137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr):

Frú forseti. Mig langar til að byrja á að þakka hópi fyrir sem hefur lagt á sig ómetanlega sjálfboðavinnu til að aðstoða þingmenn og landsmenn alla í þessu viðamikla máli. Sá hópur er þverpólitískur og heitir einfaldlega Indefence. Ég verð að segja, guði sé lof fyrir vinnuna þeirra.

Sem betur fer hefur mikið vatn runnið til sjávar síðan Icesave var tekið úr utanríkismálanefnd. Margt sem ég gagnrýndi meiri hlutann fyrir í þeirri ágætu nefnd hefur verið tekið tillit til í áliti og vinnu fjárlaganefndar. Því má fullyrða að tíminn hafi með sanni unnið með okkur sem guldum varhuga við þessum vægast sagt gallaða samningi sem á borð var borinn fyrir þjóðþingið.

Í nefndaráliti mínu varðandi Icesave gagnrýndi ég harðlega vinnubrögðin í nefndinni er lúta að Icesave-samkomulaginu. Mér fannst það skrumskæling á lýðræðinu að taka ekki tillit til og hunsa gagnrýni fjölmargra sérfróðra gesta nefndarinnar varðandi málið, sem og annarra sem hafa tjáð sig um það. Þessi vinnubrögð kasta rýrð á fagmennsku þeirra sem eru á öndverðum meiði við þá sem mæra samninginn og segja hann með öllu hættulausan.

Borgarahreyfingin gagnrýndi að ekki hefði fengist leyfi til að kalla til fleiri gesti er varða málið en daglega koma fram nýjar upplýsingar sem gætu gefið nefndinni heildstæðari mynd á áhrifum þess að samþykkja samninginn í óbreyttri mynd. Það er þinginu til sóma að hafa gefið Icesave-málinu nauðsynlegan tíma þó ekki væri til annars en að hrekja þau varnaðarorð sem um samninginn hafa fallið. Því miður hafa þau ekki verið hrakin. En það átti með sanni að keyra málið í gegn sama hversu alvarleg gagnrýnin var og sama hversu alvarleg gagnrýnin er í dag.

Utanríkismálanefnd hunsaði nánast með öllu í áliti sínu um Icesave þá gagnrýni fjölmargra gesta nefndarinnar um að í samningnum séu stórhættuleg ákvæði og gallar, sér í lagi þeim breska, sem óvefengjanlega geta kostað þjóðina himinháar upphæðir ef ekki eru tekin af öll tvímæli um þessa gagnrýni. Utanríkismálanefnd hefur ekki tekist það og ef eitthvað er hafa stöðugt fleiri bæst við sem gagnrýna þessa áhættuþætti samningsins. Þessi vinnubrögð utanríkismálanefndar voru og eru algjörlega óviðunandi því að samningurinn um Icesave-skuldbindingarnar er eitt stærsta mál er Alþingi hefur fjallað um. Nefndin fékk ekki nema örfáar vikur til að fjalla um Icesave. Því er enn ekki ljóst hvort við getum yfir höfuð staðið við þessar skuldbindingar.

Það er mat Borgarahreyfingarinnar að það auki ekki á trúverðugleika okkar erlendis að gangast við skuld sem vitað er að þjóðin getur ekki greitt. Það er næsta víst að reyna muni á þau ákvæði samningsins sem hlotið hafa hvað mesta gagnrýni, sem eru þá væntanlega gjaldfellingarákvæðin. Ljóst er að þau tengsl sem reynt var að benda á varðandi Icesave og ESB eru til staðar og styður álit meiri hlutans þá gagnrýni okkar. Hræðsluáróðurinn í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar er slíkur að ætla mætti að við værum betur sett undir Danakonungi með ormamjöl og einokun. En það er alveg furðulegt þegar því er haldið fram að með því að fella samninginn í þeirri ómögulegu mynd sem hann er nú séum við að segja umheiminum að við ætlum ekki að axla ábyrgð á þessu máli. Það að koma með tillögur til úrbóta er ekki beinlínis merki um að vilja ekki axla ábyrgð. Það sem mér finnst langmikilvægast við allt þetta mál er að tekið verði tillit til þess og sett með skýrum hætti fram að þeir sem efndu til þessara skulda eigi á endanum að borga þetta skuldabréf en ekki almenningur í landinu. Sem betur fer hefur tekist að fá þetta stefnumál Borgarahreyfingarinnar inn í frumvarpið í efnahagslegu fyrirvörunum og finnst mér það persónulega eitt af því mikilvægasta sem hreyfingin sem slík hefur fengið áorkað hér á þingi. Ég verð að viðurkenna að því meira sem ég skoða Icesave-málið, þeim mun meira óbragð fæ ég í munninn. Því nær sem ég kemst að niðurstöðu, þeim mun meiri óhug fyllist ég og beyg. Það er ónotatilfinning innra með mér að á meðan margir samborgarar mínir þjást út af óábyrgri og sérplæginni stjórnsýslu að fjalla um mál sem frá fyrsta degi bar með sér svo margar ambögur að skynsamlegast hefði verið að byrja upp á nýtt.

