icesave-samningana og það er kannski góð ástæða fyrir því. Hvaða þing með réttu ráði mundi samþykkja þessa samninga? Þessu gerðu Bretar og Hollendingar sér eflaust grein fyrir þegar þeir mótmæltu því að samningarnir yrðu birtir opinberlega eða þingmenn fengju að sjá þá. Að vísu barst tilboð eða ýjað var að því tilboði að þingmenn gætu fengið að sjá samningana í lokuðu leyniherbergi, leyniklefa eins og er í fjármálaráðuneytinu þar sem geymdar eru skýrslur. Þingmenn áttu að fá að fara inn í þetta herbergi og skoða samningana þar, samninga sem eru á svo flóknu ensku lagamáli að það tók færa lögmenn marga daga að plægja í gegnum þá. Þar máttu þingmenn fletta í gegnum samningana og svo áttu þeir að fara niður á þing og ýta á græna takkann. Svona hefur verið haldið á þessu máli.

Ríkisstjórnin reyndi ekki að fá þessu breytt fyrr en samningunum var flett í beinni útsendingu í sjónvarpinu. Það var ekki fyrr en einhver tók sig til og lak a.m.k. öðrum samningnum, þeim hollenska, í fréttirnar að stjórnarflokkarnir sögðu sem svo: Jæja, það er þá ekkert annað að gera en að birta þetta. Þá er þetta birt með skýringum sem hafa ekki staðist. Það hefur ekkert staðist af því sem sagt var um þessa samninga í upphafi, ekkert einasta atriði. Aftur og aftur og aftur eru menn að koma á framfæri ábendingum um að málflutningur ríkisstjórnarinnar sé rangur. Hvað gerist þá? Nei, það er bara bætt í eða reynt að færa umræðuna eitthvert annað. Ef sýnt er fram á að lagalega standist samningarnir ekki er farið yfir í efnahagsmálin, og ef sýnt er fram á að efnahagslega stöndum við ekki undir þessu er reynt að fara aftur yfir í lagamálin. Svo hrekjast menn úr einu horninu í annað en núna sitja menn uppi með það að ekkert af því sem sagt var í upphafi hefur staðist. Samt er enn þá ætlast til þess að þingið samþykki og staðfesti þessa samninga.

Það hefur hvað eftir annað gerst að ég hef séð nýjar upplýsingar á undanförnum þremur mánuðum og hugsað með mér: Jæja, nú þegar þetta er komið fram geta þau ekki reynt lengur, það hljóta allir að sjá að það þýðir ekki að reyna að sannfæra þingið um að fallast á þessa samninga. En nei, blindnin er slík að haldið er áfram og heilu þingflokkarnir, alla vega einn heill þingflokkur lætur teyma sig áfram, að því er virðist gagnrýnislaust. Hæstv. fjármálaráðherra sagði í ræðu hérna áðan að það væri einfaldlega enginn bakkgír. Það er alveg rétt. Hann er eins og dráttarhestur sem veit ekki hvert hann er að fara eða hvað hann er að draga en hann heldur bara áfram, heldur áfram að draga þann farm sem hann veit ekki hver er eða hvert á að leiða. Hann hefur engan bakkgír og er kominn í öngstræti og er þess vegna í vonlausri stöðu. Hann getur í raun ekki bakkað með það sem hann er búinn að segja þrátt fyrir að búið sé að sýna það svart á hvítu að það hafi meira og minna allt verið rangt. Nú heldur hann því m.a.s. fram að aldrei hafi annað verið í kortunum en þessi niðurstaða þrátt fyrir að fyrir liggi fjölmargar greinar, viðtöl og ræður þar sem sami maður heldur fram þveröfugu sjónarmiði.

