137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:37]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka gamla háskólakennaranum fyrir fróðlegt erindi sem gaman var að hlusta á. Áhugavert væri þó að heyra hann útlista aðeins nánar hvernig hann sér fyrir sér eða hvort hv. þingmaður hefur ekki áhyggjur af því hvað gerist ef hér verður töluverður hagvöxtur en lítill sem enginn afgangur af útflutningstekjum, því að það kæmi ekki á óvart að sú yrði raunin, þannig hefur það yfirleitt verið.

Hitt sem ég hefði áhuga á að spyrja út í er viðhorf til áhrifa hinna ýmsu atburða á eignasöfn banka. Nú hefur þetta verið töluvert til umræðu eftir að bankar víða um heim lentu í vandræðum. Hefur það ekki gífurleg áhrif þegar sett eru hryðjuverkalög á banka og hann settur á lista með hryðjuverkasamtökum? Getur þar ekki munað hundruðum milljarða — í tilviki Landsbankans — og ættu þá ekki Bretar að vera skaðabótaskyldir af þeirri sök?