137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[16:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Hún nefndi hvað gerðist ef lánin yrðu gjaldfelld og þá með vísun í grein í ákvæðum sem hugsanlega mætti nota. Þá vil ég benda á að á bls. 3 um breytingartillögurnar, sem meiri hluti þingsins og góður hluti þingsins hefur samþykkt, stendur í 3. mgr., með leyfi forseta:

„Ríkisábyrgð samkvæmt lögum þessum er miðuð við hámark á greiðslum úr ríkissjóði. Þetta hámark miðast á árabilinu 2017–2023 við 4% af vexti …“ Svo stendur síðar að vöxtur vergrar landsframleiðslu skuli mældur til árabilsins 2016–2024. Ef þetta yrði gjaldfellt áður yrði engin ríkisábyrgð á því. Það er mjög einfalt. Það er bara á þessu árabili sem ríkisábyrgð er og eftir það er engin ríkisábyrgð og áður er heldur engin ríkisábyrgð.