En svona er þessi staða orðin og ekki um annað að ræða fyrir þingið en að reyna að vinna sem best úr henni. Eins og ég nefndi áðan hefði þetta getað farið svo miklu, miklu verr og var á góðri leið með það ef ekki hefði verið fyrir baráttu almennings, fólks í samfélaginu sem ætlaði ekki að láta bjóða sér þetta, hinna ýmsu þingmanna og er þá sérstaklega rétt að nefna hluta þingmanna stjórnarmeirihlutans sem sýndu ótrúlegt hugrekki og baráttu og þrek í því að berjast fyrir málstað Íslendinga í þessu máli. Ég veit að það hefur verið erfitt fyrir þessa þingmenn eins og meiri hluti ríkisstjórnarinnar hefur beitt sér í málinu. En þeir létu ekki bugast og breyttu þannig sögunni til hins betra og það ber að þakka þó að ekki hafi enn náðst fram allar þær lagfæringar á þessum samningum sem nauðsynlegar eru. Raunar er ekki hægt að laga þessa samninga, svo gallaðir og svo eitraðir eru þeir. Það má líkja þessu við að kokkaður hefði verið upp réttur fyrir þingið og svo hefðu leynst á disknum hár og glerbrot og hvers konar rusl og maturinn verið rotinn og þessu skilað í eldhúsið en þá kemur þetta aftur, búið að tína úr nokkru hár og nokkru glerbrot og krydda vel og setja sósu yfir. Maturinn er samt ekki ætur, hann er eitraður. Þessi samningur er eitraður, í honum eru svo fjölmörg ákvæði sem munu koma Íslendingum í koll fari þetta í gegn. Það er í raun ekki hægt að sætta sig við að samningurinn fari í gegn nema fyrst séu uppfyllt ákveðin skilyrði, að fyrst gerist eitthvað og þá öðlist samningurinn gildi.

Ef við byrjum á því að staðfesta samninginn og vonumst síðan til þess að í framhaldinu verði tekið tillit til fyrirvara Alþingis verðum við að vona að breskir dómstólar sjái það á sama hátt og við. Því vel að merkja, það er margtekið fram í samningnum að um hann gildi ensk lög og ágreiningur um hann skuli fara fyrir enska dómstóla. Hvaða gildi hafa íslensk lög eða íslenska stjórnarskráin fyrir enskum dómstólum? Eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir fór vel yfir hérna áðan gildir þar bara það sem stendur í samningnum. Ef Íslendingar ætla þá að segja: Ja, við vorum með ýmsa fyrirvara við þetta, er þá hætta á því að menn verði krafðir skaðabóta? Já, það er hætta á því, það er beinlínis tekið fram í samningnum að ef eitthvað slíkt gerist, ef menn breyti lögunum og það skerði endurgreiðslur sé hægt að krefja um skaðabætur. Þetta er því eitthvað sem við verðum að taka til gagngerrar skoðunar og ræða í nefndinni fyrir lokaumræðuna og fá þá til þess hæfustu menn til þess að leggja mat á þetta með okkur. Vinnubrögðin sem hafa verið höfð í þessu máli eru náttúrlega fyrir neðan allar hellur.

Hér er um miðja nótt, þegar allir eru orðnir þreyttir og úrillir, verið að hlaupa á milli herbergja úti á nefndasviði, að reyna að klastra saman einhverjum samningi sem enginn veit raunverulega hvers eðlis er eða hvort heldur. Svo daginn eftir koma þreyttir ráðherrar og halda því fram að þetta sé nú allt innan ramma samningsins og fulltrúar stjórnarandstöðu koma og segja að þetta felli samninginn. Það segir allt sem segja þarf um hversu ljósir þessir fyrirvarar eru. Þessi óvissa ein ætti að sannfæra okkur um mikilvægi þess að leita ráða, leita til færustu manna í heimi því að aðstoð þeirra stendur til boða. Nóbelsverðlaunahafar í hagfræði hafa boðið Íslendingum aðstoð sína enda er staða landsins alveg einstök.

