137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:42]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, þetta er hárrétt. Við það að samþykkja Icesave-samninginn í sjálfu sér er áhættuminna en þá skapast aftur á móti aðrar áhættur vegna þess að óvissa er um skuldaþol landsins og efnahagsmálin, hvernig hægt verði að standa undir því. Þessir fyrirvarar setja þak sem gera það mun auðveldara og gera það raunar ljóst hver hámarksáhættan er fyrir Ísland. Hámarksáhættan fyrir Ísland er 6% af hagvextinum eins og reglan segir til um.

Það er óháð því ef hlutum eins og neyðarlögum eða öðru slíku er kippt úr sambandi, það þýðir að minna fæst upp í kröfur Landsbankans og þá einfaldlega kemur þetta hagvaxtarhámark inn, þannig að það stillir fyrir mörgum ólíkum atriðum.