137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:41]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni fyrir ágæta ræðu og alveg sérstaklega þar sem hann fór yfir ferlið við stofnun útibúa á Evrópska efnahagssvæðinu, sem var mjög áhugavert. Það virðist vera að ábyrgðinni sé deilt á milli landanna og að gistiríkið, þ.e. Holland eða Bretland, beri ábyrgð á neytendaverndinni og það var einmitt hún sem brást, a.m.k. í Hollandi.

Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann, þar sem hann er nú hagfræðingur, hvort sá botn eða þak sem sett er á áhættuna fyrir Ísland muni ekki til framtíðar bæta lánshæfismat Íslands og hvort það ætti ekki að vekja Íslendinga til bjartsýni ef þeir fyrirvarar verða samþykktir á Alþingi og viðurkenndir af Hollendingum og Bretum sem hluti af samningnum.