Lee Buchheit, einn þekktasti samningamaður í heimi, kom á síðustu stundu og þá var því haldið fram að hann kæmi allt of seint, þangað til það var upplýst að hann bauð raunar fram aðstoð strax í nóvember og var búinn að vera í startholunum með að aðstoða okkur síðan þá. Það var ekki þegið, það var ekki þegið vegna þess að stjórnvöld óttuðust að þá kynni eitthvað að koma fram sem styrkti samningsstöðu okkar og drægi þetta mál á langinn.

Þannig hefur þetta mál allt saman verið rekið, jafnvel í pólitískum samskiptum við erlend ríki. Hvernig ætli samræður milli íslenskra ráðherra og til að mynda Carls Bildts, vinar okkar í Evrópusambandinu, fari fram? Ætli íslensku ráðherrarnir segi: Þetta er nú ekki hægt með ykkur Svíana, að þið skulið ekki vera búnir að segja það hreint út að lánin frá Norðurlöndunum hafi ekkert með að gera hvernig Alþingi Íslendinga greiði atkvæði um Icesave? Eða er hætta á því að íslensku ráðherrarnir hafi sagt: Carl Bildt, við erum í svo miklum vandræðum heima fyrir, það þarf að gera þjóðinni betur grein fyrir því að þið ætlið ekkert að láta okkur fá pening nema við samþykkjum Icesave-samningana?

Á þessum nótum hafa því miður samskiptin verið. Nú síðast kom Kristin Halvorsen, fjármálaráðherra sósíalista í Noregi, mikil vinkona hæstv. fjármálaráðherra okkar Íslendinga, á versta hugsanlega tíma og upplýsti að það væri skoðun hennar að Íslendingar þyrftu að súpa seyðið af þeirri kapítalísku tilraun sem hér var gerð. Þar af leiðandi ætti að refsa þeim með því að þeir fengju ekki lán fyrr en þeir væru búnir að taka á sig Icesave-skuldbindingarnar. Svo lenti hún reyndar í þversögn við sjálfa sig með því að hún sagðist vilja tryggja að lánið færi ekki í að greiða skuldir einkafyrirtækja, svoleiðis að röksemdafærslan gekk ekki upp en hún varð kannski að einhverju gagni fyrir ríkisstjórnina og ráðherrann sem vilja helst ekki heyra neinar góðar fréttir af málstað Íslendinga að utan.

Aðstæðurnar eru svo sannarlega fyrir hendi, eins og við höfum séð síðustu daga, til þess að verja málstað Íslands. En það hafa ekki verið Íslendingar sem hafa staðið í því. Það eru útlendingar sem hafa kynnt sér stöðuna hér, m.a.s. blaðamenn á erlendum dagblöðum, ekki hvað síst breskum dagblöðum, sem hafa haft fyrir því að kanna hver raunveruleg staða mála væri og áttað sig þá á því að kannski væri verið að koma fram við Íslendinga af ósanngirni og óbilgirni og þeir hafa skrifað um það. Íslensku ráðherrarnir höfðu ekkert reynt að vekja máls á að þessi væri raunin. Ögmundur Jónasson fór reyndar fyrir nokkrum dögum í viðtal í norsku blaði og það setti strax af stað heilmikla atburðarás þar í landi. Stjórnmálamenn, ekki hvað síst í miðjuflokknum norska, lýstu því yfir að Íslendingar ættu að sjálfsögðu að fá alla þá aðstoð sem þeir þyrftu á að halda hvað sem liði þessum Icesave-samningum. Það var ekki fyrr en vinkona hæstv. fjármálaráðherrans okkar kom og sagði að það væri skoðun sín að Íslendingar ættu ekki að fá lán fyrr en að Icesave loknu að sú umræða dó að miklu leyti út.

