137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:33]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég get staðfest að skilaboðin til okkar í efnahags- og skattanefnd og viðskiptanefnd á sama fundi voru þau að óþarft væri að við sæjum þennan samning en aftur á móti væri eðlilegt að gerður yrði einhvers konar útdráttur úr samningnum og hann kynntur fyrir okkur og það yrði þá gert af óvilhöllum aðila.

Það merkilega við þetta mál er að næstum því hverju einasta skjali hefur verið haldið þétt upp að brjóstinu þangað til við höfum náð að hrifsa það úr höndunum á valdhöfunum til að vinna þær upplýsingar sem við þurfum til þess að geta tekið upplýsta ákvörðun. Ríkisstjórnin hefur hrakist frá því að hafa kokhraustan hæstv. fjármálaráðherra sem lýsti því yfir að við yrðum að skrifa undir þetta, hér væri alveg meiri hluti fyrir því og annað slíkt, yfir í það að þurfa að bugta sig og beygja fyrir meiri hluta þingmanna (Forseti hringir.) til að setja inn fyrirvara til að afstýra þeirri ósvinnu sem hann hafði staðið að.