137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:53]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Þegar hv. þingmaður fór yfir þetta rifjaðist ýmislegt upp fyrir mér. Þetta er svo fljótt að líða og maður er, eins og kannski flestir Íslendingar, ekki bara þingmenn, í miðri atburðarás og það fennir svo fljótt yfir það sem á undan er gengið.

Ég hjó aðeins eftir því að hún vitnaði til þess þegar hæstv. fjármálaráðherra kom hingað og lagði upp með það að ef yrðu einhverjar smávægilegar breytingar yrði hér allt saman í uppnámi. Sömuleiðis rifjaði hv. þingmaður upp hvernig það er í raun — ég skil ekki af hverju menn eru að reyna að halda öðru fram núna, það átti ekki að sýna þingmönnum samninginn, ég var á nefndarfundi þegar ég bað um að fá að sjá samninginn og ég man alveg eftir hver svörin voru.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann sem er á sínu fyrsta þingi hvernig vinnubrögð í þessu máli á sumarþinginu koma hv. þingmanni fyrir sjónir.