Þegar menn láta í sér heyra hefur það áhrif. Íslenskir ráðherrar hafa ekki látið í sér heyra heldur þvert á móti reynt að andmæla þeim sem hafa haldið fram málstað Íslands, sem er óskiljanlegt í þessu gífurlega hagsmunamáli þar sem við erum nú þegar eða munum, ef samningarnir verða staðfestir, borga 100 millj. kr. á dag í vexti. Og vextina eigum við að greiða sama hvað á dynur nema hagvöxtur leyfi það ekki og fyrirvararnir haldi.

Hvað með fyrirvarana, hvað með þessa efnahagslegu fyrirvara? Þeir eru á margan hátt snjallir, til að mynda það að tengja greiðslurnar við vöxt landsframleiðslu fremur en landsframleiðsluna sjálfa og mæla landsframleiðsluna í erlendri mynt, sem er mikið grundvallaratriði og því ber að fagna. Ég hef engu að síður töluverðar áhyggjur af því að þrátt fyrir allt sé þetta, eins og margoft hefur verið reynt að benda á, lán í erlendri mynt og það getur verið vandkvæðum bundið fyrir ríkið, jafnvel þótt hagvöxtur sé mikill, að verða sér úti um nægan gjaldeyri. Við gætum t.d. séð fyrir okkur að innlend framleiðsla ykist til muna vegna stöðu gengisins og að hagvöxtur yrði töluverður en ríkið ætti í eilífum vandræðum með að verða sér úti um gjaldeyri.

Bent hefur verið á það að í mati Seðlabankans var gert ráð fyrir því að Íslendingar gætu greitt Icesave-skuldirnar til baka ef afgangur af gjaldeyristekjum yrði ár eftir ár eftir ár fjórfaldur sá afgangur sem hann hefur mestur verið á einu ári í sögu landsins. Þessi metafgangur átti að vera fjórfaldur ár eftir ár eftir ár við þær aðstæður þegar mjög erfitt er að verða sér úti um gjaldeyri.

Hvernig á ríkið síðan að ná þessum gjaldeyri öllum til sín? Sveitarfélög eru skuldsett í erlendri mynt, heimili eru jafnvel með erlend lán og náttúrlega hin ýmsu íslensku fyrirtæki, ekki hvað síst útflutningsatvinnugreinar, eru mjög skuldsettar í erlendri mynt, svoleiðis að það er enginn afgangur, afgangurinn er ekki til staðar. Þetta hlýtur að vera mesta áhyggjuefnið og það er áhyggjuefni vegna þess að við höfum séð afleiðingarnar af of mikilli skuldsetningu í erlendri mynt. Ég held að Japanar skuldi 170% af landsframleiðslu sinni en þær skuldir eru að miklu leyti innan lands og í japönskum jenum. Á sama tíma eru mörg ríki sem skulda kannski bara 20–25% af landsframleiðslu en það í erlendri mynt og þessi ríki eru í skuldafangelsi.

Af því að ráðherrar í ríkisstjórninni eru nú farnir að líkja Íslandi við kommúnistaríki er kannski rétt að hafa þann samanburð sem nákvæmastan. Ísland er farið að líkjast einna mest Austur-Þýskalandi gamla og ekki hvað síst eru menn alltaf að færa sig nær og nær þeirri aðferðafræði sem þar hafði verið þróuð í gjaldeyrismálum. Austur-Þjóðverjar áttu einmitt við þetta vandamál að stríða. Þeir voru alltaf með prýðilegan hagvöxt enda framleiddu þeir mjög mikið af vörum og voru reyndar með ágætisútflutning líka. Íslendingar muna margir eftir Trabantbifreiðunum og fleiri vörum sem fluttar voru inn frá Austur-Þýskalandi. En þeir skulduðu svo mikið í erlendri mynt að þeir voru í stöðugri nauðvörn hvað það varðaði. Nú hafa verið færð fyrir því ágætisrök að það hafi átt stóran þátt í falli Austur-Þýskalands, sem svo leiddi af sér hrun járntjaldsins, að skýrsla sem þar var skilað árið 1989 sýndi fram á að ríkið væri að komast í þrot, meðal annars með gjaldeyri, þeir gætu ekki orðið sér úti um mynt til þess að standa skil lána sinna.

