137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:29]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst þetta aðeins á gráu svæði með túlkun á því hvort þessir efnahagslegu fyrirvarar taki nákvæmlega á þessum gjaldfellingarákvæðum því að þau eru nokkuð mörg og nokkuð skýr. Það kemur fram hvað gerist ef það verður gjaldfellt og þar á meðal t.d. ef allt lánið verður gjaldfellt. Það er hins vegar hægt að gjaldfella að hluta til eða að öllu leyti.

Yfir í annað. Í grein 3 um gildistöku samningsins stendur, með leyfi forseta:

„Samningur þessi öðlast gildi þegar:“

Svo kemur fram í b-lið:

„Alþingi hefur samþykkt að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð …“

Lítur hv. þingmaður svo á að þessi samningur sé gildur í dag? Sumir hafa talað eins og það sé búið að skrifa undir og þetta sé eingöngu ríkisábyrgðin sem við erum að fjalla um. Er það réttur skilningur hjá mér að samningurinn taki ekki gildi fyrr en (Forseti hringir.) við höfum afgreitt þessa ríkisábyrgð?