137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[17:44]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Jú, það er alveg hárrétt að mjög stórt atriði í þessum fyrirvörum er það að ef þetta gengur eftir minnkum við áhættu og óvissu gríðarlega og lánshæfismat ætti því að vera vissara, þ.e. að lánshæfismatsfyrirtækin geti með meiri vissu gefið okkur betri einkunn, sem þýðir að auðveldara verður að afla lánsfjár og koma efnahagslífinu af stað.

Ég er sammála því að eftir að þessi ófögnuður er að baki sé meiri ástæða til bjartsýni um að efnahagslífið á Íslandi geti farið á ferðina, ef við getum orðað það svo, vegna þess að væntingar fólks byggjast þá ekki á bölsýni um framtíðina heldur verði búið að tryggja efnahagslega framtíð. En þetta er bara eitt atriði, það þarf að vinna að fleiri atriðum.