Icesave-málið er vandamál íslenskrar stjórnsýslu í hnotskurn. Í stað þess að byrja upp á nýtt er stöðugt reynt að stoppa í götin sem oft eru orðin stærri en málið sjálft. Þetta minnir mig óendanlega mikið á sögurnar um Bakkabræður, hinar fyrri.

Eðlilegast hefði verið að viðurkenna strax mistökin við samningagerðina í stað þess að halda okkur í Icesave-gíslingu á þinginu í allt sumar. Dýrmætum tíma endurreisnar hefur verið sóað í að karpa um eitthvað sem öllum var ljóst, að þessi samningur væri óheillaplagg sem bæri að farga. Ég skil ekki hvað hæstv. fjármálaráðherra gengur til að halda því fram í upphafi máls síns að smávægilegar breytingartillögur á samningnum þýddu að hann væri fallinn og að byrja þyrfti upp á nýtt með allt ferlið og þá værum við komin á svo skelfilegan stað sem þjóð að sjálf móðuharðindin bliknuðu í samanburði. Núna talar hæstv. utanríkisráðherra um skapandi hugsun til að koma hinum sveru og voldugu fyrirvörum inn í samninginn sem var í upphafi svo viðkvæmur að það mátti ekki einu sinni sýna þingmönnum hann. Það þurfti að leka samningnum út í fjölmiðla til að við sem áttum að samþykkja eina stærstu ríkisábyrgð í sögu Íslands fengjum loks að sjá hann.

Icesave-málið er þrungið óheilindum og leynimakki sem ég satt best að segja var að vonast til að mundi heyra til fortíðarinnar. Sagan í kringum Icesave/Iceslave-samninginn er nánast eins og söguþráður í lélegum reyfara. Ég ætla ekki að leggja það á fólk að rekja þá sögu, enda hefur hún verið rakin úr þessum stóli í allan dag. En það eru nokkur atriði sem mér finnst þó mikilvægt að minnast á. Það væri mjög jákvætt ef efnahagslegu fyrirvararnir mundu hafa, eins og Michael Hudson hefur nefnt, fordæmisgildi fyrir þjóðir sem þurfa að semja um miklar skuldir út frá greiðslugetu. Ef það yrði að veruleika höfum við lagt meira en margur í að skapa þjóðum sem búa undir þolmörkum fátæktar bjartari framtíð. Ég vona með sanni að sú verði okkar arfleifð fremur en heimurinn muni aðeins þekkja okkur sem sjálfhverfa „game over“ þjóð sem missti stjórn á fjárhagslegu siðferði og samfélagslegu aðhaldi.

Ég ætla að minnast á nokkur stikkorð til að rifja upp söguna um Icesave: Nýr Versalasamningur, hryðjuverkalög, al Kaída, Simbabve, Landsbankinn, Norður-Kórea, Kúba norðursins, leyniskjöl í leyniherbergi, Icesave/Iceslave, Brussel-viðmiðun, Indefence, þverpólitísk samstaða, Ögmundarskilyrði, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Parísarklúbbs-viðmiðun, ESB-aðildarviðræður stranda á Icesave, AGS strandar á Icesave, Norðurlandalánin stranda á Icesave, kúgun nýlenduherraþjóða, nauðasamningar, tíminn, leyndin, bankaleyndin, fyrirvarar, mótmæli, óvissa, ótti, knésett, alvörufyrirvarar eða framtíðarsöngur landsins verður „Iceslave for Icesave“.