Þegar menn eru komnir í þá aðstöðu að hafa svona lítið aflögu vegna þess að allar gjaldeyristekjur fara meira og minna í nauðsynlegan innflutning eða þá að borga af lánum má ekkert út af bera. Í Austur-Þýskalandi gerðist það t.d. 1976 þegar varð uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu og kaffiverð hækkaði allt í einu í heiminum að það leiddi til þriggja ára efnahagskrísu í Austur-Þýskalandi. Af því að kaffiverð hækkaði. Viljum við að Ísland verði í þeirri stöðu í 20 ár að ekkert megi út af bera, það megi ekki verða verulegar hækkanir á heimsmarkaðsverði á olíu eða einhverju öðru og þá sé komið hér krísuástand? Nei, það er ógn við sjálfstæði landsins að vera of skuldbundinn í erlendri mynt og ríki sem skuldbinda sig í erlendri mynt, ólíkt því sem ríkisstjórnin heldur fram, verða ekki hluti af alþjóðasamfélaginu, þau einangrast. Það er ekki það að taka á sig meiri og meiri skuldir sem gerir menn vinsæla í alþjóðasamfélaginu, það er of mikil skuldsetning sem leiðir til einangrunar m.a. vegna þess að gjaldmiðillinn helst varanlega veikur. Þjóðirnar geta þar af leiðandi ekki keppt um starfsfólk, missa það fólk sem hefur mesta menntun og getur leitað sér að vinnu annars staðar til útlanda, geta ekki keppt um erlenda fjárfestingu og dragast smátt og smátt aftur úr, geta til að mynda ekki tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi. Mér skilst að það standi nú þegar til að skera verulega niður alþjóðlegt samstarf þingsins og ríkisstofnana á sama tíma og stöðugt er verið að hamra þá því að við verðum að vera fullgildir meðlimir í alþjóðasamfélaginu.

Við þurfum líka að gera okkur grein fyrir því að sá málflutningur sem hér hefur verið haldið á lofti um það að ef við dirfumst að andmæla þessum Icesave-samningum sem nú liggja fyrir eigum við á hættu að verða beitt einhvers konar efnahagslegri árás, að þessi lönd, Bretar og Hollendingar og fleiri, muni einbeita sér að því eyðileggja íslenskt efnahagslíf í hefndarskyni, stenst auðvitað enga skoðun. Það eru þessi ríki sem umfram alla aðra hafa hagsmuni af því að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum svo framarlega sem þau eru ekki komin með þau veð sem áttu að felast í upprunalegu Icesave-samningunum, vegna þess að þau hafa svo gífurlega hagsmuni af því að íslenskt efnahagslíf rétti úr kútnum og við getum farið að greiða til baka einhverjar af þeim kröfum sem þau eiga hér í þrotabú. Sá málflutningur að Bretar og Hollendingar mundu sjá sér einhvern hag í því að vega að okkur ef við bara vildum ræða málin og fá sanngjarnan samning stenst enga skoðun frekar en svo margt annað í þessu máli öllu enda hefur þessi ríkisstjórn ekki einu sinni haft fyrir því, eins og ég nefndi, að leita sér ráðgjafar.

Þess í stað — og þetta er kannski stóra kaldhæðnin í málinu — er ríkisstjórnin að endurtaka mistök bankanna, endurtaka mistökin sem urðu til þess að ástandið varð eins og það er núna. Það er nánast eins og með einhverjum yfirnáttúrulegum hætti hafi ráðherrar ríkisstjórnarinnar verið settir í þá stöðu að taka ákvörðun um sömu hluti og framkvæmdastjórar bankanna, bankastjórarnir þurftu að taka ákvarðanir um á árunum 2006 og 2007. Niðurstaðan liggur fyrir: Ráðherrarnir, með hæstv. viðskiptaráðherra, fjármálaráðherra og forsætisráðherra í broddi fylkingar, svo ekki sé minnst á hæstv. félagsmálaráðherra, vilja fara nákvæmlega sömu leið og bankarnir nema bara bæta í og leggja meira undir. Þeir sjá fyrir sér að við verðum bara einhvern veginn að verða okkur úti um aukið lánsfé, vegna þess að ef við fáum meira lánsfé getum við haldið gjaldmiðlinum uppi og ef við fáum meira lánsfé náum við að þreyja þorrann þangað til eignaverð hækkar vonandi og heimsmarkaðurinn réttir úr kútnum og við finnum einhverja leið með nýrri verðmætasköpun að greiða þetta til baka. Þetta voru nákvæmlega rök bankanna sem bentu alltaf á það að veltan væri að aukast svo mikið og með aukinni veltu væri hin mikla skuldsetning og viðbótarskuldsetning ekki áhyggjuefni. Þeir ráðherrar sem hafa talað fyrir Icesave-samningunum, óbreyttum Icesave-samningum, geta því ekki leyft sér að gagnrýna stjórnendur bankanna því að þeir eru að gera nákvæmlega sömu hluti og þeir útrásarvíkingar sem fóru fram með hvað óvarfærnustum hætti.

Þetta gera þeir vegna þess að þeir telja að með því fái þeir sjö ára skjól og að sjö árum liðnum verði þeir væntanlega komnir í önnur störf en geti haldið völdum í millitíðinni. Hins vegar er það svo að þó að ríkisstjórnin geri sér ekki grein fyrir því að á þessu sjö ára tímabili myndast ekkert skjól gera erlend ríki og erlend fyrirtæki sér fyllilega grein fyrir því að þessar skuldir munu hanga yfir landinu. Þar af leiðandi getur reynst miklu erfiðara en ella að fá hér fjárfesta eða lánveitingar því að menn taka að sjálfsögðu með í reikninginn þær skuldir sem eftir á að greiða þó að fyrirvararnir muni vonandi draga verulega úr þessari áhættu og þeirri áhættu að skuldirnar verði óbærilegar. Það var því til mikils að vinna að ná inn þessum fyrirvörum og það er mikið fagnaðarefni að þeir skuli vera komnir hér fram þó að eins og ég segi að eina vitið í stöðunni væri að sjálfsögðu það að leggja samningana til hliðar og gera Bretum og Hollendingum einfaldlega grein fyrir því að þeir séu ekki í samræmi við það sem umboð var veitt.

Við gerum sem best úr þessu. Nú fer þetta mál aftur til nefndar vonandi og þá gefst tækifæri til að gera á því endurbætur þó að þær endurbætur muni aldrei verða fullnægjandi á meðan þær fela það í sér að samningurinn taki gildi áður en þeir hlutir sem við viljum tryggja ná fram að ganga. Við framsóknarmenn munum reyna að vinna áfram að því að bæta hér úr. Þetta er búin að vera löng og ströng barátta og um tíma stóð hún mjög tæpt en sá árangur sem hefur náðst er góð hvatning til að menn þá haldi áfram og reyni að ná fram aðeins meiri leiðréttingu á þeim óskapnaði sem þessir samningar eru. Ef við gerum það ekki og ef okkur mistekst í þessu og ef okkur sést yfir einhver grundvallaratriði er það eitthvað sem við munum ekki bara sjá eftir út þetta ár, við munum sjá eftir því næstu árin og áratugina og íslenskt samfélag verður aldrei samt aftur.

Þess vegna skora ég nú á alla þingmenn, hvar sem þeir eru í flokki, að reyna áfram að leita að göllunum á þessum samningum og bæta þá — og helst að viðurkenna það sem er orðin augljós staðreynd, að samningarnir eru í raun ekki tækir fyrir Alþingi Íslendinga.